Byggjum áfram á traustum grunni í Garðabæ

Almar Guðmundsson, oddviti í Garðabæ.

Staðan er góð í Garðabæ. Við sjálfstæðisfólk höfum í gegnum tíðina lagt fram skýr fyrirheit til kjósenda fyrir kosningar og svo nýtt kjörtímabilið til þess að standa við þau. Þannig höfum við byggt upp virkt samtal íbúa sem taka virkan þátt í að móta okkar áherslur. Nú höfum við lagt fram 100 áherslur í stefnuskrá okkar. Við viljum halda áfram á sömu braut og áður og sækja endurnýjað umboð íbúa til að leiða bæinn áfram til móts við nýja tíma.

Það er eftirsóknarvert að búa í Garðabæ því fólk veit að hér er gott, öflugt og traust samfélag. Tölurnar tala sínu máli, í bæinn flykkist fólk á öllum aldri og ánægja með þjónustuna mælist hærri en í nær öllum öðrum sveitarfélögum. Svona framþróun gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að hlusta eftir því hvað skiptir íbúa máli, móta heildstæða sýn og láta verkin tala.

Traust og ábyrg fjármálastjórn

Það er ánægjulegt að umfjöllun um fjárhagsstöðu sveitarfélaga er að aukast í aðdraganda kosninga. Í allri slíkri umfjöllun er niðurstaðan á þann veg að Garðabær stendur mjög sterkt að vígi í samanburði við önnur sveitarfélög. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er lágt og ekkert sveitarfélag skilar eins miklu sjóðstreymi úr rekstri. Góð staða fjármála hefur þýtt að okkur hefur tekist að halda álögum á íbúa lágum. Heilbrigður rekstur hefur líka þýtt að okkur hefur tekist að veita mjög góða þjónustu, eins og íbúar hafa staðfest í könnunum, en samt sem áður skilað afgangi. Sá afgangur hefur gert okkur kleift að fjárfesta án óhóflegrar skuldsetningar. Í því felst meðbyr og geta til að byggja upp innviði og það leiðir til þess að við getum gert meira með minni tilkostnaði.

Spennandi áherslur fyrir íbúa

Í stefnuskrá okkar sjálfstæðisfólks eru mörg mikilvæg framfaramál fyrir bæjarbúa. Við ætlum t.d. að halda áfram að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda og þróa frekar afslætti á gjöldum til einstakra hópa. Þetta er mögulegt á grunni sterkrar fjárhagsstöðu.

Við viljum að Garðbæingar njóti fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu sem mætir nútímaþörfum vaxandi bæjarfélags. Við viljum nýta velferðartækni til að efla heimaþjónustu enn frekar. Við leggjum áherslu á að fá aðra heilsugæslustöð í bæinn og bjóða rekstur hennar út til einkaaðila. Við viljum vinna á sömu nótum með hjúkrunarheimili og sérhæfða dagdvalarþjónustu í huga.

Við viljum halda áfram á þeirri vegferð að styðja við heilsueflingu bæjarbúa og það gerum við með markvissu samstarfi við hin öflugu félög í bænum.

Við ætlum að leggja áherslu á uppbyggingu íbúða á einni hæð, t.d. í Hnoðraholti og Hleinum, fyrir fólk sem vill minnka við sig húsnæði.

Góður árangur er ekki tilviljun

Þegar kosið er í bæjarstjórn þá erum við að velja fólk sem tekur ákvarðanir um margt það sem stendur okkur næst. Ég leiði stoltur öflugan hóp einstaklinga sem bjóða sig fram til góðra verka í bænum okkur. Við í Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ erum þakklát fyrir það traust sem bæjarbúar hafa sýnt okkur og vonumst til að fá skýrt og sterkt umboð til áframhaldandi góðra verka og sóknar. Við trúum því og treystum að íbúar Garðabæjar vilji halda áfram á þeirri vegferð sem hafin er.

Morgunblaðið, 13. maí. 2022.