Ábyrg fjármálastjórn

Helena Eydís Ingólfsdóttir, 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Norðurþingi:

Fjármálastjórn dagsins í dag eru lífsgæði morgundagsins. Með ábyrgri fjármálastjórn sköpum við aðstæður til að veita öfluga grunnþjónustu og bæta lífsgæði íbúa Norðurþings.

Tekjur sveitarfélagsins koma í grunninn úr þremur flokkum; skatttekjur (útsvar og fasteignaskattar), framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og aðrar tekjur sem innheimtar eru af þjónustu sem sveitarfélagið veitir íbúum. En sama hvernig á það er litið koma í raun allar tekjur frá íbúum sjálfum og því mikilvægt að vel sé farið með þá fjármuni sem kjörnum fulltrúum er treyst til að höndla með.

Grunnforsendur rekstrar eru að tekjur standi undir gjöldum. Ef svo er ekki þarf að grípa inní með því að breyta eða minnka þjónustu, selja eignir eða taka lán. Heimildir sveitarfélaga til lántöku eru öllu jöfnu háðar þeim takmörkunum að vera eingöngu til fjárfestinga, en ekki til viðhalds eða rekstrar. Undantekningar á þessu hafa þó verið gerðar í kjölfar covid og vara þær tímabundið. Frá árinu 2014 hafa tekjur Norðurþings aukist úr tæplega 3 milljörðum kr. í um 5.6 milljarða króna. Kostnaður hefur sömuleiðis aukist, ekki hvað síst vegna launaþróunar undanfarinna ára þar sem starfsfólk sveitarfélaga í landinu hafa náð fram umtalsverðum kjarabótum.

Veltufé

Veltufé frá rekstri segir til um getu sveitarfélagsins til að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum. Á undangengnum tveimur kjörtímabilum hefur veltufé frá rekstri verið að aukast sem segir okkur að sveitarfélagið eigi auðveldara með að standa undir afborgunum lána og fjárfestingum.

Mynd 1. Myndin sýnir veltufé frá rekstri í milljónum kr. á verðlagi desember 2021.

Tölum um skuldastöðu

Því hefur verið haldið fram að taka þurfi á skuldastöðu sveitarfélagsins. Ef skuldir við lánastofnanir frá árinu 2014 til ársloka 2021 eru bornar saman á verðlagi í árslok 2021 kemur í ljós að skuldir við lánastofnanir hafa farið lækkandi. Skuldir við lánastofnanir eru þau lán sem sveitarfélagið tekur vegna fjárfestinga eins og gatnagerðar eða nýrra fasteignabygginga. Heildarskuldir sveitarfélagsins bornar saman á verðlagi í árslok 2021 hafa sömuleiðis farið lækkandi. Á þeim hefur sveitarfélagið minni stjórn þar sem þær lúta t.d. að lífeyrisskuldbindingum sem hafa hækkað umtalsvert á liðnum árum. Hafa ber í huga að í ársreikningi ársins 2014 var ekki búið að færa Dvalarheimili aldraðra Hvamm inn í samstæðu Norðurþings. Þannig að þá var ekki gerð grein fyrir skuldbindingu sveitarfélagsins til að kaupa búseturétt af íbúum Hvamms í þeim ársreikningin. Það hefur hins vegar verið gert allar götur síðan og undir „aðrar skuldbindingar“ bættust því við 308 mkr vegna þessa árið 2015. „Aðrar skuldir“ sveitarfélagins sem svo er lýst í ársreikningum samanstanda í dag af búseturéttarskuldbindingunni og víkjandi láni hafnarsjóðs frá ríkinu upp á rúmar 900 mkr. Lánið var veitt vegna framkvæmda við Bökugarð. Skuldastaðan hefur meðal annars lagast vegna þess að veltufé frá rekstri hefur aukist og lántökur hafa verið í lágmarki vegna fjárfestinga sem náðst hefur að stórum hluta að fjármagna út úr rekstri.

Mynd 2. Myndin sýnir þróun skulda við lánastofnanir og heildarskulda Norðurþings á verðlagi desember 2021.

Skuldaviðmið er í raun sama hugtak og skuldahlutfall sem oft hefur verið notað til að lýsa fjárhagslegri stöðu sveitarfélags nema í skuldaviðmiðinu eru núvirði lífeyrisskuldbindinga sem áætlað er að komi til greiðslu lífeyris eftir 15 ár og síðar dregnar frá. Í árslok 2014 var skuldaviðmiðið fyrir Norðurþing 160%, en má ekki vera yfir 150% skv. íslenskum lögum og af þeim sökum vorum við á svörtum lista og undir sérstöku eftirliti sveitarstjórnarráðuneytisins. Fari framangreint viðmið yfir 150% er fjárhagur sveitarfélagsins talinn ósjálfbær. Í árslok 2021 stóð sama skuldaviðmið í 77% og hefur því lækkað um 83 prósentustig á þeim átta árum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í forystu í sveitarstjórn.

Hverjum ætlar þú að treysta til að fara með þitt skattfé á ábyrgan hátt?