Markaðstorg skoðana og upplýsinga

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Ef búið er til þjóðmála­torg þar sem stjórn­mála­menn, blaðamenn, fræðimenn, lista­menn – hinar talandi stétt­ir – rök­ræða stöðugt hver við ann­an, fella palla­dóma um menn og mál­efni, deila skoðunum og upp­lýs­ing­um og fá viðbrögð frá les­end­um strax er ekki und­ar­legt að til verði öfl­ugt verk­færi til að hafa áhrif á skoðanir og jafn­vel þær upp­lýs­ing­ar sem tald­ar eru gild­ar. Al­menn­ir borg­ar­ar reyna að hasla sér völl á torg­inu og setja fram sín­ar skoðanir og gagn­rýni. Á marg­vís­leg­um skoðana­torg­um er sum­um hampað en öðrum ekki – ein­hverj­ir eru for­dæmd­ir en aðrir eru hafn­ir upp til skýj­anna. Hægt og bít­andi byrja torg­in að móta alla umræðu sam­fé­lags­ins og viðhorf og þar með er lagður grunn­ur að því að móta sam­fé­lags­gerðina.

Það á ekki að koma nein­um á óvart að það sé eft­ir­sókn­ar­vert að hafa áhrif á leik­regl­ur þjóðmála­torgs­ins og stjórna því hvaða efni er kynnt, hvað er sett til hliðar og hvað ekki. Ein­ræðis- og alræðis­stjórn­ir leggja mikið á sig til að taka að sér fund­ar­stjórn á þjóðmála­torg­um eða hrein­lega loka séu þau ráðamönn­um ekki að skapi. Fyr­ir stjórn­lynda auðmenn er freist­ing­in til að kaupa hrein­lega fund­ar­stjórn­ina mik­il. Stjórn­mála­menn hóta laga- og reglu­gerðar­setn­ingu af ótta við að torg­in verði vett­vang­ur skoðana sem eru þeim ekki geðþekk­ar eða grafa und­an þeirra eig­in hug­mynda­fræði. Og svo eru þeir sem vilja tryggja að þjóðmála­torg­in séu lif­andi og op­inn vett­vang­ur frjálsra skoðana­skipta – þar sem staðinn er trygg­ur vörður um mál­frelsi al­menn­ings.

End­ur­skipu­lagn­ing þjóðmála­torgs

Auðkýf­ing­ur­inn Elon Musk full­yrðir að hann sé í síðast­nefnda hópn­um. Með yf­ir­töku á Twitter – ein­um áhrifa­mesta sam­fé­lags­miðli heims – seg­ist Musk ætla að end­ur­skipu­leggja þjóðmála­torgið á Twitter til að tryggja skoðana­frelsi og ýta und­ir öfl­ug skoðana­skipti og dreif­ingu upp­lýs­inga. Hvort hann stend­ur við fyr­ir­heit­in á eft­ir að koma í ljós, en ým­is­legt bend­ir til að hon­um sé al­vara.

Áhrifa­mikl­ir sam­fé­lags­miðlar eins og Twitter og Face­book hafa sætt mik­illi gagn­rýni fyr­ir til­raun­ir til rit­skoðunar. Hér verður ekki farið út í þá gagn­rýni að sinni en flest­ir muna eft­ir harðvítug­um deil­um Trumps, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta, og for­ráðamanna Twitter.

Þjóðmála­torg Twitters er aðeins hluti af óskil­greindu og fjöl­breyti­legu markaðstorgi fyr­ir net­sam­skipti, afþrey­ingu, frétta- og upp­lýs­inga­miðlun. Markaðstorgið er óstöðugt – sí­breyti­legt þar sem jafn­vel öfl­ug­ustu leik­menn­irn­ir verða oft und­ir á end­an­um.

For­ráðamenn Net­flix byggðu upp afþrey­ing­ar­veldi enda sann­færðir um að vöxt­ur fyr­ir­tæk­is­ins gæti orðið enda­laus. Þeir höfðu rangt fyr­ir sér og áskrif­end­um fækk­ar í fyrsta skipti enda í harðri sam­keppni við nýja leik­menn; inn á sviðið hafa stigið Hulu, Apple TV+ og Disney+.

Í heimi streym­isveitna hef­ur göml­um ris­um í kap­al­heim­in­um gengið erfiðlega að fóta sig. CNN, einn áhrifa­mesti fréttamiðill heims um ára­bil, má muna fíf­il sinn fegri. Áhorf á CNN hef­ur hrapað. Mánuði eft­ir að hafa kynnt eig­in streym­isveitu, CNN+, var ákveðið að leggja hana niður. Það æv­in­týri kostnaði 300 millj­ón­ir doll­ara.

Og jafn­vel Face­book er í erfiðleik­um. Not­end­um sam­fé­lags­miðils­ins er að fækka og tækni- og skil­mála­breyt­ing­ar í farsím­um hafa höggvið skarð í aug­lýs­inga­tekj­ur. Google er ekki leng­ur vin­sæl­asta vefsíða heims. Og hver man eft­ir Ya­hoo?

Flest eru þessi fyr­ir­tæki enn öfl­ug en sum hafa hrasað. Og þeim er stöðugt ógnað af nýj­um aðilum, nýrri tækni og nýrri hugs­un. Markaðstorgið er kvikt og nær aldrei jafn­vægi, ólíkt því sem stjórn­lynd­ir fjöl­miðla- og stjórn­mála­menn vilja telja okk­ur trú um í þeirri viðleitni sinni að koma bönd­um á þjóðmála­torgið – inn­leiða eins kon­ar op­in­bera fund­ar­stjórn.

Frjáls skoðana­skipti

Elon Musk er óvenju­leg­ur auðmaður – um­deild­ur frum­kvöðull sem hef­ur verið óhrædd­ur við að segja sín­ar skoðanir. Hann hef­ur komið fram sem harður bar­áttumaður mál­frels­is og seg­ist ætla að breyta Twitter til að tryggja að sam­fé­lags­miðill­inn verði vett­vang­ur frjálsra skoðana­skipta. Musk er sann­færður um að þar hafi for­ráðamönn­um Twitter verið mislagðar hend­ur en einnig að hægt sé að ná miklu betri ár­angri í rekstri fyr­ir­tæk­is­ins.

Viðbrögðin við yf­ir­töku Musks á Twitter hafa verið áhuga­verð. Marg­ir vinstri­menn um all­an heim eru að fara af lím­ing­un­um. Rit­skoðun sem sum­ir sam­fé­lags­miðlar hafa inn­leitt síðustu ár hef­ur verið í góðri sátt við póli­tísk­an rétt­trúnað og það hent­ar stjórn­lynd­um mönn­um vel. Bú­ast má við að Musk gangi á hólm við rétt­trúnaðinn og hafni rit­skoðun síðustu ára.

Að þessu leyti er yf­ir­tak­an á Twitter fagnaðarefni en um leið eykst hætt­an á að stjórn­mála­menn grípi til aðgerða til að koma bönd­um á þjóðmála­torgið og til þess munu þeir njóta stuðnings áhrifa­mik­illa ein­stak­linga úr röðum talandi stétta, sem telja sig þess bet­ur um­komna en aðra að móta umræðuna og þar með sam­fé­lagið allt.

Þannig mun lík­lega sann­ast enn og aft­ur að þeir sem mest eru upp­tekn­ir af því að kenna sig við umb­urðarlyndi og tala hæst um mál­frelsi og rétt­inn til að láta skoðanir sín­ar í ljós eru í hjarta sínu stjórn­lynd­ir og sann­færðir um nauðsyn þess að koma á fót öfl­ug­um eft­ir­lits­stofn­un­um með fjöl­miðlum og þjóðmála­torg­um, sem skulu því færð í far­veg reglu­gerða og flók­inna laga.