Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Í kjördæmavikunni heimsóttum við Sjálfstæðismenn í Reykjavík m.a. verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki. Atvinnurekendur í þeim greinum höfðu næg umkvörtunarefni fyrir okkur þingmenn og borgarfulltrúa og m.a. töldu þeir sig reka n.k. þjálfunarbúðir fyrir ríkisstarfsmenn. Það væri sem sagt viðvarandi vandamál á þessum vinnustöðum að þegar hið opinbera auglýsti eftir háskólamenntuðum sérfræðingum með reynslu stykkju þeir til.
Þessar umkvartanir eru í takt við nýlega greiningu Samtaka atvinnulífsins sem benda á að Íslendingar leiti í auknum mæli í ný störf hjá hinu opinbera meðan einkageirinn mannar ný störf með erlendu starfsfólki.
Opinberum starfsmönnum hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru opinberir starfsmenn rúmlega 60.000 á árinu 2021 eða um þriðjungur af heildarfjölda launafólks í landinu. Á sama tíma hafa laun opinberra starfsmanna hækkað hraðar en laun á almennum markaði. Það viðhorf hefur verið ríkjandi lengst af að laun opinberra starfsmanna eigi að vera lægri en þau sem tíðkast á frjálsum markaði. Ástæðan er að opinberir starfsmenn hafa notið mun betri réttinda en annað vinnandi fólk.
Réttarstaða opinberra starfsmanna hefur styrkst en á sama tíma hafa kjör þeirra hafa batnað og þeim fjölgað mikið. Það er því ekki nema von að starfsfólk leiti yfir í betri kjör, s.s. góð laun, meira starfsöryggi og styttingu vinnuvikunnar; yfir í hlýjan og öruggan faðm hins opinbera. Talsmenn opinbera og almenna markaðarins líta þessa stöðu eflaust ólíkum augum, en ásóknin í opinber störf segir sína sögu.
Þessi þróun er varhugaverð. Frjálsi markaðurinn á að vera leiðandi í launaþróun og öðrum starfskjörum. Það verður að tryggja að það sé eftirsóknarvert og aðlaðandi að starfa þar sem verðmætasköpun hagkerfisins er, á almennum markaði. Hið opinbera má ekki yfirbjóða einkageirann á öllum sviðum. Til lengdar skaðar það alla; líka opinbera starfsmenn. Það er skammsýni að koma ekki auga á þessi sannindi. Því hver á að borga reikninginn þegar upp er staðið?
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. apríl 2022.