Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Varnaræfingin Norður-Víkingur stendur nú yfir hér við land með liðsafla frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Noregi og Þýskalandi. Megintilgangurinn er að æfa varnir siglingaleiða umhverfis Ísland og mikilvægra öryggisinnviða en einnig leit og björgun á sjó og landi. Æfingar sem þessi gegna þýðingarmiklu hlutverki bæði fyrir öryggi okkar Íslendinga og bandalagsríkja okkar. Þær eru tækifæri til þess að viðhalda getu og viðbúnaði sem vera þarf til staðar. Á slíkum æfingum þjálfast herir ólíkra bandalagsríkja í samskiptum við krefjandi aðstæður og getur slíkur undirbúningur reynst ómetanlegur ef efla þarf varnir eða viðbúnaðarstig á Norður-Atlantshafi. Landslag, veðurfar og ýmsar aðrar séríslenskar aðstæður eru þar að auki álitnir ákjósanlegir eiginleikar í okkar umhverfi.
Sem herlaus þjóð tryggir Ísland öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og á vettvangi alþjóðastofnana. Þar skipta aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin meginmáli. En við getum ekki ætlast til þess að vera algjörir þiggjendur í slíku samstarfi. Þátttaka Íslands í fjölþjóðasamstarfi um öryggis- og varnarmál á borgaralegum forsendum getur reynst verðmæt. Hún felur meðal annars í sér að Ísland geti staðið undir skuldbindingum sínum og veitt stuðning sem gistiríki kalli aðstæður á eflingu varna Íslands eða Atlantshafsbandalagsins. Ísland leggur því sitt af mörkum vegna liðsafla bandalagsríkja sem kemur til æfinga eða annarra varnartengdra verkefna, meðal annars með rekstri eftirlits- og fjarskiptabúnaðar og mannvirkja og með því að tryggja að sérhæft starfsfólk sé til reiðu.
Það er á ábyrgð okkar að tryggja að skilningur sé á sérstöðu og öryggishagsmunum Íslands. En það skiptir líka máli að sýna fram á að við tökum skyldurnar gagnvart bandalagsþjóðum okkar alvarlega og gerum það sem í okkar valdi stendur til að uppfylla þær. Þetta þurfum við í auknum mæli að gera að eigin frumkvæði og þegar eftir því er leitað. Ef íslenskur stórsjór og slagviðri geta gagnast við það er það hið besta mál.
Vísir, 05.04.2022.