Málfundaæfingar í þingsal

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins: 

Yfirbragð þingstarfa síðustu vikur hefur í besta falli verið sérkennilegt og líklega ekki til þess fallið að auka traust eða virðingu þingsins. Í yfirstandandi mánuði hafa þingmenn stjórnarnandstöðunnar talið nauðsynlegt að taka nokkur hundruð sinnum til máls vegna fundarstjórnar forseta – ekki til að ræða um form líkt og þingsköp mæla fyrir heldur um efni máls. Og þeir hafa verið duglegir að spjalla við hvern annan í andsvörum, milli þess sem þeir endurtaka efnislega ræður hvers annars í umræðum um þingmál sem vissulega skipta land og þjóð misjafnlega miklu.

Þinghaldið allt er því í hægagangi. Tugir stjórnarmála bíða umræðu. Mörg hafa verið á dagskrá þingsins dögum saman án þess að ráðherrar hafi fengið tækifæri til að mæla fyrir þeim. Efnisleg umræða fer ekki fram, frumvörp og þingsályktunartillögur komast ekki til nefnda og því ekki send út til umsagnar. Misjafnlega merkilegar málfundaæfingar í þingsal halda hins vegar áfram.

Beitt vopn

Í hugum flestra stjórnarþingmanna hefur stjórnarandstaðan stundað skipulagt málþóf síðustu vikur að því er virðist í þeim eina tilgangi að hindra framgang stjórnarmála sem njóta stuðnings meiri hluta þingsins. Um það hvort málþófi sé beitt eða ekki, dæma þau best sem standa utan þings og hafa haft tækifæri til að fylgjast með störfum og málflutningi þingmanna.

En kannski er það aukaatriði hvort nú standi yfir málþóf á þingi eða ekki. Ég hef lengi verið sannfærður um að málþóf sé óaðskiljanlegur hluti þingræðis. Oft á stjórnarandstaða ekki önnur úrræði til að hafa áhrif á gang mála og/eða koma í veg fyrir að ríkisstjórn og meiri hluti þingsins nái fram óþurftamálum. Tilraun vinstri stjórnarinnar 2009 til 2013 til að þjóðnýta skuldir einkabanka og leggja þær á herðar skattgreiðenda, var hrundið vegna harðar stjórnarandstöðu sem var sökuð um að beita málþófi. Ekkert málþóf hefur skilað íslenskum almenningi meiri árangri. Hefði tilraun ríkisstjórnarinnar tekist væri íslenskt launafólk enn að bogna undan þungum klyfjum.

Málþóf getur verið beitt vopn sem er ekki aðeins réttlætanlegt að nota heldur er beinlínis skylda stjórnarandstöðu að beita. En vopnið er vandmeðfarið og það er auðvelt að misnota það. Sú hætta er alltaf fyrir hendi að það snúist í höndunum á þeim sem því beita. Þegar málþóf snýst ekki um grundvallaratriði en er aðeins tilraun til að leggja steina í götur sem flestra stjórnarmála, er líklegra en hitt að málsþófsmennirnir standi særðir eftir, en þeir er særa átti, ósærðir og sterkari en áður.

(Það er svo kómískt að þeir þingmenn sem hæst tala um nauðsyn þess að þingið tileinki sér „ný“ vinnubrögð, eigi samtal um ólíkar skoðanir og betra samstarf, eru atkvæðamestir í málfundaæfingum og ófeimnir við að nýta sér réttinn til málþófs.)

Leiða má líkur að því að stjórnarandstaðan hafi sannfært sjálfa sig um að hægt sé að vinna pólitíska landvinninga með því koma í veg fyrir þinglega meðferð stjórnarmála. Hún, eins og raunar flestir stjórnarþingmenn, ráðherrar og fjölmiðlar, eru fastir í þeim misskilningi að gæði þingstarfa verði aðeins mæld með fjölda lagafrumvarpa og tillagna sem afgreidd eru á hverjum þingvetri; hversu mörg þingmál eru lögð fram, hversu margar fyrirspurnir og skýrslubeiðnir.

Himinn og jörð farast ekki

Eftir að Alþingi lauk störfum í júní á síðasta ári skrifaði ég meðal annars á þessum stað:

„Ég hef í gegnum árin verið gagnrýninn á þann mælikvarða sem flestir styðjast við þegar mat er lagt á þinghald, frammistöðu ráðherra og þingmanna. Fjöldi afgreiddra mála – lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna – segir lítið sem ekkert um gæði og störf löggjafans. Raunar er hægt að færa rök fyrir því að eftir því sem meira er afgreitt því verra sé það fyrir almenning og fyrirtækin. Lífið verður flóknara og oftar en ekki þyngjast byrðarnar.“

Síðar í sömu grein kom fram að ég hefði oft ítrekað „við félaga mína í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og einnig við nokkra samverkamenn í stjórnarliðinu að sum mál – frumvörp ríkisstjórnar og þingmanna væru einfaldlega þannig að hvorki himinn né jörð myndi farast þótt þau dagaði uppi og yrðu ekki afgreidd. Raunar væru nokkur sem aldrei mætti samþykkja.“

Þegar þetta er skrifað eru sex þingvikur eftir af yfirstandandi löggjafarþingi. Öllum sem þekkja er ljóst að ekki verður unnt að afgreiða mörg mál á þeim tíma – ekki einu sinni þau sem til framfara horfa – jafnvel þótt hið ólíklega gerist að allir bretti upp ermar. Í upphafi kjörtímabils er það langt í frá slæmt fyrir ríkisstjórn. Oftar en ekki eru þolinmæði og úthald mestu styrkleikar stjórnmálamanna.

Málfundaæfingar í þingsal halda sjálfsagt áfram næstu daga en tilgangurinn er óljós nema sá einn að koma í veg fyrir þinglega meðferð stjórnarmála. Að þessu leyti minna æfingarnar – málþófið – fremur á ómarkvissan skæruhernað en baráttu fyrir ákveðnum málefnum. Telji stjórnarandstaðan hagsmunum sínum sé best þjónað með þeim hætti er lítið við því að segja. Biturleiki vegna úrslita kosninga á liðnu hausti rekur einhverja áfram í málfundaæfingunum. Yfirbragð Alþingis verður þá óbreytt frá því sem verið hefur síðustu vikurnar.

En kannski leiðréttist vitlaus mælikvarði á gæði þingstarfa örlítið þegar þingi verður slitið í júní næstkomandi.

Morgunblaðið, 30. mars. 2022