Diljá Mist Einarsdóttir, alþingismaður:
Sem þingmaður Reykvíkinga lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi til innviðaráðherra um stöðu tiltekinna framkvæmda í Reykjavík samkvæmt ákvæðum samgöngusáttmálans. Í vikunni sem leið svaraði ráðherrann fyrirspurn minni munnlega á þinginu.
Af svörum hans virðist mér ljóst að Reykjavíkurborg hafi ekki staðið við ákvæði sáttmálans, m.a. um þær framkvæmdir sem átti að flýta sérstaklega samkvæmt efni hans. Mér var þetta að vísu ljóst fyrir umræðurnar í þinginu, enda íbúi í Reykjavík.
Í samgöngusáttmálanum segir að strax verði ráðist í markvissar aðgerðir til að bæta umferðarljósakerfi. Samkvæmt svörum innviðaráðherra hefur á þessum rúmum tveimur árum farið fram greining á kerfinu, það hefur verið stofnaður samstarfshópur sem var falið að gera aðgerðaáætlun og verið er að vinna að því að skilgreina markmið og stefnu, svo notast sé við orð ráðherrans. Að tveimur árum liðnum hefur því ekki enn verið „ráðist í markvissar aðgerðir til að bæta umferðarljósakerfi“ hér í Reykjavík.
Ég spurði ráðherrann einnig um gatnamót við Bústaðaveg, og lagningu Arnarnesvegar og gatnamóta við Breiðholtsbraut, en samkvæmt framkvæmdaáætlun átti þessum framkvæmdum að ljúka á árinu 2021. Hann upplýsti að unnið væri að frumdrögum að breyttri útfærslu að gatnamótum við Bústaðaveg og að ferli við mat á umhverfisáhrifum væri hafið. Ekki væri hins vegar gert ráð fyrir að framkvæmdin yrði boðin út fyrr en á næsta ári. Hvað varðar Arnarnesveg og Breiðholtsbraut væri nú unnið að hönnun framkvæmdarinnar og áætlað að hún hæfist um mitt þetta ár. Það er því ljóst að þessar framkvæmdir hafa tafist verulega.
Innviðaráðherra greindi sömuleiðis frá því að unnið væri að undirbúningi þróunar, rannsóknum og greiningu á Keldnalandi og taldi hann það ganga ágætlega þótt hann gæti ekki fullyrt um tímalínu uppbyggingar á landinu. Samkvæmt samgöngusáttmálanum er uppbygging Keldnalands mikilvæg til að vinna enn frekar að samningsmarkmiðum og er hún því á lista yfir flýtiframkvæmdir.
Þótt innviðaráðherra fullyrði enn að samgöngusáttmáli innihaldi ákvæði um umfangsmestu framkvæmdir sögunnar til að flýta fyrir úrbótum á höfuðborgarsvæðinu gefur framgangur verkefnanna vísbendingu um annað. Og er það nema von að við sem höfum beðið eftir Sundabraut í Reykjavík rúm 30 ár höfum efasemdir?
Markmið samgöngusáttmálans er að auka öryggi, bæta samgöngur, minnka tafir og draga úr mengun og það er ríkið sem fjármagnar hann að langstærstum hluta. Það er ríkið sem borgar brúsann. Ég lagði því fram þessa fyrirspurn til innviðaráðherra, ekki síst til þess að hvetja hann til þess að hafa virkt og öflugt eftirlit með því að Reykjavíkurborg standi við samkomulagið. Þar eð jafnvel framkvæmdir sem eru í forgangi samkvæmt efni sáttmálans hafa dregist óhóflega hlýtur ríkið að íhuga alvarlega að krefjast efnda án tafar. Reykjavíkurborg getur ekki valið efndir úr ákvæðum sáttmálans andspænis skýrum ákvæðum sáttmálans um forgangsröðun. Þannig virka samningsskuldbindingar ekki. Nema þá kannski hjá Reykjavíkurborg.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2022.