Ísland stendur með Úkraínu

 Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.

Við Íslendingar höfum, eins og heimsbyggðin öll, fylgst með hetjulegri vörn úkraínsku þjóðarinnar gegn árás rússneska hersins síðustu daga. Ég trúi því að hugur okkar allra og bænir séu hjá henni þessa daga.

Raunar sýnir ný skoðanakönnun Gallup að mikil samstaða ríkir þar sem 99% Íslendinga standa algjörlega með úkraínsku þjóðinni. Þetta er áhugaverð staða, ekki síst í ljósi þess að rússnesk stjórnvöld hafa lagt mikla vinnu í að spinna vef ósanninda utan um árásarstríð sitt. Það er huggun að sjá svart á hvítu að ákaflega sjaldgæft er að fólk hér á landi hafi látið glepjast.

Útúrsnúningar og fals

Réttlætingar stjórnvalda í Rússlandi fyrir innrásinni eru fánýtar og byggjast á útúrsnúningum og falsi. Þar stendur ekki steinn yfir steini, en tilgangurinn er að draga úr þeirri miklu samstöðu sem myndast hefur gegn stríðsrekstrinum. Skoðanakönnunin sýnir að réttlætingar Rússlandsstjórnar fá ekki hljómgrunn hér. Í henni kemur fram að einungis 4% Íslendinga telja að nokkur réttlæting sé fyrir innrásinni en 93% hafa komist að þeirri niðurstöðu að hún sé algjörlega tilefnislaus. Þótt vissulega sé sjaldgæft að flóknir hlutir séu „svart-hvítir“ þá má segja að hér sé nánast eins gott dæmi um slíkt og hugsast getur. Í sjö ár hafa rússnesk stjórnvöld haft tögl og hagldir í tveimur héruðum Úkraínu. Reynsla heimamanna af þeirri stjórn er bitur. Um tvær milljónir úkraínskra borgara hafa flúið úr þessum héruðum sem Rússar stjórna og leitað skjóls annars staðar í Úkraínu. Ömurleg óstjórn á þessum svæðum hefur sannfært stóran hluta úkraínsks almennings um mikilvægi þess að forða allri Úkraínu frá sömu örlögum.

Ég tel að við blasi að vilji nánast allrar íslensku þjóðarinnar standi til þess að við höldum áfram að leggja allt sem við getum af mörkum til þess að veita Úkraínu liðsinni. Það er einnig stefna mín sem utanríkisráðherra og um þá stefnu ríkir algjör einhugur í ríkisstjórn Íslands. Þegar kemur að því að styðja við Úkraínu skiptir máli að hlusta vel eftir því sem þörf er á að mati stjórnvalda í Úkraínu og þeirra alþjóðlegu stofnana sem bestar upplýsingar hafa um raunverulega stöðu mála.

Á síðustu dögum hefur Ísland lofað fjárhagslegu framlagi til mannúðaraðstoðar í Úkraínu. Upphaflega var tilkynnt um einnar milljónar evra framlag, en síðan hefur verið ákveðið að ríflega tvöfalda þá upphæð. Þá hefur Ísland tekið fullan þátt í harkalegum viðskipta- og efnahagsþvingunum gagnvart Rússlandi í góðu samstarfi við okkar vina- og bandalagsþjóðir í Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Í því máli hef ég fundið fyrir mikilli og einarðri samstöðu þar sem ríkjandi afstaða hagsmunaaðila í atvinnulífinu hefur verið að sýna samstöðu með slíkum aðgerðum.

Við Íslendingar erum herlaus þjóð. Oft er því bætt við að við séum friðelskandi. Vissulega erum við það. En reyndin er sú að venjulegt fólk í öllum löndum – almenningur – er líka friðelskandi og hatar stríð. Þetta á einnig, og ekki síst, við í löndum sem ekki geta kosið þann munað að vera herlaus. Við getum leyft okkur að vera þakklát fyrir herleysið okkar, en við ættum ekki að gorta af því. Ísland treystir nefnilega líka á hernaðarstyrk þegar á reynir til þess að tryggja frið og öryggi. Af þeim sökum er ég eflaust ekki ein um að hugsa nú með miklu þakklæti til þeirra sem staðið hafa einatt vörð um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamning okkar við Bandaríkin. Þar á flokkurinn sem ég veiti varaformennsku, Sjálfstæðisflokkurinn, stóran þátt. Oft hafa vindar dægurmálanna blásið hressilega á móti þeim sem hafa tekið sér varðstöðu með vestrænu samstarfi, en sem betur fer hefur aldrei komið til greina að bogna í þeirri staðfestu.

Þakklát fyrir samstöðu og einurð

Allt bendir til þess að hin grimmilega innrás sé hugarfóstur eins manns, eða mjög fámennrar klíku. Fórnarlömbin telja hins vegar tugi milljóna, því lífi heilla þjóða hefur verið umturnað. Mér er umhugað um að við gleymum því ekki að almennir borgarar í Rússlandi eru líka fórnarlömb, og það má líka segja um óbreytta hermenn sem att er út í hörmungar stríðs án þess að hafa um það val. Ljótleikinn er algjör. Tár þeirra sem syrgja hina föllnu eru keimlík hvort sem þau flæða úr augum úkraínskra eða rússneskra dætra, sona, mæðra, feðra, bræðra og systra.

Árásarstríð Rússlandsforseta er raunveruleg ógn sem taka ber alvarlega. Ég er ákaflega þakklát fyrir þá samstöðu og einhug sem ríkt hefur um viðbrögð Íslands. Þetta á við innan ríkisstjórnarinnar, innan þingsins og í samfélaginu öllu. Öll óskum við eftir að átökunum ljúki skjótt, en þangað til kemur ekkert annað til greina en að halda áfram að styðja málstað alþjóðalaga, frelsis og mannréttinda – og við hina huguðu úkraínsku þjóð.

Morgunblaðið, 5. mars.