Ákveðið hefur verið að loka lofthelgi Íslands fyrir rússneskri flugumferð. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni í gær. Auk þess var lokað fyrir vegabréfsáritanir rússneskra diplómata, viðskiptafólks, þingmanna og fulltrúa stjórnvalda. Þeir munu því ekki geta komið hingað til lands.
Í nótt flutti fraktflutningavél á vegum íslenskra stjórnvalda búnað til notkunar í Úkraínu, en flogið var með búnaðinn frá Slóveníu til landamæra Úkraínu í samvinnu við þarlend yfirvöld.
„Íslensk stjórnvöld munu halda áfram að leita leiða til þess að koma úkraínsku þjóðinni til aðstoðar með þeim hætti sem er á okkar færi og í samræmi við þeirra óskir og þarfir,“ segir Þórdís Kolbrún á vef utanríkisráðuneytisins.