Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra féllst á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á frekari eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka.
Er salan í samræmi við ákvæði laga, stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, niðurstöðu hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið og eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Í eigendastefnunni kemur m.a. fram að stuðla skuli að því að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði og að íslensk fjármálafyrirtæki verði til framtíðar í fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi.
Fyrsta skref á sölu eignarhluta ríkisins í bankanum var tekið með frumútboði á 35% hlut í bankanum og töku hlutanna í kjölfarið til viðskipta á aðalmarkað Kauphallar Íslands 22. júní 2021. Við þá sölu eignuðust tæplega 24.000 hluthafar hlut í bankanum, og Íslandsbanki varð þar með fjölmennasta almenningshlutafélag á Íslandi.
Hver hlutur var seldur á 79,- kr. og nam söluandvirði hlutanna 55,3 milljörðum króna. Var um stærsta frumútboð hlutabréfa og næst stærsta almenna útboð hlutabréfa á Íslandi að ræða. Í lok árs 2021 var lokaverð á hvern hlut 123,3 kr. og markaðsvirði hlutafjár bankans því 246,3 milljarðar og markaðsvirði 65% eignarhlutar ríksisins 160,2 milljarðar.
Helstu markmið með áframhaldandi sölu eru að:
- minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu;
- efla virka samkeppni á fjármálamarkaði;
- hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum;
- stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma;
- auka fjárfestingarmöguleika fyrir einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst
- minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.