Mýrarnar eru mikilvægar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra:

Alþjóðlegi votlendisdagurinn er í dag, 2. febrúar, en hann er haldinn ár hvert á stofndegi Ramsarsamningsins um vernd votlendis. Kveikjan að gerð samningsins voru áhyggjur af fækkun votlendisfugla. Vernd og endurheimt votlendis eru enn brýnni viðfangsefni í dag en þegar Ramsarsamningurinn var undirritaður fyrir rúmri hálfri öld, þar sem vísindin hafa leitt í ljós mikilvægi votlendis í loftslagsvernd.

Ísland er aðili að samningnum og eru sex friðlýst votlendissvæði á skrá Ramsar hér á landi: Andakíll við Hvanneyri, Grunnafjörður í Hvalfjarðarsveit, Guðlaugstungur við Hofsjökul, Mývatn og Laxá, Snæfells- og Eyjabakkasvæðið og Þjórsárver. Hvert svæði hefur sína sérstöðu, en öll eru þau mikilvæg búsvæði og viðkomustaðir fugla.

Votlendi þjóna lífríki, loftslagi og efnahag

Votlendi setur sterkan svip á íslenska náttúru og myndar samofið net frá fjörum og leirum upp um ósa, ár og vötn til mýra og flóa. Votlendi býr oft yfir fjölbreyttu lífríki og gegnir mikilvægu hlutverki við að miðla næringu og vatni.

Votlendi er meðal afkastamestu vistkerfa á jörðinni, sambærilegt við regnskóga og kóralrif, og þau veita manninum margvíslega þjónustu. Í rigningum taka votlendissvæði til sín vatn en miðla því frá sér í þurrkatíð, og tempra þannig öfga í vatnafari.

Í votlendisjarðvegi er bundið mikið magn kolefnis. Á jörðinni þekja votlendissvæði um 3% yfirborðs lands en þau geyma 20–30% alls lífræns kolefnis á landi. Mikilvægt er að það tapist ekki, sem getur gerst við framræslu og aðra röskun. Vernd og endurheimt votlendis á heimsvísu hefur öðlast nýtt vægi eftir að gildi þeirra til að draga úr loftslagsbreytingum varð ljóst.
Votlendissvæði geta haft mikið efnahagslegt gildi þar sem þau eru uppspretta margvíslegra auðlinda og fæðu, t.d. fiska og fugla, og eru oft vinsæl svæði fyrir ferðaþjónustu.

Breyttir tímar kalla á nýja nálgun

Talið er að votlendi þeki um 20% af grónu flatarmáli Íslands. Um 50% votlendis á Íslandi hefur verið ræst fram, eða um 420 þúsund hektarar. Við framræslu votlendis lækkar vatnsyfirborð og súrefni fær greiða leið niður í jarðveginn. Þetta verður til þess að lífrænt efni, sem hefur safnast upp öldum saman, tekur að brotna niður með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda.

Framræsla votlendis hér á landi stóð að mestu yfir á 40 ára tímabili á síðari hluta síðustu aldar með það að meginmarkmiði að bæta skilyrði til túnræktar. Land hefur einnig verið þurrkað til að bæta beitilönd og vegna ýmissa framkvæmda, s.s. vegagerðar og bygginga. Þetta var lengi gert með stuðningi ríkisvaldsins og var af nær öllum talið til framfara.

Í dag eru breyttir tímar. Vísindin hafa sýnt okkur fram á mikilvægi votlendis fyrir loftslag jarðar, sem fáir eða enginn leiddi hugann að fyrir hálfri öld. Talsverður hluti framræsts votlendis er ekki nýttur undir tún eða aðra ræktun og því eru tækifæri til endurheimtar votlendis mikil. Það þarf auðvitað að gerast í sátt við bændur og aðra landeigendur og á grunni bestu vísindaþekkingar.

Endurheimt votlendis er af hinu góða þar sem hægt er að koma henni við, en er ekki síður mikilvægt að raska ekki því votlendi sem óraskað er. Votlendi nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og ber að forðast að raska því nema brýna nauðsyn beri til. Nú liggur fyrir áætlun um verndun votlendis í samræmi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, þar sem m.a. er lögð áhersla á friðlýsingu votlendissvæða og verndun votlendisvistgerða í náttúruminjaskrá. Skoða þarf hvort þörf er á frekari aðgerðum til verndunar votlendis.

Átak á áratugi endurheimtar

Íslensk stjórnvöld hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040, sem framlag Íslands til að ná markmiðum Parísarsamningsins, og hafa auk þess sett metnaðarfull markmið um samdrátt í losun. Til að kolefnishlutleysi náist þarf jafnvægi að nást á milli losunar og bindingar af mannavöldum, svo að nettólosunin verði núll. Efla þarf landgræðslu, skógrækt og verndun og endurheimt votlendis til að ná þessum markmiðum. Ríkisstjórnin hefur sett fram metnaðarfull markmið um samdrátt í losun. Aukin áhersla hefur verið sett á vernd og endurheimt votlendis. Ég vil efla það starf enn.

Á kjörtímabilinu verður einnig lokið við endurskoðun á stefnu Íslands um líffræðilega fjölbreytni. Þar verður áhersla lögð á m.a. endurheimt votlendis vegna þeirrar röskunar sem þurrkun þess hefur haft á búsvæði fjölmargra tegunda. Áratugur Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa er nýhafinn og er ákall alþjóðasamfélagsins um verndun og endurheimt vistkerfa um heim allan í þágu fólks og náttúru.

Við Íslendingar gengum rösklega fram við að ræsa fram mýrar á liðinni öld, af góðum hug og án þeirrar þekkingar sem við búum við nú. Á nýrri öld er lag til þess að endurheimta stóran hluta þessa lands, loftslaginu og lífríki Íslands til góða. Ríkisvaldið hefur þar hlutverki að gegna, en ekki er síður vert að þakka framtak félagasamtaka og einkaaðila, s.s. Votlendissjóðs. Ég mun beita mér fyrir efldu starfi varðandi vernd votlendis og endurheimt, með samvinnu og sátt að leiðarljósi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. febrúar 2022.