Skýr skilaboð um gjaldþrota skipulagsstefnu

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Á miðviku­dag­inn var ákváðu borg­ar­yf­ir­völd að falla frá þeim skipu­lags­áform­um í Bú­staða- og Foss­vogs­hverfi að láta reisa þar sautján, nýj­ar íbúðablokk­ir meðfram sunn­an­verðum Bú­staðaveg­in­um. Þetta und­an­hald borg­ar­yf­ir­valda kom eins og sól­skins­blett­ur í heiði og því full ástæða til að óska íbú­um til ham­ingju með þenn­an varn­ar­sig­ur. Þess má geta að marg­ir þess­ara íbúa eru orðnir langþreytt­ir á því að börn þeirra þurfi að sækja grunn­skóla og leik­skóla í önn­ur hverfi vegna langvar­andi van­rækslu á viðhaldi Foss­vogs­skóla og leik­skól­ans Kvista­borg­ar. Þess­ir íbú­ar áttu því ekki von á að borg­ar­yf­ir­völd bættu gráu ofan á svart með því að kynna þeim fyr­ir­hugaða inn­rás þétt­ingaröfga í hverfi þeirra með fyrr­nefnd­um skipu­lags­áform­um.

Mót­mæli íbú­anna

Þétt­ingaráformin vöktu hörð viðbrögð og mik­il mót­mæli, sem m.a. komu fram á fjöl­menn­um íbúa­fundi í Rétt­ar­holts­skóla hinn 8. des­em­ber sl. Þar bentu íbú­arn­ir borg­ar­stjóra góðfús­lega á að þess­ar öfg­ar myndu þrengja mjög að byggðinni sem fyr­ir er, stuðla að óheyri­legu um­ferðar- og um­hverf­israski á fram­kvæmda­tím­an­um, byrgja fyr­ir út­sýni, lengja skugga og fækka sól­ar­stund­um, út­rýma gróðri og græn­um svæðum meðfram Bú­staðavegi, fækka bíla­stæðum nýrra og eldri íbúa, auka slysa­hættu við Bú­staðaveg, fjölga íbú­um án þess að bæta þjón­ustu­stig íbú­anna, draga úr verðgildi eldri fast­eigna og verða auk þess í ósam­ræmi við yf­ir­bragð og sér­kenni hinn­ar eldri byggðar. Öllu átti til að kosta til að ná fram slag­orði borg­ar­stjór­ans um þétt­ingu byggðar!

Kosn­inga­skjálfti

Borg­ar­yf­ir­völd­um var brugðið við þessi hörðu mót­mæli í svo fjöl­menn­um borg­ar­hluta, svona rétt fyr­ir kosn­ing­ar, og létu því fram­kvæma Gallup-könn­un á viðhorfi íbú­anna. Niðurstaða henn­ar var sú að mik­ill meiri­hluti þeirra sem af­stöðu tóku var and­víg­ur fyr­ir­hugaðri þétt­ingu við Bú­staðaveg og við gatna­mót Háa­leit­is­braut­ar og Miklu­braut­ar.

Borg­ar­yf­ir­völd sáu sér því ekki annað fært en að brjóta blað í sam­skipt­um sín­um við borg­ar­búa, taka til­lit til mót­mæl­anna og draga þétt­ingaráformin til baka meðfram Bú­staðavegi þó þau þrá­ist enn við á gatna­mót­um Háa­leit­is­braut­ar og Miklu­braut­ar.

Önnur ófriðarbál

Um leið og því er fagnað að óbil­gjörn borg­ar­yf­ir­völd láti loks und­an harðri and­stöðu og skýr­um skila­boðum al­menn­ings þegar vegið er mjög gróf­lega að nán­asta um­hverfi fólks, hljóta samt að vakna eft­ir­far­andi spurn­ing­ar: Hvers vegna eru áformin um þétt­ingu við gatna­mót Háa­leit­is- og Miklu­braut­ar ekki einnig dreg­in til baka, en þar er einnig meiri­hlut­inn mót­fall­inn þétt­ing­unni? Hversu auk­inn þarf meiri­hluti íbúa að vera svo borg­ar­yf­ir­völd taki til­lit til hans? Taka borg­ar­yf­ir­völd ein­ung­is til­lit til borg­ar­búa þegar minna en hálft ár er til borg­ar­stjórn­ar­kosn­inga? Hvað um öll hin ófriðarbál­in sem borg­ar­yf­ir­völd hafa kveikt um alla borg vegna öfga­fullra þétt­ingaráforma, s.s. eins og á reit Stýri­manna­skól­ans, Veður­stofu­hæð og samþykktu skipu­lagi sem ger­ir ráð fyr­ir að fimm­falda íbúa­fjölda Skerja­fjarðar, án breyt­inga á um­ferðaraðkomu? Hvers vegna hef­ur ekki verið hlustað á íbúa þess­ara svæða, né þeir fengið skoðana­könn­un? Svar við síðustu spurn­ing­unni er hins veg­ar ein­falt: Borg­ar­yf­ir­völd vita að þau eru víða að fram­kvæma þétt­ingaráform sem borg­ar­bú­ar myndu hafna, rétt eins og við Bú­staðaveg­inn.

Fag­legt skipu­lag eða slag­orðastefna

Hvers vegna skyldi skipu­lags­stefna borg­ar­yf­ir­valda hafa kveikt ófriðarbál um alla borg? Fyr­ir því eru hug­mynda­fræðileg­ar ástæður: Fag­leg skipu­lags­vinna felst í mati á mörg­um og ólík­um um­hverf­isþátt­um og skipu­lags­fræði snú­ast um rann­sókn­ir á sam­verk­andi áhrif­um þess­ara þátta á mann­lífið og um­hverfið. Skipu­lag þarf því að vinna á breiðum grunni, með opn­um huga og marg­vís­leg­um töl­fræðileg­um upp­lýs­ing­um.

Ein­hliða, póli­tísk­ar slag­orðastefn­ur stuðla hins veg­ar að þröng­sýni og ein­hæfni, draga úr yf­ir­veguðu mati og skiln­ingi á því hvernig þróun eins þátt­ar hef­ur áhrif á ann­an. Þegar slag­orð fara að móta sam­fé­lög og um­hverfi snú­ast þau oft upp í and­hverfu sína eins og þau hafa nú þegar gert með skipu­lags- og sam­göngu­stefnu borg­ar­yf­ir­valda. Slag­orð draga einnig úr umb­urðarlyndi og hafna oft­ast lýðræðis­legri sam­vinnu.

Ákvörðun borg­ar­yf­ir­valda sl. miðviku­dag er þó spor í rétta átt og batn­andi mönn­um er best að lifa. En þessi sömu yf­ir­völd hafa ekki tekið söns­um fyrr en þau átta sig á því að skipu­lag er fyr­ir íbú­ana sjálfa, ekki yf­ir­völd. Skipu­lag er alls staðar og alltaf fyr­ir íbú­ana, ekki ein­ung­is kort­er fyr­ir kosn­ing­ar, og viðbrögð íbú­anna við þétt­ingaröfg­un­um við Bú­staðaveg eru skýr skila­boð um gjaldþrota skipu­lags­stefnu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. janúar 2022.