Eftir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Borgarskipulag byggist á því að skipuleggja framtíðina. Borgin þarf að gera ráð fyrir íbúafjölgun og vera tilbúin með ný hverfi. Samgöngur fyrir fólk og leikskólapláss fyrir börn. Síðasta áratug hefur Reykjavíkurborg vanmetið aðdráttarafl Íslands. Fleiri hafa flust til landsins en áætlað var. Mun fleiri hafa heimsótt landið. Umferðin hefur aukist miklu meira en ætlað var. Það hefur skort byggingarlóðir og því vantar íbúðir í dag. Það hefur vantað ný samgöngumannvirki og alla uppbyggingu þeirra síðustu 10 ár. Enn eru miklir biðlistar í leikskóla og hjá sálfræðingum. Þessu þarf að breyta.
Strax eftir borgarstjórnarkosningarnar í vor vil ég að aðalskipulag Reykjavíkur verði tekið til heildarendurskoðunar og framlengt til 2050. Borgin við sundin verði skipulögð í heild til framtíðar. Ný hverfi verði til. Öflugir hverfiskjarnar í Breiðholti og Grafarvogi verði að veruleika. Sundabraut verði sett inn á aðalskipulagið. Ljósastýrðum gatnamótum verði fækkað. Allt samgöngukerfið verði miðað við ferðir fólks, hvort sem það er gangandi, hjólandi eða akandi með bílum eða almenningssamgöngum.
Sjálfvirknivæðing og orkuskipti eru að gjörbylta samgöngum um allan heim. Reykjavík á að vera í fararbroddi að nýta sér þessa tækni. Framtíðarborgin Reykjavík getur verið meðal fremstu borga í að nota hreina íslenska orku og bæta almenningssamgöngur með aukinni tíðni, fleiri stoppistöðvum og lægri kostnaði. Þetta er hægt með því að nýta sjálfvirkni, sérakreinar og fleiri einingar. Línulegar samgöngur eru takmarkandi líkt og línulegt sjónvarp. Símalínur hafa vikið fyrir Internetinu. Svipuð þróun er í samgöngum og nú er einmitt tækifæri til að fara lengra fyrir minni kostnað.
Grænu svæðin í borginni eru framtíðarlungu borgarinnar. Þau þarf að vernda með öllum ráðum. Hverfa þarf frá hugmyndum um blokkir efst í Laugardalnum sem nú eru inni í aðalskipulagi. Elliðaárdalinn ber að vernda í heild og endurheimta Árbæjarlón. Framtíðin á skilið að borgin verði græn í reynd. Skipulagsbreytingar næsta vor geta tryggt slíka framtíð.
Fréttablaðið, 14. desember 2021