Reykjavík sem virkar

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:

Kannski er dig­ur­barka­legt að kalla smá­borg­ina Reykja­vík heims­borg. Hún er í það minnsta ekki stór­borg. En í smá­borg­ar­líf­inu slær heims­borg­ar­hjarta. Tæki­fær­in til fram­fara óþrjót­andi.

Reykja­vík stend­ur á spenn­andi umróts­tím­um sem kalla munu á breyt­ing­ar. Tækni­fram­far­ir, fólks­fjölg­un og lofts­lags­breyt­ing­ar munu setja mark sitt á viðfangs­efni framtíðar. Á vor­dög­um gefst borg­ar­bú­um kost­ur á að kjósa sér nýja borg­ar­stjórn. Við þau tíma­mót þarf Sjálf­stæðis­flokk­ur að byggja á framtíðar­sýn sem sam­ein­ar fólk á öll­um aldri – á öll­um sviðum mann­lífs­ins. Framtíðar­sýn sem varðveit­ir sér­kenni Reykja­vík­ur en gæt­ir þess að borg­in þró­ist í takt við aðrar vest­ræn­ar borg­ir – og verði ekki und­ir í sam­keppni um ungt fólk og at­gervi. Framtíðar­sýn sem trygg­ir fólki og fyr­ir­tækj­um far­sæl­an far­veg til vaxt­ar og fram­fara.

Ég gef kost á mér til að leiða lista Sjálf­stæðis­flokks í kom­andi kosn­ing­um. Það geri ég af brenn­andi eld­móði fyr­ir sjálf­stæðis­stefn­unni og trú minni á höfuðborg sem býður lif­andi borg­ar­um­hverfi, jöfn tæki­færi og fjöl­breytta kosti í frjálsu sam­fé­lagi – þar sem sam­eig­in­leg framtíð er viðfangs­efnið.

Grunn­skól­ar sem virka

Ég trúi því að sér­hvert barn hafi eitt­hvað mik­il­vægt fram að færa – að eitt verðug­asta verk­efni skóla­kerf­is­ins verði ávallt að tryggja öll­um börn­um jöfn tæki­færi til að leita hæfi­leika sinna – og efla með þeim sjálfs­traust til að skapa úr hæfi­leik­um sín­um tæki­færi og verðmæti. Það bygg­ist á trú minni á ein­stak­ling­inn og sam­fé­lag þar sem eng­inn er skil­inn eft­ir.

Ég tel rétt að borg­in setji sér mark­mið um framúrsk­ar­andi grunn­skóla. Ég vil tryggja fjöl­breytt náms­mat og styðja bet­ur við sjálf­stætt starf­andi skóla. Jafn­framt vil ég að höfuðborg­in vinni að því mark­miði, að koma ís­lensku skóla­kerfi í röð 10 fremstu inn­an OECD fyr­ir árið 2040. Borg­in taki for­ystu og leiði stór­stíg fram­fara­skref í mennta­mál­um – ábyrgð höfuðborg­ar­inn­ar er mik­il og hana þarf að axla af al­vöru og metnaði.

Leik­skólaþjón­usta sem virk­ar

Biðlista­vandi leik­skóla­barna er flest­um kunn­ur og hef­ur reynst fjöl­skyldu­fólki ára­löng flækja í dag­legu amstri. Yfir 16 ára tíma­bil hef­ur Sam­fylk­ing lofað öll­um börn­um leik­skóla­vist við 12-18 mánaða ald­ur. Illa geng­ur að stytta biðlista og nú, 16 árum síðar, er meðal­ald­ur barna við inn­göngu í borg­ar­rekna leik­skóla 29 mánuðir.

Ég vil setja fjöl­skyldu­mál­in í for­gang. Skapa borg sem býður trausta og áreiðan­lega dag­gæslu eða leik­skóla­vist strax í kjöl­far fæðing­ar­or­lofs. Það er mik­il­vægt jafn­rétt­is­mál.

Sam­göng­ur sem virka

Sam­göngu­vandi borg­ar­inn­ar hef­ur farið vax­andi og leitt af sér víðtæka sóun fjár­muna og lífs­gæða. Leysa þarf vand­ann með fjár­fest­ingu í fjöl­breytt­um sam­göngu­kost­um. Ég vil vinna áfram að sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins sem bygg­ist á því að farþegum al­menn­ings­sam­gangna fjölgi, en horf­ist í augu við að áfram muni stærst­ur meiri­hluti fólks fara leiðar sinn­ar á bíl. Sú hug­mynd að velja þurfi einn far­ar­máta til að not­ast við öll­um stund­um er hvorki raun­hæf né eft­ir­sókn­ar­verð. Framtíðin fel­ur í sér val­frelsi og sveigj­an­leika.

Sam­hliða sátt­mál­an­um vil ég vinna að upp­bygg­ingu Sunda­braut­ar í einkafram­kvæmd og inn­leiðingu hjól­reiðaáætl­un­ar. Ég tel mik­il­vægt að sjálf­stæðis­menn leiði vinnu við upp­bygg­ingu fjöl­breyttra sam­göngu­kosta svo áhersla verði lögð á hag­kvæmni og skil­virkni við alla út­færslu.

Hverfi sem virka

Ég vil að borg­in verði end­ur­skipu­lögð á for­send­um hverf­anna – á grund­velli sér­stöðu þeirra og styrk­leika. Öll borg­ar­hverfi verði þróuð með það fyr­ir aug­um að unnt verði að nálg­ast helstu versl­un og þjón­ustu í 15 mín­útna göngu­færi. Víða um borg standa lún­ir hver­fiskjarn­ar sem marg­ir mega muna fíf­il sinn feg­urri. Ég vil glæða kjarn­ana fyrra lífi með því að virkja einkafram­tak og bæta skipu­lag. Þannig má skapa aukið mann­líf inn­an hverfa, efla nærþjón­ustu og ein­falda dag­legt líf.

For­send­ur 15 mín­útna hverfa eru þétt og blönduð byggð hvar íbúðar­hús­næði, vinnustaðir og þjón­usta eru í ná­lægð hvert við annað. Fjölg­un vinnustaða í aust­ur­hluta borg­ar­inn­ar mun ýta und­ir þessa þróun og hafa já­kvæð áhrif á sam­göng­ur í borg­inni.

Hús­næðismarkaður sem virk­ar

Það er hús­næðis­skort­ur í Reykja­vík. Skort­ur­inn hef­ur verið viðvar­andi og end­ur­spegl­ast í mik­illi verðhækk­un íbúða. Áætluð upp­bygg­ing­arþörf er 30.000 íbúðir á landsvísu næsta ára­tug­inn. Þörf­in er tal­in mest á höfuðborg­ar­svæðinu en þar er jafn­framt mörg þúsund íbúða upp­söfnuð þörf.

Ég tel mik­il­vægt að mæta hús­næðisþörf­inni – bæði þeirri upp­söfnuðu og til framtíðar. Ég vil hefja skipu­lag íbúðaupp­bygg­ing­ar í Örfiris­ey og að Keld­um, sam­hliða auk­inni þétt­ingu inn­an hverfa sem hafa til þess svig­rúm.

Vel­ferð sem virk­ar

Ég vil tryggja vel­ferðarþjón­ustu sem eyk­ur lífs­gæði, stuðlar að virkni og trygg­ir öll­um borg­ar­bú­um mögu­leik­ann á að lifa með reisn. Með stuðningi við einkafram­takið má fjölga val­kost­um og mæta marg­breyti­leg­um þörf­um. Jafn­framt vil ég stula að heilsu­efl­andi borg­ar­um­hverfi og vernd­un grænna svæða, svo tryggja megi öll­um jöfn tæki­færi og fjöl­breytt­ar leiðir til að ástunda heil­brigðan lífs­stíl.

Ég vil tryggja sam­fellu í geðheil­brigðisþjón­ustu við börn. Biðlist­ar eru lang­ir og ein­stak­ling­ar falla gjarn­an milli skips og bryggju inn­an kerf­is­ins. Aukn­ar for­varn­ir og auðveld­ur aðgang­ur að sál­fræðiþjón­ustu strax í grunn­skóla gætu skipt sköp­um.

Fjár­mál sem virka

Ég tel mik­il­vægt að borg­ar­kerfið und­ir­gang­ist til­tekt. Stjórn­kerfi borg­ar­inn­ar hef­ur orðið að bákni – minnka þarf yf­ir­bygg­ing­una og hefja skipu­lega niður­greiðslu skulda. Jafn­framt þarf að selja fyr­ir­tæki í sam­keppn­is­rekstri. Ég vil treysta fjár­hag­inn svo efla megi þjón­ust­una og skapa svig­rúm til lækk­un­ar skatta á fólk og fyr­ir­tæki. Við verðum að sýna ábyrgð og ráðdeild þegar sýslað er með fjár­muni borg­ar­búa.

Kerfi sem virk­ar

Ég vil tryggja betri jarðveg fyr­ir fram­far­ir og verðmæta­sköp­un í Reykja­vík. Það er ólíðandi þegar op­in­ber kerfi hafa hamlandi áhrif á frum­kvæði og fram­tak. Ég vil ein­falda stjórn­sýsl­una, stytta af­greiðslu­fresti, fækka skref­um vegna leyf­is­veit­inga og tryggja ra­f­ræn um­sókn­ar­ferli. Ég vil jafn­framt að fast­eigna­skatt­ar á at­vinnu­hús­næði verði sam­keppn­is­hæf­ir og aðgengi að at­vinnu­lóðum betra. Frum­kvæði og fram­tak verða ávallt að eiga vís­an far­veg í Reykja­vík.

Reykja­vík sem virk­ar

Með sjálf­stæðismönn­um vil ég skapa borg sem virk­ar fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Höfuðborg, þar sem fólk get­ur leitað ham­ingj­unn­ar á eig­in for­send­um. Ég vil borg­ar­um­hverfi sem set­ur fjöl­skyld­ur í for­gang – skóla sem mæta fjöl­breytt­um þörf­um og leik­skóla sem tryggja inn­göngu strax í kjöl­far fæðing­ar­or­lofs. Ég vil vel­ferðarþjón­ustu sem trygg­ir rétt sér­hvers ein­stak­lings til að lifa með reisn – og borg­ar­um­hverfi sem laðar að sér hæfi­leika­fólk með úr­vali at­vinnu­tæki­færa, spenn­andi bú­setu­kost­um og fjöl­breytt­um sam­göngu­kost­um. Ég vil borg sem ryður veg­inn fyr­ir þá sem vilja sækja fram og styður við hug­mynda­auðgi og verðmæta­sköp­un. Höfuðborg sem bygg­ist á frjáls­um val­kost­um, jöfn­um tæki­fær­um, frjálsu fram­taki og hag­kvæm­um rekstri. Ég vil lif­andi smá­borg með heims­borg­ar­hjarta – mann­væna og blómstrandi – Reykja­vík sem virk­ar.

Morgunblaðið 9. desember, 2021.