119 milljarða betri afkoma ríkissjóðs

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag fjárlagafrumvarp næsta árs og fjármálaáætlun.

Afkoma ríkissjóðs batnar um 119 milljarða á milli áranna 2021 og 2022 skv. fjárlagafrumvarpi ársins 2022. Staðan í efnahagsmálum er betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum yfirstandandi árs og mun meiri þróttur í hagkerfinu en búist var við. Þessi snari viðsnúningur skýrist af ýmsum þáttum.

„Við náðum árangri í þeim aðgerðum sem stefnt var að og það skilar sér til allra landsmanna. Það skilar sér beint til heimilanna í meira atvinnuöryggi og það verða ný störf til í hagkerfinu. Við sameiginlega verðum með minni skuldabyrði inn í framtíðina vegna þess að efnahagslífið er að taka við sér. Við höfum getu til að viðhalda opinberri þjónustu án þess að hækka skatta og án þess að fara í niðurskurð heldur ætlum að halda úti gæða opinberri þjónustu á næstu árum á grundvelli þess styrks sem við höfum í ríkisfjármálunum,“ sagði Bjarni.

Efnahagshorfur hafa batnað til muna frá framlagningu síðasta fjárlagafrumvarps en skv. spá í nóvember lítur út fyrir 40 milljarða betri afkomu en fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir.

Atvinnuleysi nú er svipað og var fyrir heimsfaraldur kórónuveiru og hafur batnað verulega á yfirstandandi ári þegar atvinnuleysi var 12,2% í upphafi árs en var komið niður í 5,1% í október sl. Störfin eru 20 þúsund fleiri nú en þau voru í upphafi árs.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 hafa skilað ótvíræðum árangri en stuðningur vegna faraldursins við hagkerfið nemur um 50 milljörðum á næsta ári og hefur þá alls numið um 260 milljörðum á árunum 2020-2022.

Gert er ráð fyrir 5,3% hagvexti

Landsframleiðsla er nú talin töluvert meiri en bjartsýn sviðsmynd úr fjármálaáætlun 2021-2025 gerði ráð fyrir. Framundan er kraftmikill hagvöxtur og er gert ráð fyrir 5,3% hagvexti á árinu 2022, sem þá er orðinn meiri en var fyrir heimsfaraldur. Þannig er gert ráð fyrir að hagkerfið stækki um alls 20% á árunum 2021-2026.

Kaupmáttur launa hefur aukist hratt og gert er ráð fyrir enn frekari vexti. Kaupmáttur næsta árs verður um 20% meiri en á árinu 2016.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 168,5 milljarða halla á árinu 2022 til samanburðar við 287,9 milljarða halla á árinu 2021. Skýringin er annars vegar minni þörf  fyrir stuðningi vegna heimsfaraldurs og hins vegar bættar efnahagshorfur.

Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 955,4 milljaðar á árinu 2022 til samanburðar við 889,4 milljarða á árinu 2021. Áfram er gert ráð fyrir að tekjuskattar einstaklinga lækki á árinu 2022 og nemur tekjuskattslækkunin 2,3 milljörðum króna en tekjuskattslækkanir milli áranna 2019 og 2021 námu 23 milljörðum á hverju ári.

„Við höfum unnið mikið kraftaverk með samstöðunni á Íslandi. Ofboðsleg samstaða í gegnum þennan covid-faraldur hefur skilað miklum árangri. Við erum í sterkri stöðu. Það eru horfur til þess þrátt fyrir hallarekstur að við séum með mjög heilbrigð skuldahlutföll þegar upp er staðið. Það skiptir gríðarlega miklu máli að hafa náð skjóli fyrir atvinnulíf og heimili,“ sagði Bjarni

16 milljarða aukin framlög til heilbrigðismála

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu útgjalda vegna heilbrigðismála, viðbótarhækkun á bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, tvöföldun á frítekjumarki atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum, endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar er viðhaldið og barnabætur og skerðingarmörk hækkuð svo dæmi séu tekin.

Framlög til heilbrigðismála aukast á næsta ári um 16 milljarða króna en alls nemur aukningin að raunvirði um 30% milli áranna 2017 og 2022. Alls hafa árleg framlög til heilbrgiðsimála vaxið um 75% milli áranna 2010 og 2022 eða í heild um 130 milljarða króna.

Frítekjumark atvinnutekna í 200 þúsund á mánuði

Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt, örorkulífeyriskerfið verður einfaldað og dregið verður úr tekjutengingum. 800 milljónum króna verður varið til að hækka bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 1% til viðbótar við almennar prósentuhækkanir í fjárlögum 2022. Bætur örorkulífeyrisþega hækka því alls um 5,6% frá fjárlögum ársins 2021.

Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og horft verður til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts. 540 milljónum verður varið í að tvöfalda frítekjumark atvinnutekja ellilífeyrisþega. Frítekjumark atvinnutekna ellilífeyrisþega fer úr 100 þúsund kr. á mánuði í 200 þúsund kr. á mánuði um næstu áramót.

Fjárhæðir barnabóta hækka einnig ásamt neðri og efri skerðingarmörkum tekjustofns barnabóta. Alls verða 14 milljarðar króna greiddir í barnabætur á árinu 2022.

10,4 milljörðum verður varið í endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar.

Yfir 13 milljarðar renna til loftslagsmála í fjárlagafrumvarpi 2022.

88,4 milljarða fjárfestingar á árinu 2022

Á árinu verður fjárfest í 88,4 milljörðum króna, en þar vega þungt 14 milljarðar í Nýjan Landspítala, 5,2 milljarðar í byggingu hjúkrunarheimila og 31,5 milljarðar í samgöngumannvirki.

Salan á Íslandsbanka stórbætir skuldastöðu ríkissjóðs.

Gert er ráð 300 milljarða króna lægri skuldum ríkissjóðs í lok árs 2026 en áður var búist við.

„Hvað er á bak við 300 milljarða betri horfur í skuldamálum? Það eru bættar efnahagshorfur. Það er forsendan um að við klárum sölu á Íslandsbanka á kjörtímabilinu og það er forsenda um að við förum í ráðstafanir til þess að bregðast við hruni tekjustefna í samgöngum og eldsneytisnotkun,“ segir Bjarni en gert er ráð fyrir að klára söluna á Íslandsbanka á kjörtímabilinu.