Áskoranir í útlendingamálum

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Fund­ur nor­rænna ráðherra sem fara með út­lend­inga­mál stend­ur nú yfir í Lundi í Svíþjóð. Ég sit fund­inn fyr­ir Íslands hönd sem dóms­málaráðherra. Slík­ir fund­ir eru haldn­ir einu sinni á ári og þar gefst tæki­færi til að skipt­ast á skoðunum um mál­efni fólks á flótta og ræða þau úr­lausn­ar­efni sem eru efst á baugi í mála­flokkn­um hverju sinni.

Ísland stend­ur sig vel á mörg­um sviðum í þess­um efn­um en við okk­ur blasa einnig erfiðar áskor­an­ir. Við get­um ekki mælt ár­ang­ur ein­ung­is í fjölda þeirra sem við veit­um vernd held­ur þurfa önn­ur kerfi, eins og mennta­kerfið, að hafa burði til að taka við og tryggja ár­ang­urs­ríkt nám og aðlög­un þeirra barna sem hingað koma. Geta okk­ar er alltaf tak­mörkuð við þá fjár­muni, mannafla og aðstöðu sem við get­um lagt í þetta brýna verk­efni. Mark­mið okk­ar hlýt­ur þá að fel­ast í því að tryggja þeim for­gang sem eru í mestri neyð og gera það vel.

Að und­an­förnu hef­ur þró­un­in hér á landi ein­kennst af mik­illi aukn­ingu um­sókna um alþjóðlega vernd frá fólki sem þegar hef­ur hlotið vernd í öðru Evr­ópu­ríki. Á síðustu tveim­ur árum hef­ur hlut­fallið farið úr 20% í 55% af þeim sem hingað leita eft­ir vernd. Vernd­ar­kerfið þarf að ráða við mála­fjöld­ann og geta sinnt þeim sem virki­lega þurfa á vernd að halda. Þessi staða er ólík þeirri sem þekk­ist í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Skýr­ing­in felst í ólíku lagaum­hverfi hér á landi í sam­an­b­urði við önn­ur Evr­ópu­ríki.

Mik­il sérstaða og frá­vik varðandi málsmeðferð ein­stakra hópa, ásamt frjálsri för um Schengen-svæðið, hef­ur leitt til þess að hingað kem­ur til­tölu­lega mik­ill fjöldi ein­stak­linga sem þegar hef­ur sótt um vernd í öðrum ríkj­um Evr­ópu og það í meira mæli en stjórn­sýsl­an ræður við.

Í frum­varpi sem ég hef tví­veg­is mælt fyr­ir á Alþingi um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­un­um er lagt til að horfið verði frá því að um­sókn­ir þeirra sem þegar eru með vernd í öðru ríki verði tekn­ar til efn­is­legr­ar meðferðar á grund­velli und­an­tekn­inga í lög­un­um um sér­stök tengsl og sér­stak­ar ástæður. Þess í stað verði tekið til skoðunar hvort viðkom­andi, eft­ir að hafa fengið synj­un um efn­is­meðferð, eigi rétt á dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða með hliðsjón af aðstæðum í því landi þar sem viðkom­andi hef­ur þegar hlotið vernd. Þær breyt­ing­ar taka mið af því lagaum­hverfi sem al­mennt rík­ir á Norður­lönd­um.

Við get­um aldrei veitt öll­um þeim sem hingað leita vernd. Sí­fellt verður að bregðast við nýj­um áskor­un­um og breyt­ing­um og gæta þess að vernd­ar­kerfið er neyðar­kerfi. Kerfið á fyrst og fremst að gagn­ast þeim sem eru í mestri neyð á hverj­um tíma. Jafn­framt þurf­um við að taka til al­var­legr­ar umræðu stöðu at­vinnu­leyfa er­lendra rík­is­borg­ara og mögu­leika þeirra til að koma hér og starfa. Það er umræða sem vert er að taka.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. nóvember 2021.