Sköpum tækifæri úti um allt land

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:

Þegar ákveðið var að ráðast í kaup á nýju varðskipi, Freyju, fyrr á þessu ári var einnig ákveðið að heima­höfn skips­ins skyldi vera á lands­byggðinni. Siglu­fjörður varð fyr­ir val­inu vegna legu sinn­ar og vegna þess að þar er fyr­ir hendi viðlegukant­ur með hæfi­legu dýpi fyr­ir þetta öfl­uga skip. Staðar­valið hef­ur fengið mik­inn og víðtæk­an stuðning úti um allt land.

Skipaum­ferð hef­ur auk­ist um­hverf­is Ísland á und­an­förn­um árum, ekki síst vegna um­ferðar farþega- og flutn­inga­skipa við norðan- og aust­an­vert landið. Með því að staðsetja Þór og Freyju við hvorn enda lands­ins erum við að bregðast við breytt­um aðstæðum, auka viðbragðsflýti og viðbragðsgetu á sjó og við strend­ur lands­ins. Allt hef­ur þetta mikla þýðingu fyr­ir al­manna­varn­ir og ör­yggi íbú­anna í viðkom­andi lands­hlut­um.

Þegar tekn­ar eru ákv­arðanir um flutn­ing á starf­semi fyr­ir­tækja og stofn­ana rík­is­ins er verið að treysta byggð í land­inu. Ný störf verða til, fjöl­breytn­in verður meiri og nýir mögu­leik­ar skap­ast fyr­ir all­an þann fjölda af vel menntuðu fólki sem kýs að búa og starfa í sinni heima­byggð ef sá mögu­leiki er fyr­ir hendi. Gild­ir það jafnt um hvers kyns iðnnám, tækni- og há­skóla­mennt­un. Best fer á því og það er lík­leg­ast til ár­ang­urs þegar flutn­ing­ur á starf­semi rík­is­ins staf­ar af þörf eða nauðsyn eins og hvað varðar val á út­gerðarstað varðskips­ins Freyju.

Það hef­ur sýnt sig að áhugi er fyr­ir hendi t.d. hjá ungu há­skóla­menntuðu fólki að sækja um þegar boðið er upp á ný störf á veg­um op­in­berra aðila úti á lands­byggðinni. Sem dæmi má nefna að ný­lega voru aug­lýst laus til um­sókn­ar tvö ný störf á veg­um Per­sónu­vernd­ar á Húsa­vík. Um­sækj­end­ur voru um 140!

Tækninýj­ung­ar og framþróun munu greiða fyr­ir þróun um flutn­ing starfa út á land. Stöðugt er unnið að því að auka fram­boð ra­f­rænna lausna fyr­ir þá sem sækja þurfa þjón­ustu til op­in­berra aðila og sýslu­mann­sembætt­in hafa t.d. bætt þjón­ustu sína. Fram­boð ra­f­rænna og sta­f­rænna lausna á aðeins eft­ir að aukast og auðvelda flutn­ing starfa út á lands­byggðina – og um leið bú­setu þeirra sem þar kjósa að búa. Þetta á ekki aðeins við um störf á veg­um rík­is­ins held­ur einnig fyr­ir­tæki á al­menn­um markaði.

Í heimi þar sem við erum sí­fellt að leita leiða til að ein­falda líf okk­ar kunna að liggja tæki­færi í því að staðsetja sig utan þétt­býl­ustu kjarn­anna. Með aukn­um mögu­leik­um á fjar­vinnu skap­ast tæki­færi til fjöl­breytt­ara úr­vals á bú­setu en áður. Eins hef ég trú á því að fyr­ir­tæki á lands­byggðinni muni til skemmri og lengri tíma sjá tæki­færi í því að efla starf­semi sína, ráða til sín fleira fólk og taka þátt í öfl­ugri upp­bygg­ingu sam­fé­lags­ins. En til að svo geti orðið verður þjón­usta hins op­in­bera að vera aðgengi­leg og ein­föld og til þess fall­in að skapa fólki tæki­færi til bú­setu um allt land.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. nóvember 2021.