Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
Ég hef haft efasemdir um gagnsemi hinnar svokölluðu borgarlínu. Held að sú línulega ofurlausn eins og hún er kynnt, sé alls ekki það sem nútíminn er að kalla eftir í samgöngum, hvað þá framtíðin. Ég ætla ekki að fjalla um fyrirferðina sem ráðgert er að borgarlínan eigi eftir að hafa í umferðinni, né framkvæmdakostnaðinn sem á eftir að hlaupa yfir hundrað milljarða og heldur ekki rekstrarkostnaðinn sem enginn hefur útskýrt hver eða hvernig eigi að borga.
Aðrar hugmyndir má ekki ræða
Ég er hins vegar hugsi yfir hvers vegna ekki megi ræða, hvað þá skoða aðrar lausnir í almenningssamgöngum. Hópur reyndra fag- og fræðimanna í samgöngum hafa reynt að kynna hugmyndir sínar um léttara, hagkvæmara og skilvirkara samgöngukerfi, en fengið lítinn hljómgrunn. Önnur hugsanleg lausn sem gæti verið viðbót við slakar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru hugmyndir Pant, sem er sérsniðin akstursþjónusta fyrir félagsþjónustur á höfuðborgarsvæðinu. Þjónusta sem hefur sannað gildi sitt og er rekin af Strætó. Þar skiptir sveigjanleiki, hagkvæmni og skilvirkni mestu.
Útvíkkun á reyndri þjónustu
Forsvarsmenn Pant hafa kynnt hugmyndir um útvíkkun á sinni þjónustu, en þær sömuleiðis hafa ekki fengið athygli hjá sveitarstjórnarfólki á svæðinu. Mér finnast þær hins vegar áhugaverðar og skoðunarverðar. Meðal verkefna sem Pant gæti sinnt umfram núverandi þjónustu, þ.e. akstri fyrir fatlaða og aldraða, væri akstur utan álagstíma, úthverfaakstur, akstur fyrir starfsfólk fyrirtækja og stofnana, sjúkrahúsaakstur, akstur fyrir heimaþjónustu og síðan landsbyggðaakstur. Pant gæti þannig verið sú viðbót í almenningssamgöngum sem nútíminn og framtíðin kallar eftir, með smærri bílum sem falla betur að núverandi samgönguinnviðum og um leið auknum sveigjanleika. Pant er auðvelt í notkun, farþegar panta sér ferðir með einföldum rafrænum hætti og Pant sér síðan um að flytja farþega sína frá nánast hvaða stað sem er til nánast hvaða staðar sem er. Auðvitað þarf að útfæra þessa útvíkkun á starfsemi Pant, en auðvelt ætti að vera að byggja á þeirri góðu og reyndu þjónustu sem fyrirtækið hefur veitt fötluðum og öldruðum hingað til. Þess vegna vil ég kalla eftir því að sveitarstjórnarfólk á höfuðborgarsvæðinu skoði með opnum huga möguleikana á útvíkkaðri starfsemi Pant. Ekki síst í því ljósi að núna virðast sveitarfélögin ekki ætla að setja neitt fjármagn í borgarlínuna í fjárhagsáætlunum sínum sem verið er að kynna, hvorki í uppbyggingu né rekstur á næstu árum.
Fyrirsögn greinarinnar er auðvitað bara skemmtilegur orðaleikur, en er ætlað að skýra áhuga minn á að fleiri útfærslur á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu verði skoðaðar, heldur en bara ein þunglamaleg ofurlausn, sem ég held að leysi engin vandamál. Bestu samgöngukerfin byggja á að fólk hafi frelsi til að velja sjálft sinn samgöngumáta. Þá þarf að huga að fjölbreytni og sveigjanleika. Skoðum hvort Pant sé hugsanlega með lausnirnar. Öll viljum við bæta almenningssamgöngur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. nóvember 2021.