Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Ég vil að íslenskt skólakerfi verði meðal 10 fremstu innan OECD fyrir árið 2040. Við höfum dregist aftur úr í alþjóðlegum samanburði en þurfum að setja stefnuna á fremstu röð.
Mælumst með þeim lægstu
Árið 2003 mældist íslenskt skólakerfi það 13. besta innan OECD, en í dag skipar íslenska kerfið 31. sætið. Ísland er á niðurleið í stærðfræðilæsi, lesskilningi og vísindalæsi samkvæmt niðurstöðum PISA-könnunar. Ísland er undir OECD-meðaltali í öllum mældum námsgreinum og mælist verst allra Norðurlandaþjóða. Hlutfall þeirra sem sækja verkmenntun hérlendis er meðal þeirra lægstu innan OECD og hlutfall þeirra sem eru líklegir til að ljúka meistaragráðu fyrir 25 ára aldur er jafnframt meðal þeirra lægstu.
Þeir fjármunir sem íslenskt samfélag ver í hvern grunnskólanema er 40% yfir OECD-meðaltali. Samt sem áður mælast gæði skólastarfs sífellt verr í samanburði þjóða. Lyfta þarf grettistaki í menntamálum. Höfuðborgin þarf að taka forystu.
Árangur sjálfstæðra skóla
Holland mælist meðal efstu þjóða í PISA könnunum, jafnvel ofar en fyrirheitna landið Finnland. Í því samhengi er athyglisvert að rýna langa hefð þarlendis fyrir einkareknum skólum, en um 70% allra hollenskra grunnskólabarna sækja nám í einkareknum skólum. Skólarnir eru sjálfstæðir í störfum sínum, en innheimta ekki skólagjöld enda fjármagnaðir af hinu opinbera.
Hérlendis eru aðeins 13 einkareknir grunnskólar en nemendur þeirra eru um 2,3% allra grunnskólabarna landsins. Til samanburðar er fjórðungur allra grunnskólabarna í Kaupmannahöfn í sjálfstætt starfandi skólum.
Í Reykjavík mætti styðja betur við sjálfstætt starfandi skóla svo auðga megi skólaflóru borgarinnar. Í dag þiggja skólarnir skert framlög, en ef jöfn opinber framlög fylgdu hverju skólabarni mætti treysta grundvöll skólanna. Jafnframt gætu skólarnir lagt niður skólagjöld og tryggt öllum börnum jöfn tækifæri til að sækja slíka skóla, óháð efnahag foreldra. Þannig mætti veita foreldrum fleiri valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna.
Skapandi greinar
Færni til skapandi hugsunar hefur um nokkra hríð verið talin nauðsynlegur hluti af almennri menntun. Reykjavíkurborg hefur löngum gefið fyrirheit um aukið vægi listgreina og verkgreina í skólastarfi borgarinnar. Mikilvægi sköpunar er jafnframt undirstrikað sérstaklega í menntastefnu Reykjavíkur. En þrátt fyrir fögur fyrirheit fer lítið fyrir innleiðingu og skólakerfið þróast á hraða snigils.
Við horfum fram á fjórðu iðnbyltinguna. Færniþættir framtíðar verða að líkindum frábrugðnir færniþáttum fortíðar. Fyrirséð er að tölvur muni leysa fjölmörg störf af hólmi. Einhverjir hafa jafnvel áætlað framtíðina hafa litla þörf fyrir þá þekkingu sem aldagamalt skólakerfi skilur eftir hjá nemendum. Meiri áherslu mætti leggja á færni líkt og skapandi og gagnrýna hugsun.
Íslenskt skólakerfi mælist ekki nægilega vel í PISA könnunum. Það hefur þó verið huggun harmi gegn að slíkar kannanir mæla vissulega ekki allt skólakerfið – þær hafa ekki verið alhliða mælikvarði á árangur. Þetta stendur þó til bóta því fyrirhugað er til framtíðar að mæla getu nemenda til skapandi hugsunar – færni þeirra til þátttöku í sköpun og mati á frumlegum hugmyndum að nýjum lausnum. Jafnframt verði metið hvernig börnum farnast að tjá hugsanir sínar og hugmyndir.
Ísland hefur alla burði til að standa framarlega í mælingum og þjálfun á öllum þáttum PISA könnunar, hvort sem um er rætt læsi, stærðfræði eða skapandi hugsun. Það eina sem þarf er pólitísk ákvörðun og metnaður til framfylgni.
Höfuðborg í forystu
Íslensku skólakerfi er vandi á höndum. Við stöndum ekki nægilega sterk í alþjóðlegum samanburði. Námsárangur við lok grunnskóla er slakur og menntakerfið hefur brugðist í undirbúningi fyrir síðari stig skólagöngu. Við stöndum á tímamótum. Eitthvað þarf að breytast.
Ég trúi því að sérhvert barn hafi eitthvað mikilvægt fram að færa – að eitt verðugasta verkefni skólakerfisins verði ávallt að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til að leita hæfileika sinna – og efla með þeim sjálfstraust til aðskapa úr hæfileikum sínum tækifæri og verðmæti. Það byggir á trú minni á einstaklinginn og samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.
Ætli skólakefið að virkja sérhvern einstakling til samfélagsþátttöku þarf að mæta óíkum þörfum – tryggja fjölþættar lausnir og fjölbreytt námsmat. Það gerum við með fjölbreyttum valkostum í lifandi skólaflóru. Við þurfum skólakerfi sem treystir hefðbundinn grunn í stærðfræði og læsi – en gengur lengra í áherslum á skapandi hugsun, list- og verkgreinar og tæknimennt.
Setjum okkur metnaðarfull markmið. Stefnum að því að koma íslensku skólakerfi í röð 10 fremstu innan OECD fyrir árið 2040. Styðjum við kennarastéttina og sköpum öllum börnum tækifæri til að njóta hæfileika sinna. Höfuðborgin taki forystu og leiði stórstíg framfaraskref í menntamálum – samfélaginu öllu til heilla.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. október 2021.