Þetta snýst um störf

Teitur Björn Einarsson frambjóðandi í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi:

Heita vatnið á Reykhólum, ný Breiðafjarðarferja, virkjun í Vatnsfirði, fiskeldi í Ísafjarðardjúpi, útsýnispallur á Bolafjalli, nothæfur rafstrengur til Súðavíkur og vegaumbætur á Ströndum; eru mál sem eiga það sameiginlegt að geta byggt undir ný störf á Vestfjörðum, verðmæt, fjölbreytt og skapandi störf. Þetta snýst um möguleika Vestfirðinga á því að nýta þau tækifæri sem margvíslegar auðlindir á Vestfjörðum gefa til uppbyggingar.

Helsta kosningamál Sjálfstæðisflokksins er verðmætasköpun með sjálfbærri auðlindanýtingu og nýsköpun. Það snýst um störf. Það snýst um að fólk hafi traustan grunn og svigrúm til að byggja upp atvinnurekstur eða leitast eftir framtíðarstarfi sem hæfir menntun þess og reynslu. Til þess þarf skilvirkt regluverk sem laðar fram samkeppni og tryggir sjálfbæra nýtingu auðlinda, kraftmiklar fjárfestingar í grunnkerfum hins opinbera, hóflegar álögur og umfram allt að byggðirnar fái notið sérstöðu sinnar og nálægðar við uppsprettu tækifæra.

Það er til að mynda góð ástæða fyrir því af hverju raforka og laxeldi eru í brennidepli á Vestfjörðum. Þessi mál snúast um störf á Vestfjörðum. Um þessi mál er ágreiningur og nú í aðdraganda kosninga kemur æ betur í ljós að ágreiningurinn er djúpstæðari en þessi mál ein og sér gefa til efni til.

Virkja Vestfirði eða friða?

Sjálfstæðisflokkurinn vill koma á fót þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum, eftir forskrift Vestfirðinga, og fullnýta þau tækifæri sem slíkum garði geta fylgt. Á sama tíma er mikilvægt að tryggja alla möguleika á skynsamlegri orkunýtingu í Vatnsfirði. Þessi tvö mál eru vel samrýmanleg og tryggja hagsmuni Vestfirðinga. Ástæðan er einfaldlega sú að ótraust raforkukerfi á Vestfjörðum hamlar margvíslegri atvinnuuppbyggingu og öryggi í búsetu og fjölmargt bendir til þess að Vatnsfjarðarvirkjun sé langskynsamlegasti kosturinn til að ráða bót á því og raskar ekki áformum um stofnun þjóðgarðs.

Um þetta er nú deilt. Umhverfisráðherra er mótfallinn virkjun í Vatnsfirði eins og svo mörgum öðrum skynsamlegum virkjanakostum. Forysta VG er jafnvel mótfallin virkjanarkostum í nýtingarflokki rammaáætlunar eins og Hvalárvirkjun. Yfirlýsing frambjóðenda VG í Norðvesturkjördæmi í viðtali í BB á dögunum, um að skapa verði sátt um orkuöflun á Vestfjörðum án þess að styðja einn virkjanakost, er því með öllu marklaus.

Afstaða annarra flokka á vinstri vængnum er álíka haldbær því þeirra helsta stefna í umhverfismálum er ströng náttúruvernd en ekki raunhæfar lausnir til að sporna gegn loftslagsbreytingum með virkjun á grænni orku. Stefna flokka á vinstri væng stjórnmálanna er ekki að gera fólki kleift að skapa störf heldur skattleggja þau störf sem fyrir eru. Slíkir stjórnmálaflokkar eru ekki líklegir til að setja atvinnuuppbyggingu og ný störf á Vestfjörðum í forgang með úrbótum í raforkukerfinu.

Fullnýting fiskeldisauðlindarinnar

Uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum er stórkostlegt framfaramál og dæmi um atvinnuuppbyggingu á grunni skynsamlegrar auðlindanýtingar þar sem byggðirnar fá notið sérstöðu sinnar og ný störf verða til. Sjálfstæðisflokkurinn styður áframhaldandi uppbyggingu fiskeldis og að lítið verði til næstu verkefna. Aðalatriðið er að tækifæri Vestfirðinga eru ekki fullnýtt. Burðarþol Ísafjarðardjúps er til að mynda 30 þúsund tonn af laxi í sjókvíaeldi. En nú er ekki verið að ala 30 þúsund tonn af laxi í Ísafjarðardjúpi. Tækifærin til frekari atvinnuuppbyggingar og fjölgun starfa eru augljós.

Það tók alltof langan tíma að ná einhvers konar pólitískri lendingu um starfskilyrði og regluverk um fiskeldisauðlindina. Allir flokkar bera ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem fékkst. Ágreiningurinn um uppbyggingu fiskeldis hefur öðrum þræði snúist um mörkin á milli sjálfbærrar auðlindanýtingar og algjörrar náttúruverndar. Það þarf þingstyrk og skýrt umboð til að leiða fram skynsamlega niðurstöðu í auðlindamálum hvort það sem er orkumálum eða málum tengdum fiskeldi.

Pólitíska niðurstaðan um mörk fiskeldisauðlindarinnar var hvorki besta niðurstaðan fyrir Vestfirðinga né landsmenn alla. Mjög skortir á að tækifærin í sjálfbærri auðlindanýtingu séu fullnýtt og að Vestfirðingar fái notið eigin verðmætasköpunar með sanngjörnum og beinum hætti. Ríkið gekk fulllangt með tvöfaldri auðlindagjaldtöku og eftirlætur sveitarfélögum á Vestfjörðum ekkert. Þau þurfa að fara bónleiðina suður með styrkumsókn til stjórnar Fiskeldissjóðs sem ákvarðar hvort veita skuli þessu eða hinu sveitarfélaginu framlög til uppbyggingar. Það er miðstýring á hæsta stigi sem gengur ekki og Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða.

Tækifærin eru á Vestfjörðum

Ef vilji er til að byggja undir fjölgun starfa á Vestfjörðum og fullnýta þau tækifæri sem blasa við þarf um þau mál pólitíska forystu. Það verður að gerast á forsendum byggðanna sjálfra en ekki eftir áherslum vinstri flokkanna um náttúruvernd ofar samfélagi manna eða miðstýrðri stjórnsýslu í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn vill ryðja burt hindrunum á Vestfjörðum fái hann til þess umboð og styrk. Þetta snýst um að fólki geti skapað störf og sótt vinnu þar sem það kýs að búa.

Greinin birtist á bb.is 20. september 2021.