Um þetta snúast kosningarnar

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Á kjördag blasa við tveir skýrir valkostir. Samtíningur margra flokka með ævintýralegan útgjaldalista á kostnað almennings eða öflug ríkisstjórn sem hefur styrk og burði til að leysa áskoranir til framtíðar og viðhalda efnahagslegum stöðugleika.

Kosningarnar snúast öðru fremur um eftirfarandi mál og valið snýst um hverjum er treystandi fyrir þeim.

  1. Lægri skattar tryggja betri lífskjör

Það skiptir heimilin öllu að við varðveitum stöðugleika og lága vexti. Til þess þarf áfram að reka ábyrga ríkisfjármálastefnu. Skattar munu áfram lækka undir forystu Sjálfstæðisflokksins og ráðstöfunartekjur fólks aukast. 

Skattkerfið á ekki að refsa duglegu og framtakssömu fólki, það á að njóta eigin uppskeru. Á vefnum skattalækkun.is geta allir slegið inn sín laun og séð hverju munar um skattalækkanir síðustu ára. 

Með lægri sköttum verður atvinnulífið sterkt, nýsköpun heldur áfram að blómstra og atvinnuleysi heldur áfram að minnka. 

Fjölflokka ríkisstjórn af vinstri vængnum mun hækka skatta og safna skuldum til að borga fyrir óábyrgan loforðalista sem engin innistæða er fyrir. Við þurfum að gæta hófs í útgjöldum og gæta þess að velta ekki lífskjörum okkar í dag á herðar komandi kynslóða með óábyrgri skuldasöfnun. Sterkur ríkissjóður getur hjálpað fólki og fyrirtækjum í mótbyr eins og liðið ár sannar, skuldsettur ríkiskassi gerir það ekki. 

  1. Olía út og rafmagn inn

Rafvæðing bílaflotans hefur gengið vonum framar og árangur Íslands orðinn næstbestur í heimi. Við ætlum að ganga lengra og verða fyrst þjóða óháð olíu. 

Íslendingar sýndu að þeir geta lyft Grettistaki í orkuskiptum með hitaveituvæðingu 20. aldar, þar sem við bundum nær alfarið enda á olíunotkun til húshitunar. Kolamökkurinn hvarf, kolakjallararnir tæmdust og kolabílarnir hurfu.

Á sama hátt getum við losað okkur við gulu slikjuna yfir höfuðborgarsvæðinu, breytt bensínstöðvum í spennandi þróunarland og síðast en ekki síst; hætt að eyða tugmilljörðum í innflutta olíu. 

Allt er þetta rauhæft, en ef okkur er alvara með að ráðast til atlögu við loftslagsvána þarf okkur líka að vera alvara með að sækja innlenda orku. Flokkar sem loka augunum fyrir því og setja mest púður í að haka í box á eyðublöðum munu ekki ná raunverulegum árangri. 

Fjölflokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks hvorki vill né ræður við verkefnið.

  1. Heilbrigðiskerfi fyrir fólkið, ekki fólk fyrir kerfið

Fólk á að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Við eigum vel fjármagnað og öflugt heilbrigðiskerfi og framlögin hafa stóraukist undanfarin ár. 

Við ætlum að gera enn betur og taka upp nýja þjónustutryggingu. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð rekstrarformi og loforð um þjónustu innan 90 daga.

Þannig einblínum við á að góð þjónusta standi öllum til boða, en festumst ekki í rörsýn á að opinber starfsmaður veiti hana. Við eigum skýrar fyrirmyndir á Norðurlöndum og Sjálfstæðisflokkurinn lagði grunn að vegferðinni í heilbrigðisráðuneytinu á sínum tíma. 

Í lausnum á borð við íslenskt frumkvöðlastarf í fjarheilbrigðisþjónustu liggja svo gríðarleg tækifæri í að bæta þjónustuna og færa hana nær fólki.

Raunverulegur árangur næst ekki undir forystu flokka sem hafa enga stefnu aðra en að kalla á sífellt meiri peninga, óháð útkomunni. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins verður kerfið til fyrir fólkið, en ekki fólkið fyrir kerfið. 

Ísland er land tækifæranna

Við höfum fulla ástæðu til bjartsýni og horfurnar eru góðar. Ísland hefur farið betur í gegnum erfiða tíma en flest ríki og það gerðist ekki af sjálfu sér. Atvinnuleysi fer hríðlækkandi. Atvinnulífið styrkist á ný. Lífskjör okkar eru betri þrátt fyrir Covid. Skattar hafa lækkað og kjör heimilanna stórbatnað fyrir vikið. Útflutningur á hugviti hefur margfaldast og ný störf orðið til. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarás í ríkisstjórn sem stóðst þrekprófið. 

Við erum á réttri leið og á næstum fjórum árum getum við vaxið, tekið risastór skref í loftslagsmálum með grænu orkubyltingunni, byggt upp okkar dýrmæta velferðarkerfi og fjárfest í fólki og hugmyndum.

Þetta mun gerast ef Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. septembet 2021.