Nýsköpunarlandið Ísland

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Hafi einhver haft efasemdir um efnahagslega skynsemi þess að styðja við og efla nýsköpun getur sá hinn sami pakkað þeim efasemdum ofan í skúffu og glaðst yfir hvernig íslenskur hugverkaiðnaður er að springa út. Á síðasta ári námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar um 158 milljörðum króna – 103% meira en árið 2013. Hlutdeild hugverkaiðnaðar í útflutningstekjum fór úr 7,4% í nær 16%. Fjórða stoðin í íslensku atvinnulífi – í verðmætasköpun landsmanna – hefur því sprungið út á erfiðum tímum.

Virkjun hugvitsins – nýsköpunin – byggist á framtakssemi, sköpunargleði og færni einstaklinga. Hugvitið verður ekki virkjað inni á ríkiskontórum eða á skrifborðum embættismanna. Frumkvöðullinn – hugvitsmaðurinn – fær því aðeins notið sín að hann fái til þess frelsi og frjóan jarðveg. Hlutverk embættismannsins er að þjóna hugvitsmanninum, liðka til innan kerfisins. Því miður eru dæmi um hvernig kerfislægar hindranir og allt að því þráhyggja koma í veg fyrir að ferskir vindar nýsköpunar fái að leika um samfélagið, með betri lausnum og hagkvæmari nýtingu fjármagns.

Stjórnmálamaðurinn ber ábyrgð á því að ryðja úr vegi hindrunum, smíða hagkvæmt regluverk og tryggja umhverfi hvatningar og umbunar fyrir sköpunargleði og framtakssemi. Enginn stjórnmálaflokkur skilur þetta betur en Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur rutt braut inn í nýja tíma, þar sem hugvitið verður svo sannarlega í askana látið. Að standa þétt við bakið á nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum er samofið grunnstefi í hugmyndafræði okkar sjálfstæðismanna um athafnafrelsi einstaklingsins.

Land frumkvöðla og nýsköpunar

Undir forystu og að frumkvæði Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur nýsköpunarráðherra hafa verið byggðar traustar undirstöður undir hugverkaiðnaðinn og alla nýsköpun með uppstokkun á skatta- og fjármögnunarumhverfi nýsköpunar og þróunar. Nýsköpunarstefna stjórnvalda hefur og er að skila árangri. Hér verður gengið svo langt og fullyrt að við Íslendingar séum í dauðafæri til að byggja undir enn frekari vöxt hugverkaiðnaðar á komandi árum. Við getum gert Ísland að landi frumkvöðla og nýsköpunar – landi tækifæranna. Fátt hefur skipt nýsköpun meira máli en hækkun á endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði sem var hækkuð í 1.100 milljónir króna og hlutfall endurgreiðslu úr 20% í 35% hjá meðalstórum og minni fyrirtækjum en í 25% hjá stærstu fyrirtækjunum. Það er forgangsverkefni Sjálfstæðisflokksins, fái hann til þess þingstyrk, að tryggja að endurgreiðslan verði ótímabundin – verði til frambúðar og hækki.

Skrefin inn í framtíðina hafa verið fleiri.

Skattaafsláttur til einstaklinga vegna fjárfestinga í litlum félögum – ekki síst sprotafyrirtækjum í þróunarstarfsemi – var hækkaður úr 50% í 75%. Um leið voru fjárhæðarmörk hækkuð úr 10 milljónum króna í 15 milljónir. Til að virkja enn frekar fjármagn einstaklinga í nýsköpun á að hækka hlutfallið í 100% strax á komandi ári og tvöfalda fjárhæðarmörkin í það minnsta.

Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna voru auknar tímabundið þannig að nú geta sjóðirnir átt allt að 35% í stað 20% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum. Þessa heimild verða lífeyrissjóðirnir að fá varanlega.

Stofnun Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs markar tímamót í fjárfestingarumhverfi fyrirtækja, ekki síst á sviði hugverkaiðnaðar. Hlutverk Kríu er að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds) sem fjárfesta beint í skapandi sprotafyrirtækjum. Þá eru ónefnd stóraukin framlög til rannsókna og þróunar, m.a. til tækniþróunarsjóðs. Matvælasjóður, sem varð til með sameiningu framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, styður við nýsköpun, sjálfbærni og verðmætasköpun íslenskrar matvælaframleiðslu.

Sköpunargáfan njóti sín

Með markvissum og skilvirkum hætti hefur verið unnið að því að móta og tryggja heilbrigt umhverfi fyrir áhættufjármagn til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum samhliða því sem ýtt hefur verið undir rannsóknir og þróun.

Allar þessar breytingar miða að því að gera Ísland samkeppnishæft á sviði nýsköpunar – leggja grunn að því að Ísland sé og verði nýsköpunarland. Markaðssetning Íslands snýst ekki lengur aðeins um ferðamannalandið Ísland heldur ekki síður um nýsköpunarlandið í norðurhöfum, sem er aðlaðandi fyrir erlenda fjárfesta, frumkvöðla og sérfræðinga frá öllum heimshornum. Þannig tökum við þátt í harðri alþjóðlegri samkeppni um hugvit, þar sem við stöndum ágætlega en getum styrkt stöðuna enn betur.

Öllum má vera ljóst, þegar horft er á þróun hugverkaiðnaðarins síðustu ár, að nýsköpun er ekki illskiljanlegt tískuorð einhverra sérvitringa í tæknifyrirtækjum heldur traust stoð undir íslensku efnahagslífi. (Hugverkaiðnaðurinn er fjölbreyttur; tölvuleikjafyrirtæki, gagnaver og hugbúnaðarfyrirtæki, lyfja- og líftæknifyrirtæki, heilbrigðistækni, framleiðsla stoðtækja og tækja fyrir matvælaiðnað og kvikmyndagerð.) Í einfaldleika sínum er nýsköpun ekki annað en að leyfa sköpunargáfu einstaklingsins að njóta sín.

Sjálfstæðisflokkurinn er nýsköpunarflokkurinn sem með stefnu sinni og verkum hefur gjörbreytt umhverfi nýsköpunar og þróunar, skotið styrkum stoðum undir sprotafyrirtæki. Árangurinn er áþreifanlegur en við verðum að halda áfram – tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi.

Morgunblaðið, 8.sept. 2021.