Skýrir kostir

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Þegar rætt er um framtíðarsýn er mikilvægt að bera skynbragð á stöðuna hverju sinni. Okkur gengur vel á flestalla mælikvarða. Kaupmáttur eykst stöðugt, vextir hafa lækkað mikið á kjörtímabilinu og tækifærunum fjölgar hratt samhliða átaki í nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Við erum á réttri leið út úr kórónu­kreppunni. Atvinnuleysi minnkar mánuð eftir mánuð og efnahagsaðgerðir okkar fá góðan dóm í íslenskum könnunum, umsögnum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Lánskjör ríkissjóðs haldast hagstæð vegna þess að erlend matsfyrirtæki hafa trú á stefnunni, eins og kom skýrt fram í fréttum á dögunum.

Í nýbirtu hálfsársuppgjöri er afkoma ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins 27 milljörðum betri en áætlað var, og horfurnar góðar. Þetta má meðal annars rekja til markvissra efnahagsaðgerða, vaxtar í nýsköpun og vel heppnaðrar sölu hluta í Íslandsbanka. Með bankasölunni fengust ekki aðeins miklir fjármunir í ríkissjóð, heldur hefur verðmæti þeirra hluta sem eftir standa hjá ríkinu aukist verulega samhliða skráningu bankans á markað.

Með þessar staðreyndir í farteskinu er holur hljómur í rangfærslum stjórnarandstæðinga um að ríkisstjórnin ætli að „skera niður um 100 milljarða“. Vart þarf að ítreka að þar er einfaldlega talað gegn betri vitund. Ef við höldum áfram á sömu braut verður lítil þörf fyrir aðhaldsaðgerðir næstu misserin.

Skattahækkanir og skerðingar vinstristjórnarinnar milli áranna 2009 og 2013 eru þjóðinni þó enn í fersku minni. Og nú eru sömu brögðin boðuð með útblásnum útgjaldaloforðum, ESB-aðild, hækkun skatta og aukinni ríkisvæðingu. Verði sú hugmyndafræði ofan á mun Ísland lenda á ný í efnahagslegri sjálfheldu vinstrimanna með tilheyrandi skaða fyrir fólk og fyrirtæki. Valkostirnir hafa sjaldan verið skýrari.

Við Sjálfstæðisfólk ætlum ekki að draga kanínur upp úr höttum, heldur einblína á það sem hefur alltaf gefist best. Stórstígar framfarir í samfélaginu síðustu áratugi hafa grundvallast á gildum sjálfstæðisstefnunnar. Trú á fólkið, framtakssemina og réttlátt samfélag sem byggir á jöfnum tækifærum – ekki þvingaðri jafnri útkomu. Ísland er land tækifæranna og þannig ætlum við að hafa það áfram.

Fréttablaðið, 8. sept. 2021