Hvar er allt fólkið?

Björgvin Jóhannesson, frambjóðandi í 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi:

Það er ánægju­legt að sjá að fyr­ir­tæki sem neydd­ust til að draga sam­an segl­in vegna áhrifa kór­ónu­veirunn­ar eru nú að efl­ast og ná fyrri styrk. Aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar hafa hjálpað þeim að viðhalda ráðning­ar­sam­bandi við starfs­fólk sitt, þótt upp­sagn­ir hafi í mörg­um til­fell­um því miður verið óumflýj­an­leg­ar.

End­ur­ráðning­ar hafa víða gengið vel en sam­kvæmt töl­um Vinnu­mála­stofn­unn­ar mæld­ist skráð at­vinnu­leysi í júlí 6,1% eða um 12.500 manns án vinnu. Þetta eru mun hærri at­vinnu­leys­istöl­ur en við erum vön hér á landi og afar mik­il­vægt að ná þeim niður sem fyrst.

Með 12.500 manns á at­vinnu­leys­is­skrá skýt­ur það nokkuð skökku við að stærsta vanda­mál margra at­vinnu­rek­enda í dag er að fá fólk til starfa. Gild­ir þá einu hvort um er að ræða störf í ferðaþjón­ustu, iðnaði eða versl­un og þjón­ustu, um allt land vant­ar starfs­fólk. Afar skipt­ar skoðanir eru um ár­ang­ur úrræðis­ins „Hefj­um störf“ og mörg dæmi um að fyr­ir­tæki nái ekki sam­bandi við fólk á at­vinnu­leys­is­skrá, það er ým­ist statt er­lend­is eða hef­ur ein­fald­lega ekki áhuga á að þiggja starfið. Rekstr­araðilar hafa neyðst til að skerða af­greiðslu­tíma hjá sér því ekki tekst að manna stöður og at­vinnu­aug­lýs­ing­ar fá lít­il sem eng­in viðbrögð, þrátt fyr­ir að í boði séu laun á við tvö­fald­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur. Hvað veld­ur þessu?

Vissu­lega geta aðstæður verið mis­mun­andi hjá fólki en vand­inn er stærri en svo að hægt sé að líta fram­hjá heild­ar­mynd­inni sem við blas­ir. Það er áhyggju­efni ef sú hug­ar­fars­breyt­ing hef­ur rutt sér til rúms í sam­fé­lag­inu að taka ekki þeirri vinnu sem býðst hverju sinni. At­vinnu­leys­is­bóta­kerfið er neyðarúr­ræði, það er fjár­magnað úr sam­eig­in­leg­um sjóðum og hvat­inn til að snúa aft­ur út á vinnu­markaðinn verður að vera ríkj­andi. Ef hann er ekki fyr­ir hendi er hætt við að at­vinnu­leysi fest­ist í sessi til lengri tíma litið og erfitt get­ur reynst að vinda ofan af því.

Það er ábyrgð hvers og eins að nýta sér ekki vel­ferðar­kerf­in að nauðsynja­lausu, það stuðlar að því að fólk sem mæt­ir ofjarli sín­um í líki fá­tækt­ar eða sjúk­dóma fær minni aðstoð en það þarf. Þannig fest­ist sam­fé­lagið í víta­hring þegar hjálpa á þeim sem minnst­an hlut bera úr být­um og á því töp­um við öll.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 2021.