Það er grundvallar lífskjaramál að stefna stöðugleika, framfara og frelsis ráði för á nýju kjörtímabili, en ekki stefna skattahækkana, stjórnlyndis, aukinnar miðstýringar og skerðinga. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni á kosningastefnufundi formanna og flokksráðs Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn er sendur út frá Hilton Reykjavík Nordica en fer fram á ýmsum stöðum víða um land.
Yfirskrift fundarins er „land tækifæranna“ og sagði Bjarni í ræðunni jöfn tækifæri vera grundvallaratriði í velferðarsamfélagi. „Hér á Íslandi leggjum við alla áherslu á raunveruleg jöfn tækifæri til náms, menntunar og aðgengis að heilbrigðisþjónustu. Þetta styður við frelsi til að móta eigin framtíð. Skapa sér lífið sem við sækjumst eftir, hvert og eitt.“
Sér glasið hálf fullt
Bjarni fór um víðan völl í ræðu sinni. Hann fjallaði um áherslur um grænni framtíð og sagði mikilvægt að sjá tækifæri í vandamálum í stað vandamál í tækifærum. Þannig kjósi Sjálfstæðisflokkurinn að líta á hlutina. Hann kom inn á stórar hugmyndir sem koma fram í grænbókinni Farsæl framtíð um uppstokkun á kerfi ellilífeyris almannatrygginga og áherslur í málefnum eldri borgara.
Um heilbrigðiskerfið sagði hann að tryggja þyrfti skilvirkni og hámarks árangur, en aukið hefur verið verulega við fjárframlög til heilbrigðiskerfisins á undanförnum árum. „Landspítalinn hefur 78 milljarða á ári í reksturinn í dag borið saman við 60 milljarða þegar ríkisstjórnin tók við,“ sagði Bjarni.
Sjálfstæðisflokkurinn lætur verkin tala
Bjarni benti á að skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins frá 2013 nemi 35 milljörðum króna á hverju ári, sem séu eftir hjá heimilum í landinu. Þar af munar mestu um skattalækkanir síðustu tvenn áramót en launamaður með 400 þúsund króna mánaðarlaun hefur 120 þúsund krónum meira milli handanna á ári en áður en til þeirra kom.
„Og í okkar stjórnartíð höfum við lækkað tryggingagjaldið svo hressilega að íslensk fyrirtæki greiða 25 milljörðum minna á ári. 25 milljörðum! Við höfum líka afnumið tolla og vörugjöld, stórfækkað í hópi þeirra sem greiða fjármagnstekjuskatt og nýtt skattalega hvata, frekar en þvinganir, til að stuðla að grænu byltingunni.“
„Við sögðumst ætla að draga úr umsvifum ríkisins í bankarekstri og koma á heilbrigðara eignarhaldi. Það tókst! Við seldum þriðjung, um 50 milljarða hlut í Íslandsbanka og skráðum hann á markað,“ sagði Bjarni. „Fyrir vikið fengum við yfir 20 þúsund nýja fjárfesta, milljarða í ríkissjóð og aukið verðmæti á hlutnum sem eftir stendur hjá okkur.“
Ræðuna má horfa á í heild sinni hér.