Eitt af því sem íbúar sveitarfélaga búast við er að geta sótt þjónustu í sinni heimabyggð. Grafarvogur er ekkert öðruvísi, við erum eitt stærsta hverfið í sveitarfélaginu. Stolt til sinnar heimabyggðar er eitthvað sem hver maður ætti að geta flíkað hvar sem komið er. Í umræðum í hverfinu um þau verkefni sem við höfum fengið að fóstra eins og til að mynda hin margumtöluðu smáhýsi þá föllum við of oft í þá gryfju að vilja lækna afleiðinguna en ekki orsökina. Þegar við skömmumst yfir slæmum ákvörðunum um staðsetningu gleymist því sem okkur var lofað, það er að gera vel og að veita ætti þessum skjólstæðingum borgarinnar faglega og vandaða þjónustu.
Það er stolt hvers sveitarfélags að geta veitt sínum minnstu bræðrum og systrum umhyggju og þjónustu. Við get ekki annað sagt en að við skömmumst okkar hvernig borgin sem við búum í hefur komið fram við þá einstaklinga sem hafa hingað til þurft að njóta þeirrar þjónustu sem í boði hefur verið í smáhýsum í Gufunesi. Við ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bæta þessa aðstöðu og kalla á úrvals þjónustu af hendi borgarinnar, eins og hafði verið lofað af meirihluta borgarstjórnar.
Að þessu sögðu er hægt að taka fleiri atriði til eins og skólamál, samgöngumál og þrif og umhirðu í hverfinu. Öll þessi atriði geta fyllt íbúa stolti yfir hverfinu sínu og gefið vissu um það að hér og hvergi annars staðar sé best að búa. Látum ekki óstjórn fárra einstaklinga í meirihluta borgarstjórnar afvegaleiða okkur íbúa í Grafarvogi í vilja okkar til þess að rétta okkar fólki hjálparhönd. Tökum höndum saman og förum fram á betri þjónustu við alla íbúa sveitarfélagsins.
Valgerður Sigurðardóttir Borgarfulltrúi og Þorvaldur Tolli Ásgeirsson Formaður félags Sjálfstæðismanna í Grafarvogi.
Grafarvogsblaðið.