Atvinnufrelsi heilbrigðisstarfsmanna – réttindi sjúkratryggðra

Óli Björn Kárason, alþingismaður:

Fyr­ir fimm árum hóf hóp­ur ungs hæfi­leika­fólks nám í sjúkraþjálf­un. Eft­ir að hafa lokið ströngu þriggja ára BS-námi, tóku flest­ir ákvörðun um að halda áfram og ljúka tveggja ára stífu masters­námi sem gef­ur rétt „til að kalla sig sjúkraþjálf­ara og starfa sem slík­ur hér á landi,“ eins og seg­ir í reglu­gerð um mennt­un, rétt­indi og skyld­ur sjúkraþjálf­ara.

Ákvarðanir ungs fólks um að leggja á sig erfitt nám end­ur­spegla löng­un til að leggja hönd á plóg­inn við að bæta hreyfigetu, færni og heilsu okk­ar allra, en um leið koma í veg fyr­ir eða „draga úr af­leiðing­um áverka, álags­ein­kenna, sjúk­dóma, öldrun­ar og lífs­stíls,“ svo vitnað sé í lýs­ingu á nám­inu. Sem sagt: Auka lífs­gæði og heil­brigði lands­manna.

Sjálfsagt hafa marg­ir nem­arn­ir stefnt að því í upp­hafi að vinna inn­an veggja rík­is­rekna heil­brigðis­kerf­is­ins – á sjúkra­hús­um, – aðrir horft til þess að ganga til liðs við sjálf­stæðar end­ur­hæf­ing­ar­stofn­an­ir og enn aðrir talið að þekk­ing og kraft­ar þeirra nýt­ist best hjá sjálf­stætt starf­andi fyr­ir­tækj­um í sjúkraþjálf­un. Að minnsta kosti einn átti sér þann draum og opna eig­in stofu úti á landi og hafði þegar gert ráðstaf­an­ir í hús­næðismál­um.

En svo var leik­regl­un­um breytt.

Svipt­ir rétt­ind­um

Nokkr­um mánuðum fyr­ir út­skrift breyttu heil­brigðis­yf­ir­völd reglu­gerð um end­ur­greiðslu Sjúkra­trygg­inga Íslands vegna sjúkraþjálf­un­ar. End­ur­greiðslan er sam­kvæmt gjald­skrá sem stofn­un­in set­ur ein­hliða, en ekki hafa tek­ist samn­ing­ar milli sjúkraþjálf­ara og Sjúkra­trygg­inga. Breyt­ing­in læt­ur kannski ekki mikið yfir sér, en gjör­breyt­ir for­send­um ungra sjúkraþjálf­ara. Skil­yrði fyr­ir end­ur­greiðslu sjúk­lings er að sjúkraþjálf­ar­inn hafi starfað í að minnsta kosti tvö ár sem sjúkraþjálf­ari, í að minnsta kosti 80% starfs­hlut­falli, eft­ir lög­gild­ingu.

Sem sagt: Eng­inn viðskipta­vin­ur þeirra sjúkraþjálf­ara sem ný­lega hafa lokið námi, á rétt á end­ur­greiðslu frá Sjúkra­trygg­ing­um næstu tvö árin. Eða: All­ir þeir sem ákveða að nýta sér þjón­ustu ný­út­skrifaðra, sjálf­stætt starf­andi sjúkraþjálf­ara eru svipt­ir sjúkra­trygg­ing­um.

Við get­um einnig stillt þessu upp með eft­ir­far­andi hætti: Með reglu­gerðinni er verið að skerða at­vinnu­rétt­indi sjálf­stætt starf­andi sjúkraþjálf­ara í tvö ár. Eft­ir langt og strangt fimm ára nám, þar sem gef­in voru fyr­ir­heit um full starfs­rétt­indi – at­vinnu­rétt­indi – er jafn­ræðis­regl­an þver­brot­in og regl­an um meðal­hóf í stjórn­ar­at­höfn­um er ryk­fallið og merk­ing­ar­laust hug­tak í djúp­um skúff­um kerf­is­ins.

Staða tal­meina­fræðinga og skjól­stæðinga þeirra er svipuð en er þó á grunni ramma­samn­ings milli þeirra og Sjúkra­trygg­inga. Spurn­ing er hvort tal­meina­fræðing­ar hafi mátt sín mik­ils í þeim „samn­ingaviðræðum“. Tal­meina­fræðing­ar eru fáliðaðir og hundruð barna og ung­linga þurfa að bíða í 18 til 36 mánuði eft­ir að fá nauðsyn­lega þjón­ustu. Það er eitt­hvað galið við það að ný­út­skrifuðum tal­meina­fræðingi sem hef­ur fengið starfs­leyfi Land­lækn­is, skuli meinað að vinna sjálf­stætt og komið sé í veg fyr­ir að skjól­stæðing­ar hans njóti rétt­inda til end­ur­greiðslu. Bíddu í tvö ár seg­ir kerfið. Og svo eru ein­hverj­ir hissa ef end­ur­nýj­un á sér ekki stað.

Bar­átta að engu gerð

Því miður eru dæm­in um sjúkraþjálf­ar­ana og tal­meina­fræðing­ana ekki þau einu um hvernig hægt og bít­andi er verið að grafa und­an sjálf­stætt starf­andi heil­brigðis­stétt­um, tak­marka at­vinnu­frelsi þeirra og hafa rétt­indi af sjúkra­tryggðum. Staða sjálf­stætt starf­andi sér­fræðilækna er lítið skárri og hægt en ör­ugg­lega er verið að hrekja þá út úr sam­eig­in­legu trygg­inga­kerfi okk­ar allra. Og þar með verður til tvö­falt heil­brigðis­kerfi með einka­rekn­um sjúkra­trygg­ing­um.

Flest verðum við að sætta okk­ur við heil­brigðisþjón­ustu inn­an rík­is­rekna trygg­inga­kerf­is­ins, með til­heyr­andi biðlist­um. Efna­meira fólk kaup­ir þjón­ust­una beint eða í gegn­um eig­in trygg­ing­ar, af sér­fræðilækn­um, sjúkraþjálf­ur­um og tal­meina­fræðing­um. Ára­tuga bar­átta fyr­ir því að all­ir eigi jafn­an og greiðan aðgang að nauðsyn­legri heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag, verður að engu gerð.

Ekki uppörv­andi skila­boð

Engu er lík­ara en að heil­brigðis­yf­ir­völd eigi erfitt með að skilja að heil­brigðis­vís­ind­in eru þekk­ing­ariðnaður, sem nær­ist á fjöl­breyti­leika, ekki síst í rekstr­ar­formi, nýliðun og fram­sæk­inni hugs­un. Skila­boðin sem stjórn­völd senda ungu fólki, sem hug­ar að því að leggja fyr­ir sig langt og strangt nám og verða lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræðing­ar, sjúkraþjálf­ar­ar, líf­fræðing­ar, lyfja­fræðing­ar, tal­meina­fræðing­ar eða sál­fræðing­ar, eru ekki uppörv­andi: Þið getið alltaf átt von á því að regl­um verði breytt, at­hafna­frelsi ykk­ar skert og rétt­indi skjól­stæðinga ykk­ar að engu höfð. Og allra síst höf­um við sér­stak­an áhuga á að auka starfs­mögu­leika ykk­ar utan rík­is­rek­ins heil­brigðis­kerf­is­ins.

En þetta unga fólk mun ekki láta hug­fall­ast. Það veit sem er að heil­brigðis­starfs­menn eru alþjóðlegt vinnu­afl. Heim­ur­inn er þeirra starfs­vett­vang­ur. Þegar heil­brigðis­yf­ir­völd átta sig á þess­ari ein­földu staðreynd þá opn­ast von­andi aug­un fyr­ir því að við Íslend­ing­ar erum í harðri alþjóðlegri sam­keppni um hæfi­leika­ríkt og vel menntað starfs­fólk. Þá er von til þess að hugað verði bet­ur að at­vinnu­frelsi og jafn­ræði allra heil­brigðis­stétta.

P.s.

Reglu­gerð um end­ur­greiðslu vegna þjón­ustu ný­út­skrifaðra sjúkraþjálf­ara renn­ur út 31. ág­úst næst­kom­andi. Ráðherra get­ur leiðrétt rang­lætið með því að gera ekk­ert en senda Sjúkra­trygg­ing­um skila­boð um að breyta ramma­samn­ingi tal­meina­fræðinga og af­nema tveggja ára rang­lætið sem þar rík­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. ágúst 2021.