Við lækkum skatta og álögur

Berglind Ósk Guðmundsdóttir, 2. sæti í NA-kjördæmi og Ragnar Sigurðsson, 4. sæti í NA-kjördæmi:

Sjaldan hefur verið jafn mikil ástæða og í núverandi árferði til að stuðla að uppsveiflu í þjóðfélaginu með hvataaðgerðum. Aukin umsvif og fjárfesting atvinnulífsins mun gera það að verkum að við náum að rétta af fjárhag ríkisins sem er forsenda áframhaldandi uppbyggingar á öllum sviðum og þeirra lífsgæða sem við búum við í dag. Ennfremur gerir það okkur kleift að mæta margvíslegum áskorunum framtíðarinnar hvort sem það er á sviði atvinnumála, loftslagsmála, heilbrigðismála, samgangna eða menntamála.

Lægri skattar á atvinnulífið

Mikilvægt er að auka svigrúm atvinnulífsins til að fjölga störfum og skapa aukin verðmæti. Lægri skattar ýta undir aukin umsvif fyrirtækja og veita þeim nauðsynlegt svigrúm til athafna og vaxtar.

Tryggingagjaldið þarf að lækka og eins er nauðsynlegt að lækka fjármagnstekjuskattinn og stuðla þannig að aukinni fjárfestingu innan atvinnulífsins.

Við lækkum skatta

Sú mýta heyrist gjarnan úr röðum andstæðinga að Sjálfstæðisflokkurinn lofi skattalækkunum fyrir kosningar en lítið sé um efndir. Staðreyndirnar tala hins vegar öðru máli.

  • Tekjuskattur einstaklinga lækkaði á árunum 2014- 2018 og aftur á þessu kjörtímabili með innleiðingu nýs lægra skattþreps. Með innleiðingu ný lægra skattþreps varð tekju­skatt­ur ein­stak­linga um 21 millj­arði króna lægri á ári.
  • Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts vegna vinnu við nýbyggingar, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis var hækkað úr 60% í 100% og útvíkkað þannig að það næði m.a. til bílaviðgerða.
  • Tryggingagjaldið hefur lækkað. Tryggingagjaldið í dag er 6,1% en var 7,7% árið 2013.
  • Virðisaukaskattur var 25,5% en hefur verið lækkaður niður í 24%. Virðisaukaskattur á getnaðarvörnum var færður í lægra virðisaukaskattsþrep og nemur nú 11%.
  • Þá hafa tollar og vörugjöld verið afnumin af ýmsum vörutegundum á undanförnum árum sem hefur skilað sér í lægra verðlagi fyrir neytendur.
  • Skattleysismörk erfðafjár fór úr einni og hálfri milljón í fimm.
  • Skerðingarmörk barnabóta hafa hækkað.
  • Frá og með síðustu ára­mót­um var sölu­hagnaður frí­stunda­hús­næðis, sem nýtt hef­ur verið til eig­in nota, verið í eigu viðkom­andi í sjö ár eða leng­ur og fell­ur und­ir stærðarmörk laga, ekki leng­ur skattlagður og viðkom­andi mun ekki sæta skerðing­um á rétt­ind­um al­manna­trygg­inga. Þessi breyt­ing kem­ur ekki síst eldri borg­ur­um til góða.
  • Frítekjumark fjármagnstekna hefur verið tvöfaldað – hækkar úr 150 í 300 þúsund krónur.

Þetta eru dæmi um álögur og skatta sem lækkað hafa á undanförnum árum. Slíkar lækkanir skila sér í öflugra atvinnulífi og aukinni hagsæld vinnandi fólks. Betur má ef duga skal og á næstu árum þurfum við að stíga frekari skref í þessa átt til að örva framfarir og uppbyggingu. Það leggur grunninn að aukinni velferð fyrir alla.