Við ætlum mæta áskorunum framtíðarinnar

Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Við ætlum mæta áskorunum framtíðarinnar

Íslendingar standa frammi fyrir miklum áskorunum á næstu árum og áratugum. Þjóðin eldist hratt með lækkandi fæðingartíðni og hærri meðalaldri landsmanna. Umtalsvert mun fjölga í elsta aldurhópi þjóðarinnar á meðan fjölgunin í aldurshópnum 20-69 ára verður mun minni samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Við þurfum að mæta þessari áskorun með skipulögðum hætti til að viðhalda hagsæld, núverandi lífsgæðum og framþróun. Það verður ekki gert nema með aukinni verðmætasköpun og forgangsröðun í rekstri og útgjöldum hins opinbera.

Aukin verðmætasköpun

Ráðgjafafyrirtækið Mckinsey & Company fjallaði um þessa áskorun í skýrslu árið 2012 sem við þurfum að takast á við. Sérfræðingar McKinsey komust að þeirri niðurstöðu að til að viðhalda hagvexti yfir þetta skeið þar sem hlutfall einstaklinga á vinnumarkaði fjölgar mun hægar en þeim sem verða utan vinnumarkaðar þurfi þjóðarbúið að auka útflutningsverðmæti um 1.000 milljarða. Til þess eins viðhalda þeim lífsgæðum sem við þekkjum í dag er því nauðsynlegt að skapa hvetjandi umhverfi sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar og samhliða því þarf að forgangsraða í útgjöldum hins opinbera þar sem hækkandi meðalaldur mun vafalaust leiða til aukinni útgjalda á sviði velferðarmála.

Aðgerðir:

  1. Lækkum skatta og álögur á atvinnulífið og sköpum hvetjandi umhverfi sem leiðir til verðmætasköpunar. Tryggingagjaldið verður að lækka í hraðari skrefum.
  2. Sköpum aukinn hvata fyrir einstaklinga á vinnumarkaði og aukum virkni með því að lækka letjandi jaðarskatta og draga úr hamlandi tekjuskerðingum allra hópa.
  3. Veitum einstaklingum meira frelsi til að auka atvinnuþátttöku og vera lengur á vinnumarkaði.
  4. Höldum áfram að draga úr íþyngjandi regluverki og leyfisveitingum.
  5. Tryggjum skilvirka stjórnsýslu með minni skriffinnsku, meiri einfaldleika og aukinni sjálfvirkni.

Hið opinbera

Hið opinbera hefur tilhneigingu til að þenjast út án nægilegs aðhalds. Kröfur um útgjaldaaukningu og raddir um fjárþörf eru eðlilega háværari en þær sem snúa að hagkvæmni. Sífellt aukin ríkisumsvif umfram tekjuaukningu leiðir til ósjálfbærni í ríkisrekstri þar sem skattar geta ekki staðið undir útgjaldaukningunni. Undanfarin ár hafa skattar lækkað og skuldir ríkissjóðs einnig en útgjöld hins opinbera hafa engu að síður aukist sem og vaxtabyrði ríkissjóðs. Með aukinni sjálfvirknivæðingu með tilkomu stafrænnar þróunar ættu að skapast leiðir til aukinnar hagræðingar hjá hinu opinbera samhliða áframhaldandi einföldun regluverks. Stafræn þjónusta hins opinbera samhliða einfaldara regluverki og leyfisveitingum mun leiða til hagkvæmari stjórnsýslu, betra aðgengi og tímasparnaðar.

Útgjöld til velferðarmála aukast hratt hér á landi og vega þar þyngst almannatryggingar og öldrunarmál, auk heilbrigðismála almennt. Á undanförnum árum hefur fjölgað frekar hratt í hópi örorkuþega og mun meira en í Norðurlöndunum. Stór hópur öryrkja býr yfir ákveðinni starfsgetu og hefur starfsvilja en er engu að síður óvirkur á vinnumarkaði. Mikilvægt er að koma á starfsgetumati eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til með það að markmiði að auðvelda fólks sem hafa verið utan vinnumarkaðs, í lengri eða skemmri tíma, að snúa aftur til vinnu. Jafnframt þarf að fjölga endurhæfingarúrræðum, skapa aukna hvata með lækkun skerðingarhlutfalls og hækka frítekjumark atvinnutekna. Stór hópur aldraðra býr yfir góðri starfsgetu og starfsvilja langt umfram 67 ára aldurinn. Skapa þarf þessum einstaklingum aukið frelsi og hvata við ákvörðun starfsloka með því að draga úr tekjuskerðingum.

Það er brýnt að horfa til forgangsröðunar við meðferð opinbera fjármuna. Þar er nauðsynlegt að greina umsvif ýmissa opinbera stofnanna s.s. á sviði eftirlitsiðnaðar og innan stjórnkerfisins sem hafa vaxið umfram það sem getur talist til eðlilegrar forgangsröðunar.

Sjálfstæðisflokkurinn í fararbroddi

Á undanförnum árum hafa verið stigin mikilvæg skref til aukinnar verðmætasköpunar með lækkun skatta og einföldunnar á regluverki og stjórnsýslu. Við þurfum að halda áfram og gera betur í því að nýta tækifærin t.d. tengt grænni orkuuppbyggingu, fiskeldi, hátækniiðnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu o.fl. Mikilvægt er að halda áfram að móta umgjörð sem leiðir til hvetjandi og uppbyggilegs skattkerfis fyrir atvinnulífið og borgaranna, þjóðinni til heilla.

Við viljum lægri skatta, minni ríkisumsvif og aukna verðmætasköpun.

Vikudagur, 12. ágúst. 2021