Á nýjum vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins, www.opinberumsvif.is, er hægt að skoða lykiltölur um það hvernig ríkið og sveitarfélög eru rekin. Þar er m.a. að finna upplýsingar um heildargjöld og heildartekjur hins opinbera og hægt er að skoða hvað hver íbúi greiðir til hins opinbera eftir málaflokkum.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í tilefni að opnun vefsins að það sé skylda þeirra sem starfi í stjórnkerfinu að leita leiða til að fara betur með skattfé.
„Það er ekki síður mikilvægt að fólk fái skýrar upplýsingar um hvert peningarnir þeirra renna. Þannig höfum við t.d. breytt álagningarseðlum, þannig að fólk getur nú séð hvernig greiðslur skiptast í skatt og útsvar, sem og hvernig þær renna til ólíkra málaflokka. Vefurinn opinberumsvif.is er nýjasti liðurinn í þessari vegferð, þar sem sjá má svart á hvítu hvernig okkur gengur að ná endum saman.“