„Ég tel að aðgerðirnar sem að við höfum kynnt til sögunnar hafi gagnast mjög vel. Við höfum lagað þær að aðstæðum hverju sinni og mér finnst eðlilegt að við höldum áfram að gera það,” sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í gær í samtali við mbl.is að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum.
Hann segir að þjóðin sé komin yfir erfiðasta tímabilið í efnahagslegum áhrifum faraldursins á ferðaþjónustuna hérlendis.
„Ef aðstæður kalla á að við gerum breytingar á úrræðum sem eru í gildi eða kynna til sögunnar frekari aðgerðir þá finnst mér eðlilegt að það sé gert. Hins vegar kemur þing ekki saman að nýju fyrr en eftir kosningar. Þá er gott að vita til þess að mörg úrræðanna eru með gildistíma út árið,“ segir Bjarni.
Hann segir jákvætt að ekki hafi þurft að loka neinni starfsemi vegna faraldursins hér á landi eins og síðasta vetur og að hagur sé af því að styðja við rekstraraðila þegar á reynir.
„Nú er það þannig að aðgerðirnar sem við höfum lögfest eru almennar. En það er hins vegar rétt að þær hafa umfram aðrar greinar runnið til ferðaþjónustu en það er svo sem ekkert skrítið þar sem ferðaþjónustan og tengdar greinar hafa orðið fyrir mesta áfallinu,” segir hann.
„Úrræðin eru til staðar og hafa gildistíma út árið vegna þess að við höfum talið eðlilegt, að jafnvel þótt við værum farin að létta á samkomutakmörkunum og öðrum ráðstöfunum og ferðamenn væru farnir að koma, að þá væri ekki hægt að útiloka að það gætu komið upp aðstæður sem kölluðu á frekari stuðning. Ég fullyrði það að við erum komin yfir erfiðasta tímabilið. Við erum komin yfir tímabilið þar sem það þurfti að loka starfseminni. Það sést t.d. á aðgerðunum sem nú eru í gildi að það er engri starfsemi lokað,” segir Bjarni.
Hann segir að stuðningur við rekstraraðila sé ekki tapað fé. „Það er fjármunum sem er ráðstafað með skynsamlegum hætti því við erum að forða því að það verði í raun og veru meira tjón annars staðar, bæði í formi atvinnuleysis, gjaldþrota, félagslegra verkefna sem myndu á endanum skola á fjörur ríkisstjórnarinnar,“ segir Bjarni.
Viðtalið í heild á mbl.is má finna hér.