Háð, skopsögur, satírur og örlítil bylting almúgans

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:  

Háðsádeil­ur, skop­sög­ur, brand­ar­ar eða sa­tír­ur, voru hluti af dag­legu lífi al­menn­ings í Sov­ét­ríkj­un­um og lepp­ríkj­um þeirra, und­ir ógn­ar­stjórn komm­ún­ista. Hið sama á við um kúg­un­ar­stjórn­ir víða um heim hvort sem þær kenna sig við komm­ún­isma eða sósí­al­isma. Sög­urn­ar voru og eru leið al­menn­ings til að kom­ast stutta stund und­an oki ófrels­is, skorts, stöðugs ótta og nap­ur­leika hvers­dags­ins. Með þeim á fólk ör­lítið stefnu­mót við frelsi í þjóðfé­lög­um þar sem mál­frelsi er fót­um troðið og Gúlag bíður þeirra sem berj­ast gegn vald­höf­un­um.

Sög­urn­ar eru ádeila á ríkj­andi stjórn­ar­far og veita inn­sýn og oft betri skiln­ing á sam­fé­lög kúg­un­ar, en lang­ar frétta­skýr­ing­ar eða fræðigrein­ar. Á tím­um Ráðstjórn­ar­ríkj­anna mynduðu þær mót­vægi við barna­skap margra vest­rænna mennta­manna sem neituðu að horf­ast í augu við grimmd­ar­verk komm­ún­ista í Sov­ét­ríkj­un­um og Aust­ur-Evr­ópu. Jafn­vel enn í dag njóta lönd þar sem sósí­al­ist­ar hafa kom­ist til valda og rústað efna­hag­inn, vel­vild­ar margra á Vest­ur­lönd­um. Venesúela er aðeins nýj­asta dæmið.

Fyr­ir venju­legt fólk sem býr við ógn­ar­stjórn sósí­al­ista hafa brand­ar­ar og háð verið mik­il­væg sam­skipta­tæki sem mynda far­veg til að tjá gremju, reiði og fyr­ir­litn­ingu á stjórn­ar­far­inu. Í þjóðfé­lög­um skorts­ins verður háðsádeil­an ör­lít­il bylt­ing almúg­ans sem berst í bökk­um við að út­vega sér hvers­dags­leg­ar nauðsynja­vör­ur og lif­ir í stöðugum ótta.

„Af hverju blátt?“

Sög­urn­ar skipta þúsund­um og marg­ar ganga aft­ur, hafa verið yf­ir­færðar og staðfærðar milli landa og tíma. Sum­ar öðlast nýtt líf með nýj­um leiðtog­um. Pútín tek­ur yfir hlut­verk Stalíns og Stalín kem­ur í stað Leníns, o.s.frv. Þannig birt­ist Stalín ljós­lif­andi í draumi Pútíns. „Ég get gefið þér tvö ráð,“ seg­ir Stalín. „Í fyrsta lagi skaltu koma öll­um and­stæðing­um þínum fyr­ir katt­ar­nef og í öðru lagi mála Kreml blátt.“ „Af hverju blátt?“ spyr Pútín hissa. „Ég vissi það. Þú hef­ur ekk­ert við fyrra ráðið að at­huga,“ seg­ir Stalín.

Í sov­ésk­um ádeilu­sög­um eru marg­ar til­vís­an­ir í hung­urs­neyðir, Gúlag og hreins­an­ir.

Hver er mun­ur­inn á Indlandi og Sov­ét­ríkj­un­um? Á Indlandi svelt­ur einn maður fyr­ir þjóðina. Í Sov­ét­ríkj­un­um svelt­ur þjóðin fyr­ir einn mann. (Gand­hi fór í hung­ur­verk­fall árið 1932 til að berj­ast fyr­ir sjálf­stæði Ind­lands, en á sama tíma herjaði hung­urs­neyð í Sov­ét­ríkj­um Stalíns sem talið er að hafi kostnað 6-8 millj­ón­ir manna lífið).

Líkt og í öðrum ríkj­um komm­ún­ista er fjöldi sagna frá Póllandi um skort og biðraðir. Þannig voru a.m.k. fimm kíló­metr­ar á milli mat­vöru­búða til að biðraðir kæm­ust fyr­ir. Eitt sinn var Jaru­s­elski (síðasti leiðtogi alræðis­stjórn­ar komm­ún­ista í Póllandi) á ferð um Var­sjá í limmósínu þegar hann sér langa biðröð fyr­ir fram­an mat­vöru­búð. Hann skip­ar bíl­stjór­an­um að stoppa, skrúf­ar niður rúðuna og spyr hversu lengi fólkið hafi beðið í röðinni. „Sex klukku­tíma,“ er kallað til baka. „Það er hræðilegt,“ seg­ir komm­ún­ist­a­leiðtog­inn, „ég verð að gera eitt­hvað í þessu.“ Klukku­tíma síðar kem­ur stór vöru­bíll að búðinni með þrjú hundruð stóla fyr­ir fólkið.

Maður kem­ur inn í búð í Moskvu og spyr hvort ekki sé til nauta­kjöt. Af­greiðslumaður­inn hrist­ir haus­inn. „Nei, hér eig­um við eng­an fisk. Búðin sem á ekk­ert kjöt er hins veg­ar hér beint á móti.“

„Ég vil leggja inn pönt­un fyr­ir nýj­um bíl,“ seg­ir vongóður kaup­andi í Moskvu. „Hvað þarf ég að bíða lengi?“ „Tíu ár,“ seg­ir sölumaður­inn og bæt­ir við bros­andi, „upp á dag“. „Er það fyr­ir eða eft­ir há­degi?“ spyr kaup­and­inn. „Hvaða máli skipt­ir það,“ spyr sölumaður­inn. „Jú, ég á von á píp­ar­an­um fyr­ir há­degi.“

Í Aust­ur-Þýskalandi var hæðst að Walter Ul­bricht leiðtoga komm­ún­ista fyr­ir und­ir­lægju­hátt við Kreml. Á sól­rík­um degi gekk Ul­bricht út af skrif­stofu sinni og spennti upp regn­hlíf­ina á móti sól­inni. „Þú þarf ekki regn­hlíf núna, sól­in skín og veðrið ynd­is­legt,“ sagði aðstoðarmaður leiðtog­ans. „Auðvitað þarf ég regn­hlíf,“ svaraði Ul­bricht höst­ug­ur, „það rign­ir í Moskvu.“

Háð og póli­tísk­ar skil­grein­ing­ar

Óháð landa­mær­um hef­ur sa­tíra verið notuð við skil­grein­ing­ar á mis­mun­andi hug­mynda­fræði.

Sósí­al­ismi: Þú átt tvær kýr. Ríkið tek­ur aðra þeirra og gef­ur ná­granna þínum.

Komm­ún­ismi: Þú átt tvær kýr. Þú gef­ur báðar til rík­is­ins sem læt­ur þig fá dá­lítið af mjólk í staðinn.

Fasismi: Þú átt tvær kýr. Þú gef­ur báðar til rík­is­ins sem sel­ur þér síðan mjólk.

Kapí­tal­ismi: Þú átt tvær kýr. Þú sel­ur aðra en kaup­ir naut.

Þjóðern­is­sósí­al­ismi (nasismi): Þú átt tvær kýr. Ríkið tek­ur báðar og leiðir þig fyr­ir af­töku­sveit.

Þess­ar skil­grein­ing­ar eru frá stríðsár­un­um og eru lík­lega ættaðar frá Banda­ríkj­un­um. Síðar bætt­ist við sér­stök skil­grein­ing á Rússlandi: Þú átt tvær kýr. Þú færð þér vod­ka og tel­ur aft­ur!

Kapí­talisti, komm­ún­isti og sósí­alisti ákveða að hitt­ast á kaffi­húsi til að fara yfir þjóðmál­in. Þeir tveir fyrst­nefndu mæta á rétt­um tíma en sósí­alist­inn kem­ur klukku­tíma of seint. „Fyr­ir­gefið mér fé­lag­ar, hversu seint ég mæti,“ seg­ir sósí­alist­inn móður. „Ég þurfi að bíða í biðröð eft­ir pyls­um.“

„Hvað er biðröð?“ spyr kapí­talist­inn undr­andi. „Hvað er pylsa?“ spyr komm­ún­ist­inn.

Svo er það gamla kon­an sem sagðist ekki hafa áttað sig á því hversu kalt væri í veðri fyrr en hún sá sósí­al­ista með hend­ur í eig­in vös­um.

Skóla­dreng­ur skrifaði eft­ir­far­andi í viku­legri rit­gerð: „Kött­ur­inn minn eignaðist sjö kett­linga. Þeir eru all­ir komm­ún­ist­ar.“ Viku síðar skrifaði sá stutti í nýrri rit­gerð: „All­ir kett­ling­arn­ir eru orðnir kapí­tal­ist­ar.“ Þegar kenn­ar­inn las þessa staðhæf­ingu kallaði hann á dreng­inn og vildi fá að vita hvers vegna allt hefði breyst svo snögg­lega: „Í síðustu viku sagðir þú að all­ir kett­ling­arn­ir væru komm­ún­ist­ar, en í þess­ari viku eru þeir allt í einu orðnir kapí­tal­ist­ar?“ Dreng­ur­inn kinkaði kolli: „Það er rétt. Þeir opnuðu aug­un í þess­ari viku.“

Draumarík­in

Um 1950, þegar flest lönd heims­ins voru að jafna sig eft­ir hryll­ing seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar, var Venesúela meðal rík­ustu land­anna. Lands­fram­leiðsla á mann var sú fjórða mesta í heim­in­um. Árið 1982 var Venesúela enn auðug­asta land Suður-Am­er­íku. Eft­ir að sósí­al­ist­ar komust til valda 1998 hef­ur hallað und­an fæti og draumaríkið komið að hruni.

Gam­all maður kem­ur inn í mat­vöru­búð í Caracas, höfuðborg Venesúela. Eft­ir að hafa beðið þol­in­móður í biðröð tölu­verða stund komst hann að búðar­borðinu þar sem kaupmaður­inn stóð. „Ég þarf eina flösku af matarol­íu, eina fernu af mjólk og kaffipakka,“ seg­ir gamli maður­inn. Kaupmaður­inn hrist­ir dap­ur höfuðið og seg­ir af­sak­andi að því miður sé ekk­ert til af því sem beðið er um. Gamli maður­inn snýr von­svik­inn við og fer út úr búðinni. „Matarol­ía, mjólk, kaffi,“ seg­ir næsti viðskipa­vin­ur­inn hneykslaður. „Sá gamli er greini­lega ruglaður.“ Kaupmaður­inn horf­ir hugsi á þann hneykslaða en seg­ir síðan: „Já, kannski, en mikið hef­ur hann gott minni.“

Eng­lend­ing­ur og Frakki eru á lista­safni og standa fyr­ir fram­an mál­verk af Adam og Evu með epli í ald­ing­arðinum. Sá enski hef­ur orð á því að Adam deili epl­inu með Evu líkt og sé hátt­ur enskra. Frakk­inn bend­ir á hversu óþvinguð þau eru í nekt sinni líkt og þau séu frönsk. Flóttamaður frá Venesúela heyr­ir tal fé­lag­anna og seg­ir: „Fyr­ir­gefið að ég skuli trufla ykk­ur, ca­balleros, en Adam og Eva eru greini­lega bæði frá mínu ástkæra föður­landi. Þau eru án klæða, hafa lítið sem ekk­ert að borða og þeim er tal­in trú um að þau séu í Para­dís.“

Leiðtogi ann­ars draumarík­is vest­rænna sósí­al­ista, Fídel Kast­ró, fór beint að Gullna hliðinu eft­ir dauðann og smeygði sér inn. Lykla-Pét­ur var hins veg­ar á vakt­inni og henti hon­um út. Kast­ró fór þá til hel­vít­is þar sem skratt­inn tók hon­um opn­um örm­um. Þegar komm­ún­ist­a­leiðtog­inn hafði orð á því að hann hefði gleymt far­angr­in­um í himna­ríki sagðist skratt­inn redda því. Tveir púk­ar myndu ná í far­ang­ur­inn. Púk­arn­ir leggja strax af stað en þegar þeir koma að Gullna hliðinu er það harðlæst. Þeir ákveða því að klifra yfir hliðið. Tveir engl­ar horfa á púk­ana kom­ast yfir hliðið og ann­ar þeirra seg­ir: „Ja hérna, Kast­ró er ekki bú­inn að vera fimm mín­út­ur í hel­víti og við erum þegar byrjaðir að fá flótta­menn.“

Morgunblaðið, 21. júlí. 2021