Framtíðarsamningur við Breta undirritaður

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Fimm árum eft­ir Bret­ar samþykktu í þjóðar­at­kvæðagreiðslu að segja sig úr Evr­ópu­sam­band­inu og þar með frá samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið ligg­ur fyr­ir fríversl­un­ar­samn­ing­ur við þetta mik­il­væg­asta viðskipta­land okk­ar í Evr­ópu. Þessi sögu­legi samn­ing­ur verður und­ir­ritaður í dag í Lund­ún­um og ég er sann­færður um að með hon­um hafi efna­hags- og vina­tengsl Íslands og Bret­lands verið styrkt um ókomna tíð.

Kjarna­hags­mun­ir í höfn

Nýr fríversl­un­ar­samn­ing­ur við Bret­land hef­ur verið for­gangs­mál í ráðherratíð minni og mun skipta sköp­um fyr­ir bæði ís­lensk fyr­ir­tæki og neyt­end­ur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsam­band við Bret­land eft­ir út­göng­una. Strax árið 2017 gáf­um við í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu út skýrsl­una Ísland og Brex­it – Grein­ing hags­muna vegna út­göngu Bret­lands úr EES. Þar lögðum við mat á áhrif þess að ákvæði EES-samn­ings­ins giltu ekki leng­ur í sam­skipt­um við Bret­land og þar með grunn að þeirri um­fangs­mik­ilu vinnu sem fór í hönd við að skil­greina enn frem­ur mark­mið Íslands í framtíðarviðræðum við Bret­land í ná­inni sam­vinnu inn­an stjórn­kerf­is­ins, svo og við at­vinnu­lífið og hags­muna­sam­tök.

Þegar Bret­land gekk svo úr ESB, og þar með EES-samn­ingn­um, 31. janú­ar 2020 tók við aðlög­un­ar­tíma­bil næstu tólf mánuði. Á þeim tíma gekk Ísland fyrst ríkja frá bráðabirgðafr­íversl­un­ar­samn­ingi við Bret­land og loft­ferðasamn­ingi sem tryggði áfram­hald­andi flug­sam­göng­ur á milli ríkj­anna. Auk þess höfðu rétt­indi borg­ar­anna til áfram­hald­andi bú­setu verið tryggð með samn­ingi árið áður. Ekki má gleyma sam­komu­lagi um sam­starf ríkj­anna til næstu tíu ára sem und­ir­ritað var í maí 2020 sem öll stefnu­mörk­un hef­ur síðan byggst á, en Ísland er hið eina EFTA-ríkj­anna sem gerði slík­an sam­starfs­samn­ing við Bret­land. Á grund­velli þess var svo gert sam­komu­lag um framtíðarsam­starf í sjáv­ar­út­vegs­mál­um. Útgang­an gekk þannig snurðulaust fyr­ir sig þegar aðlög­un­ar­tíma­bil­inu lauk, enda kjarna­hags­mun­ir í höfn.

Metnaðarfull­ur samn­ing­ur á mettíma

Fyr­ir rétt rúm­um mánuði náðist svo sam­komu­lag um nýj­an fríversl­un­ar­samn­ing til framtíðar á milli Bret­lands og EFTA-ríkj­anna í EES: Íslands, Nor­egs og Liechten­stein, en form­leg­ar viðræður hóf­ust í sept­em­ber í fyrra. Að ná að gera svo um­fangs­mik­inn samn­ing á inn­an við ári er af­rek í sjálfu sér og það ekki síst í ljósi þess að heims­far­ald­ur hef­ur geisað all­an þann tíma. Samn­ing­ur­inn er afar um­fangs­mik­ill í sam­an­b­urði við aðra fríversl­un­ar­samn­inga Íslands þrátt fyr­ir að hafa verið gerður á miklu skemmri tíma.

Samn­ing­ur­inn veit­ir gagn­kvæm­an aðgang að mörkuðum þegar kem­ur að vöru­viðskipt­um, þjón­ustu­viðskipt­um og op­in­ber­um inn­kaup­um. Fyr­ir vöru­viðskipti eru kjarna­hags­mun­ir Íslands tryggðir fyr­ir út­flutn­ing, þar með talið fyr­ir sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­vör­ur. Samn­ing­ur­inn auðveld­ar jafn­framt þjón­ustu­viðskipti milli ríkj­anna auk þess sem ís­lensk fyr­ir­tæki munu hafa aðgang að op­in­ber­um útboðum í Bretlandi.

Samn­ing­ur­inn inni­held­ur einnig metnaðarfull­ar skuld­bind­ing­ar á sviði um­hverf­is­vernd­ar og bar­áttu gegn hlýn­un jarðar auk skuld­bind­inga á sviði vinnu­rétt­ar. Þar er jafn­framt að finna sér­stak­an kafla um jafn­rétt­is­mál og vald­efl­ingu kvenna í viðskipt­um. Er þetta í fyrsta skipti sem slík ákvæði er að finna í fríversl­un­ar­samn­ingi sem Ísland ger­ir. Þá er að finna í samn­ingn­um ákvæði á sviði hug­verka­rétt­inda, heil­brigðis­reglna fyr­ir mat­væli, tækni­legra reglu­gerða rík­is­styrkja, sam­keppn­is­mála starfs­um­hverf­is lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja, góðrar reglu­setn­ing­ar og sam­starfs á því sviði og margt fleira.

Gróska í sam­starfi ríkj­anna

Til viðbót­ar við fríversl­un­ar­samn­ing­inn stefn­um við að því að und­ir­rita tvo samn­inga á næst­unni. Ann­ar þeirra fjall­ar um vinnudvöl ungs fólks sem á til dæm­is eft­ir að gagn­ast ís­lensk­um ung­menn­um á aldr­in­um 18 til 30 ára sem vilja búa og starfa í Bretlandi. Hinn samn­ing­ur­inn varðar sam­starf á sviði mennt­un­ar, rann­sókna og ný­sköp­un­ar og geim­vís­inda.

Sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur á und­an­förn­um miss­er­um við að tryggja áfram hags­muni okk­ar gagn­vart Bretlandi, okk­ar mik­il­væg­asta út­flutn­ings­markaði í Evr­ópu, sýn­ir glöggt hve grósku­mikið sam­starf ríkj­anna er. Nýi fríversl­un­ar­samn­ing­ur­inn gef­ur afar góð fyr­ir­heit um bjarta tíma í sam­skipt­um Íslands og Bret­lands.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. júlí 2021.