Blikur á lofti lýðræðis

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra:

Ógnir sem steðja að lýðræðinu hafa í auknum mæli orðið umfjöllunarefni í samstarfi þeirra ríkja sem við eigum mest sameiginlegt með „Engum dettur í hug að lýðræði sé fullkomið, raunar er það versta stjórnarfar, sem hugsast getur, fyrir utan allt annað,“ sagði Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands árið 1947 en sú greining gæti átt allt eins við í dag.

Frá lokum nýlendutímans og fram undir síðustu aldamót varð samfelld en hægfara lýðræðisþróun í Afríku og víðar um heim. Stóra stökkið kom svo við hrun járntjaldsins. Þetta var mikið framfaraskeið sem best sést á því að frá 1960 til aldamóta lengdist meðalævi fólks í heiminum úr rúmum 50 árum í meira en 70 ár. Aðrir mælikvarðar á lífskjör og almennar framfarir vitna jafnframt um um að flest hafi þokast í rétta átt.

Þess vegna er það mikið áhyggjuefni að lýðræði sé víða á fallanda fæti. Af hverjum fimm krónum sem varið var til þróunarsamvinnu fyrir tveimur árum runnu fjórar til ríkja sem ekki rísa undir því að kallast lýðræðisríki. Ári fyrr var hlutfallið 63 prósent. Til að bæta gráu ofan á svart freista sum framlagaríki þess að seilast til áhrifa í veikburða ríkjum með innihaldslitlum loforðum um skjótfengnar framfarir án stjórnarfarsumbóta.

Við megum hins vegar ekki láta hugfallast heldur verðum við þvert á móti að afla gildum okkar fylgis. Víða um heim berst fólk fyrir lýðræði og mannréttindum sem við teljum sjálfsögð. Ein þeirra Svetlana Tikhanovskaya, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Belarús, heimsækir Ísland í vikunni en Ísland hefur líkt og önnur líkt þenkjandi ríki gagnrýnt harðlega meingallaðar forsetakosningar þar í fyrra og framgöngu stjórnvalda gegn þeim sem knýja á um sjálfsagðar umbætur.

Alþjóðasamvinna og alþjóðaviðskipti á grunni sjálfbærni verða áfram undirstaða efnahagslegra og félagslegra framfara en raunveruleg framþróun mannréttinda getur aldrei orðið undir kaldri hönd einræðis. Lýðræðið er þrátt fyrir allt það skásta sem við höfum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. júlí 2021