Sameiginleg gildi – sömu öryggishagsmunir

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra:

Samstaða vest­rænna ríkja og mik­il­vægi þess að standa vörð um alþjóðakerfið sem bygg­ir á alþjóðalög­um er í brenni­depli um þess­ar mund­ir. Gild­in sem binda rík­in sam­an eru ein­stak­lings­frelsið, mann­rétt­ind­in, lýðræðið og rétt­ar­ríkið. Þetta á sann­ar­lega við á vett­vangi ör­ygg­is- og varn­ar­mála og sam­starfs sem Ísland tek­ur þátt í. Þetta var eitt meg­in­stefið á leiðtoga­fundi Atlants­hafs­banda­lags­ins sem fram fór um miðjan júní­mánuð og á fund­um sem ég sótti í Finn­landi í vik­unni á vett­vangi nor­ræna varn­ar­sam­starfs­ins (NOR­D­EFCO) og sam­eig­in­legu viðbragðssveit­ar­inn­ar (JEF).

Nor­ræn samstaða

Hvort sem litið er til sam­eig­in­legra gilda eða þjóðfé­lags­gerðar standa nor­rænu rík­in okk­ur Íslend­ing­um ávallt næst. Þetta á líka við um ör­ygg­is- og varn­ar­mál­in. Þótt þrjú þeirra séu aðilar að Atlants­hafs­banda­lag­inu og tvö standi þar fyr­ir utan eiga þau það sam­merkt að skil­greina ógn­ir úr ör­ygg­is­um­hverf­inu á svipaðan hátt. Sam­eig­in­leg sýn ríkj­anna þýðir að þau standa sam­an og þétta raðirn­ar þegar á þarf að halda og sú hef­ur sann­ar­lega verið raun­in. Hernaðar­upp­bygg­ing Rúss­lands og óút­reikn­an­leg fram­ganga þarlendra stjórn­valda er veru­leiki sem við blas­ir. Hvernig bregðast eigi við þeirri þróun hef­ur verið meg­in­um­fjöll­un­ar­efni í sam­starfi líkt þenkj­andi ríkja á und­an­förn­um árum.

Örygg­is­mál í nærum­hverf­inu voru of­ar­lega á baugi á fundi NOR­D­EFCO í finnska bæn­um Tu­usula í vik­unni. Þar gafst tæki­færi á að skerpa á sam­eig­in­legri sýn ríkj­anna á helstu áskor­an­ir sem rík­in standa frammi fyr­ir. Frá því þessi vett­vang­ur var sett­ur á fót árið 2009 hef­ur hann vaxið og sannað gildi sitt. Sam­starf ríkj­anna hef­ur verið aukið, til að mynda með samn­or­rænni flug­her­sæfingu á norður­slóðum með þátt­töku Banda­ríkj­anna og fleiri af okk­ar nán­ustu vina­ríkj­um. Samn­or­ræn sýn, gildi og samstaða eru í for­grunni sam­starfs­ins sem við Íslend­ing­ar tök­um þátt í á borg­ara­leg­um for­send­um.

Nýr veru­leiki fjölþátta­ógna

Óhefðbundn­ar ógn­ir, sem kall­ast einu nafni fjölþátta­ógn­ir, eru hin hlið þess veru­leika sem við blas­ir í ör­ygg­is­um­hverf­inu. Fjölþátta­ógn­ir bein­ast gegn sam­eig­in­leg­um gild­um okk­ar og geta grafið und­an alþjóðakerf­inu sem bygg­ir á alþjóðalög­um. Slík­ar ógn­ir hafa áhrif þvert á landa­mæri, þvert á hið hernaðarlega og borg­ara­lega, og varða okk­ur Íslend­inga jafnt og aðra. Skýr og ein­dreg­in samstaða ríkj­anna sem að alþjóðakerf­inu standa þarf að vera fyr­ir hendi. Ég hef því lagt mig fram um að koma þess­um mik­il­væga mála­flokki á dag­skrá hér á landi og efla þátt­töku okk­ar í fjölþjóðasam­starfi, meðal ann­ars með um­sókn um aðild að evr­ópsku önd­veg­is­setri um fjölþátta­ógn­ir í Hels­inki, og að önd­veg­is­setri Atlants­hafs­banda­lags­ins um netör­ygg­is­mál í Tall­inn.

Á vor­mánuðum gerðist Ísland svo aðili að sam­eig­in­legu viðbragðssveit­inni (JEF), sam­starfs­vett­vangi Norður­landa, Eystra­salts­ríkj­anna, Hol­lands og Bret­lands um ör­ygg­is- og varn­ar­mál. Sam­vinna líkt þenkj­andi ríkja gagn­vart sam­eig­in­leg­um áskor­un­um er leiðarljós í störf­um sveit­ar­inn­ar, ríkja sem eiga hags­muna að gæta á Norður-Atlants­hafi, á Eystra­salti og á norður­slóðum, ríkja sem hvert um sig hafa verið að efla varn­ar­viðbúnað og styrkja sam­starf sín á milli.

Viðfangs­efni sam­eig­in­legu viðbragðssveit­ar­inn­ar, sem Bret­land leiðir, end­ur­spegla þær hrær­ing­ar sem ein­kenna um­hverfi okk­ar, sam­spil fjölþátta­ógna og hefðbund­inna ógna. Stefnu­mörk­un sam­starfs­ins sem und­ir­rituð var á fund­in­um í Hels­inki í vik­unni dreg­ur fram þá sýn og þá staðreynd að áskor­un­um af þessu tagi verði aðeins mætt í sam­starfi líkt þenkj­andi ríkja. Mark­miðið með störf­um sveit­ar­inn­ar er að geta sniðið viðbrögð að aðstæðum hverju sinni. Það er meg­in­styrk­leiki sam­starfs­ins og ger­ir það að raun­veru­legri viðbót við annað fjölþjóðasam­starf sem þegar er fyr­ir hendi.

Lagt á vog­ar­skál­ar

Í því marg­slungna ör­ygg­is­um­hverfi sem við búum nú í hef­ur fjölþjóðasam­starf um ör­ygg­is- og varn­ar­mál aldrei verið mik­il­væg­ara. Alþjóðakerfið sem bygg­ir á alþjóðalög­um, trausti á stofn­un­um og lýðræðis­leg­um ferl­um, stend­ur og fell­ur með því hvernig við bregðumst við aðsteðjandi ógn­um. Sem herlaus þjóð sem bygg­ir ör­yggi sitt og varn­ir á aðild að Atlants­hafs­banda­lag­inu, sam­starfi við Banda­rík­in og á fjölþjóðasam­starfi, verðum við Íslend­ing­ar að halda áfram að leggja okk­ar lóð á vog­ar­skál­arn­ar í þeim efn­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2021.