Gunnar Birgisson, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri, var jarðsunginn í dag. Hér að neðan má finna minningargrein Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um Gunnar sem birtist í Morgunblaðinu 24. júní 2021:
Gunnar Birgisson, verkfræðingur, bæjarstjóri og alþingismaður, var stór maður í öllum skilningi þess orðs. Hann var stórbrotinn karakter, stundum stórkarlalegur, hann gat haft sína fyrirferð og allir vissu hvar þeir höfðu hann. Að öðrum ólöstuðum er hann einhver duglegasti maður, sem ég hef kynnst; hann hafði unun af að vinna og féll helst aldrei verk úr hendi.
Gunnar hafði átt óvenjulega, jafnvel erfiða, æsku í fjölþættu fjölskyldumynstri, eins og það væri orðað nú. Því betur kunni hann að meta fjölskylduböndin sem hann knýtti með Vigdísi Karlsdóttur, eiginkonu sinni. Hann var skarpgáfaður, varð verkfræðingur og doktor í jarðvegsfræðum fullorðinn maður, sem nýttist honum mikið í stjórnmálastörfum hans.
Gunnar vakti þjóðarathygli sem lykilmaður í bæjarstjórn Kópavogs, þar sem hann myndaði meirihluta okkar sjálfstæðismanna með framsóknarmanninum Sigurði heitnum Geirdal bæjarstjóra, en þó þeir væru afar ólíkir menn, þá náðu þeir ákaflega vel saman bæjarfélaginu til mikilla heilla. Sjálfur varð Gunnar bæjarstjóri árið 2005. Það mikla framfaraskeið bæjarins sést best á því að íbúafjöldi Kópavogs nær tvöfaldaðist á þeim tíma og þar átti Gunnar drýgstan hlut. Það er gott að búa í Kópavogi, sagði Gunnar og menn vissu að hann gat trútt um talað.
Hann var kjörinn á Alþingi 1999 og var ötull þingmaður kjördæmisins. Seint líður mér úr minni sem ungum framjóðanda að hafa tekið þátt í kosningabaráttu með Gunnari árið 2003. Við gengum saman hús úr húsi í Smiðju- og Skemmuhverfinu í Kópavogi og tókum spjall við atvinnurekendur í ótrúlega fjölbreyttum rekstri. Þar var Gunnar sannarlega á heimavelli í fleiri en einum skilningi og okkur hvarvetna vel tekið. Hann gat verið allra manna skemmtilegastur, góður sögumaður og glöggur á fólk. Og undir hrjúfu yfirborðinu bærðist mýkri lund en margir vissu.
Þess háttar samskipti, maður á mann, innan um vélar og verkfæri voru styrkleiki Gunnars og þangað sótti hann styrk og tilgang. Af þeim samskiptum dró ég mikinn lærdóm sem hefur fylgt mér æ síðan.
Fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins færi ég fjölskyldu Gunnars okkar innilegustu samúðarkveðjur, en um leið minnumst við og þökkum fyrir hans farsælu störf í þágu sjálfstæðisstefnunnar, Kópavogsbúa, lands og þjóðar. Guð blessi minningu hans.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.