Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:
Á dögunum fullyrti forstjóri innlendrar verslunarkeðju, með 20% markaðshlutdeild á matvörumarkaði, mikil tækifæri fólgin í samspili hverfisverslunar og netsölu með matvörur. Viðskiptavinir muni til framtíðar sjá hag sinn í heimsendri þurrvöru og þyngri vöru. Ferskvöru vilji fólk heldur sækja í hverfisverslun eftir þörfum. Nú væri einstakt tækifæri að sækja fram á þessum markaði – færa þjónustuna inn í hverfin.
Áform forstjórans kallast vel á við hugmyndir um 15 mínútna borgarhverfi – hugmyndir sem hafa rutt sér til rúms víða í erlendum borgum. Innan 15 mínútna hverfa má nálgast helstu verslun og þjónustu í innan við korters göngufjarlægð. Forsendur slíkra hverfa eru gjarnan þétt og blönduð byggð hvar íbúðarhúsnæði, vinnustaðir og þjónusta eru í nálægð hvert við annað. Aukin fjarvinna, sem vafalaust verður varanleg afleiðing heimsfaraldurs, mun skapa enn frekari forsendur fyrir fjölbreytta hverfisþjónustu – enda munu starfsmenn verja fleiri vinnudögum innan hverfa.
Borgarskipulag hefur órjúfanleg áhrif á lífsgæði. Það er samofið lýðheilsu og fjölbreyttum félagslegum þáttum. Með 15 mínútna hverfum má stytta ferðatíma og bæta lýðheilsu – gera fleirum kleift að sinna erindum gangandi eða hjólandi. Með lifandi nærþjónustu má ýta undir samskipti ólíkra þjóðfélagshópa – draga úr einsemd og félagslegri einangrun – skapa lifandi umhverfi þar sem fólk mætist og þekkist.
Reykjavík þarf að endurskipuleggja á forsendum hverfanna – á grundvelli sérstöðu þeirra og styrkleika. Víða um borg standa lúnir hverfiskjarnar sem margir muna fífil sinn fegurri. Með samstilltu átaki og réttum skipulagsáherslum má glæða hverfiskjarna fyrra lífi – efla nærþjónustu hverfanna og einfalda hversdag borgarbúa. Skapa aukið mannlíf í lifandi borgarhverfum hvar hversdagslegar nauðsynjar finnast í korters kallfæri – á fimmtán mínútum.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 25. maí 2021.