Flugmál og flugreglur

Vilhjálmur Bjarnason skrifar:

Það er fróðlegt að fylgjast með vefsíðum fróðleiksmanna í flugmálum. Vissulega er efnið á vefsíðum um fróðleiksmola lítt skipulegt. Ef fróðleiksmolar um flugmál væru flugvélar, þá hefði örugglega oft orðið árekstur í lofti. Það segir alls ekki að fróðleiksmolarnir séu leiðinlegir, síður en svo. Fróðleiksmolar eru skemmtileg upprifjun um atburði sem margir hafa upplifað. Eins og hjá ForrestGump; „ég var þar“.

Flug á Íslandi

Fyrst var flogið á Íslandi árið 1919. Sennilega eru um 25 Íslendingar enn á lífi frá því fyrst var flogið hinn 3. september 1919. Þau muna ekkert eftir fyrsta fluginu. Tengdamóðir mín er tveimur dögum yngri en fyrsta flug á Íslandi!

Fyrsta Flugfélag Íslands var stofnað í mars 1919.

Fyrst var flogið til Íslands 2. ágúst 1924. Fyrsti „alþjóðaflugvöllurinn“ var á Hornafirði. Ekki er víst að nokkurn mann á Hornafirði hafi grunað að flogið yrði 100 sinnum á dag til og frá landinu 100 árum síðar.

15 árum eftir fyrsta flug til Íslands segir í dagblaðinu Vísi: „Menn gerðu sér þá vonir um að þess mundi skamt (sic) að bíða að reglubundnar flugferðir myndu komast, milli Ameríku og Evrópu, um Ísland, en þær vonir hafa ekki ræst.“

Þetta reglubundna flug um Ísland hófst árið 1953 með flugi um Ísland frá Lúxemborg til New York, en óreglubundið flug hófst fljótlega eftir stríð.

Það er eftirtektarvert að lesa Vísi frá 1939 um væntingar í samgöngum. Vissulega rættust væntingar, þótt bið yrði.

Þess er getið í þessari grein í Vísi, að reglubundið póstflug yfir Atlantshaf hafi verið stundað á árinu 1939.

Alþjóðleg regluvæðing við lok síðari heimsstyrjaldarinnar

Það er fróðlegt að horfa til þátttöku Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni. Með herverndarsamningi við Ísland og með árás Japana á Perluhöfn á Havaí var Bandaríkjunum ekki lengur til setunnar boðið með „hlutleysi“. Bandaríkin tóku fullan þátt í styrjöldinni á tvennum vígstöðvum; í Evrópu og á Kyrrahafssvæðinu.

En þátttakan til að láta kné fylgja varð ekki niðurstaðan. Stjórnvöld í Bandaríkjunum voru tilbúin með margháttaða samninga og alþjóðastofnanir til samvinnu milli þjóða til að tryggja frið.

Aðild að sáttmálum og stofnunum var frjáls fyrir allar þjóðir. Þó var það skilyrði sett til þátttöku í stofnun Sameinuðu þjóðanna, að stofnþjóðir lýstu yfir stríði á hendur öxulveldunum, Þýskalandi, Ítalíu og Japan.

Skilyrðum sem Ísland setti fyrir þátttöku sinni, sem vopnlaus þjóð, var synjað að sinni. Ísland gerðist þó aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1946, enda aðstæður aðrar.

Alþjóðaflugmálastofnunin

Þegar Bandaríkin létu af einangrunarstefnu sinni hófu stjórnvöld þar í landi að regluvæða heimsbyggðina. Þannig urðu til Matvæla- og landbúnaðarstofnunin (FAO), Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO), Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Alþjóðabankinn til endurreisnar og uppbyggingar meðal þeirra stofnana sem fylgdu stofnun Sameinuðu þjóðanna, auk Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.

Þátttaka Íslands á alþjóðaflugmálaráðstefnunni í Chicago í nóvember og desember 1944 er um margt merkileg. Ekki síst fyrir þær sakir að flugmál skiptu litlu máli á Íslandi, en væntingar voru miklar. Nægir þar að nefna skrif í Vísi mánuði fyrir upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar.

Það sem er merkilegt við þátttökuna á ráðstefnunni er meðal annars það að flug á Íslandi skipti ekki máli. Í gildi voru um 25 flugskírteini. Tvö flugfélög voru starfandi og áttu þau í miklu basli. Frumkvöðlarnir í íslenskum flugmálum voru allt frá því að vera baldnir strákar yfir í að vera málfræðiprófessorar.

Tilgáta mín um þátttökuna er ekki sú að draumarugl og framsýni, eða mikilvægi flugs, í íslensku samfélagi hafi ráðið.

Tilgáta mín er sú að Íslandi bauðst að sitja til borðs með stórþjóðum að ræða alvarlegt málefni. Vissulega höfðu lög um loftferðir verið samþykkt á Alþingi 1929. Það að vera þjóð meðal þjóða var viðurkenning annarra þjóða á lýðveldisstofnun fyrr á þessu sama ári, 1944.

Nýsköpun og stílbrot

Hafi þátttakan á ráðstefnunni verið framsýni, þá var það stílbrot á þeirri nýsköpun sem þáverandi ríkisstjórn var kennd við, en nýsköpun hennar var að endurtaka fortíðina. Sú nýsköpun varð engin endurlausn sálarinnar.

Réttarheimildir flugréttarins eru einkum sóttar í fjölþjóðlega sáttmála; tvíhliða samninga; landsrétt; samninga milli ríkja og flugfélaga; samninga milli flugfélaga og grundvallarreglur í alþjóðarétti. Frumheimild flugréttarins er að finna í „Samþykkt um alþjóðaflugmál frá 1944“ (ICAO Convention), en hún var undirrituð af Íslands hálfu 7. desember 1944. Samþykktin var fullgilt af Íslandi á Alþingi 21. mars 1947 og gekk í gildi hvað Ísland varðaði 20. apríl 1947.

Reglur, öryggiskröfur og staðlar í flugmálum

Ýmsir halda því fram að þátttaka þjóða í alþjóðasamstarfi sé afsal á fullveldisrétti. Það er ekki afsal í þeim skilningi að þátttakan er frjáls og valkvæð.

Alþjóðaflugmálastofnunin hefur samþykkt og gefið út 18 viðauka, sem margir hafa verið þýddir á íslensku, og innihald þeirra hefur lagagildi hér á landi annaðhvort með orðréttri þýðingu eða efni þeirra er fólgið í lögum eða reglum um flugmál, enda er það skylda aðildarríkja ICAO að gera staðla að lögum í sínu heimalandi eða láta ella skrá sérstöðu í bókum ICAO.

Ekki hefur náðst að þýða og lögtaka allar breytingar á viðaukum, en alþjóðaflug kann að verða erfitt ef ekki er fylgt alþjóðlegum flugreglum.

Eins og fyrr segir eru fjölþjóðlegir samningar meginréttarheimildir flugréttarins. Þeir munu nú vera um 50 talsins og er Ísland aðili að um 15 fjölþjóðlegum samningum er varða flugmál.

Þá er rétt að geta GATS (General Agreement on Trade in Services) er undirritaður var í Marrakesh 15. apríl 1994 en í honum er fjallað um viðskiptafrelsi m.a. í alþjóðaflugi.

Að auki hefur Ísland gert mjög marga tvíhliða samninga um loftferðir við aðrar þjóðir, þar sem fjallað er um lendingarétt og yfirflug.

Án fullveldis og atkvæðisréttar

Ísland er með aðild, án atkvæðisréttar, að Evrópsku flugöryggisstofnuninni (European Union Aviation Safety Agency, EASA). Atkvæðisréttur skiptir litlu máli þar sem atkvæðagreiðslur eru fátíðar.

Þessi þátttaka hefur skipt höfuðmáli varðandi tegundaviðurkenningar í alvarlegu borgaralegu flugi. Þannig er það EASA sem heimilar flug Boeing 737 MAX og AIRBUS 321XLR í aðildarlöndum.

Á sama hátt má segja að fullveldisafsal felist í þátttöku Íslands í Evrópsku lyfjastofnuninni, sem gefur út markaðsleyfi fyrir lyf og bóluefni í Evrópu.

Mikilvægi flugs

Flug og flugþjónusta skiptir verulegu máli í íslensku efnahagslífi. Sennilega er flug og flugþjónusta um 4-5% af landsframleiðslu. Hlutur Icelandair eins er um 3,5% af landsframleiðslu í góðu ári.

Stoltið að vera þjóð meðal þjóða árið 1944 varð að framsýni í samfélagi nútímans.

Höfundur var alþingismaður og verður það aftur, flugskírteini 1354.