Ljósið við enda ganganna

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Straumhvörf hafa orðið á Íslandi í baráttunni gegn Covid. Þegar þetta er skrifað hafa um 38% þeirra sem til stendur að bólusetja fengið að minnsta kosti fyrri sprautuna af bóluefni, eða um 109 þúsund manns.

Í fréttum og á samfélagsmiðlum deilir fólk með okkur almennt jákvæðri upplifun sinni og raunar hrifningu af framkvæmd bólusetninga, að ekki sé minnst á léttinn yfir því að hafa fengið þessa vörn.

Á sama tíma og þessi jákvæða þróun er á fleygiferð fékk þjóðin annað og náskylt tilefni til aukinnar bjartsýni síðastliðinn þriðjudag, þegar afléttingaráætlun stjórnvalda um sóttvarnaráðstafanir var kynnt. Í henni kemur fram að ráðgert er að aflétta öllum takmörkunum innanlands síðari hluta júní. Að sjálfsögðu með almennum fyrirvara um stöðu mála.

Næsta skref felst í því að fjöldatakmörk verði rýmkuð þannig að þau verði einhvers staðar á bilinu 20-200 manns og rýmri undanþágur verði veittar frá bæði nálægðarreglu og fjöldatakmörkunum fyrir tiltekna starfsemi. Þetta skref miðast við að 35% hafi fengið að minnsta kosti fyrri sprautu af bóluefni, en eins og áður segir hefur því marki nú þegar verið náð.

Síðasti efnahagspakkinn?
Í gær, föstudag, kynnti svo ríkisstjórnin frekari efnahagsleg úrræði til stuðnings einstaklingum og fyrirtækjum. Sem dæmi um úrræði sem beinast að fyrirtækjum má nefna:

Viðspyrnustyrkir framlengdir út nóvember og rýmri viðmið tekin upp um tekjufall.

Lokunarstyrkir framlengdir út þetta ár og fjárhæð hækkuð.

Uppgjör á frestaðri staðgreiðslu og tryggingagjaldi auðveldað með möguleika á fjögurra ára greiðsludreifingu.

Lánveitendum heimilað að fresta endurgreiðslu stuðningslána um eitt ár til viðbótar við núverandi heimildir.

Styrkur til endurráðningar starfsfólks á hlutabótum í fyrra starfshlutfall.

Einnig var tilkynnt um nýja ferðagjöf, „Ferðagjöf II“, sem gildir út sumarið og verður með sama sniði og ferðagjöfin í fyrra. Nú hafa 169 þúsund nýtt fyrri ferðagjöfina. Aðrir hafa út maímánuð til að nýta hana, en nýja ferðagjöfin gildir síðan út sumarið eins og áður segir.

Þá miðar frumvarp mitt um nýjan ferðatryggingasjóð að grundvallarbreytingu á því hvernig fyrirtæki eru tryggð og réttur neytenda varinn, í formi nýs samtryggingasjóðs til hagsbóta fyrir báða aðila. Núgildandi kerfi felur í sér óþarflega miklar byrðar og ógnaði tilvist sumra fyrirtækja þegar ferðalög lögðust svo til af. Við því var brugðist með tímabundnu úrræði, Ferðaábyrgðasjóði, og í lok janúar ákvað ég að fresta fyrsta gjalddaga lána úr þeim sjóði frá 1. mars til 1. desember til að koma til móts við fyrirtækin í ljósi þess hvernig faraldurinn hafði þróast, og um leið verja hagsmuni ríkissjóðs.

Viðspyrnan
Aukin bjartsýni einkennir landsmenn almennt vegna góðs árangurs við bólusetningar og áætlunarinnar um afléttingu sóttvarnaráðstafana í sumar. En bjartsýni fer einnig vaxandi innan ferðaþjónustunnar.

Ágætur ferðavilji er til Íslands á okkar helstu markaðssvæðum, ekki síst í Bandaríkjunum og Bretlandi, og vonir okkar standa til þess að geta tekið á móti fleiri bólusettum gestum. Umfjöllun um eldgosið við Fagradalsfjall og ekki síður hin frábæra herferð Húsvíkinga í tengslum við Óskarsverðlaunin hafa glætt áhuga á Íslandi enn frekar. Flugferðum mun fjölga á næstu vikum og nýtt íslenskt flugfélag meðal annars fara í loftið.

Of snemmt er að segja til um hversu öflug viðspyrnan verður í sumar en ekki er fráleitt að forsendur ríkisfjármála um fjölda ferðamanna á árinu gætu náðst. Það er mikilvægt, enda gríðarlegt tjón fyrir landið allt að hafa stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnuveg okkar í lamasessi.

Eitt af því sem huga þarf að þegar gestum fjölgar er að öll sú framkvæmd verði ekki bara örugg heldur líka skilvirk þannig að upplifun bæði Íslendinga sjálfra og gesta okkar verði góð.

Verum stór
Við Íslendingar getum með réttu verið stolt af því hvernig við höfum tekist á við faraldurinn. Óhjákvæmilega hefur hann komið illa við marga en samanburður við önnur lönd talar sínu máli um hve vel hefur tekist að halda þeim skaða í lágmarki.

Og ekki væru minnst verðmæti í því fyrir íslenska þjóð að komast þessa leið á enda án þess að til klofnings komi á milli hópa í samfélaginu á grundvelli ásakana eða jafnvel fordóma. Vissulega hefur aðeins örlað á því en von mín er að við reynumst nógu stór til að stöðva slíkt í fæðingu.