Frumkvöðullinn í barninu

Menntakerfið þarf að undirbúa börn undir þær áskoranir og þau tækifæri sem fylgja munu fjórðu iðnbyltingunni. Mikilvægt er að skilja eðli og umfang þeirra tækniframfara sem orðið hafa síðustu áratugi, og þeirra fyrirsjáanlegu breytinga sem framtíðin ber í skauti sér. Heimurinn er á hreyfingu og framsækin samfélög verða að fylgja með.

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að ráðast í lítt skilgreinda 10 milljarða fjárfestingu í stafrænni þróun á þjónustu borgarinnar. Mikilvægt er að skólastarf fari ekki varhluta af stafrænu umbreytingunni og því eðlilegt að hluta fjármagnsins verði ráðstafað til snjallvæðingar grunnskólastarfs.

Á fundi borgarstjórnar í gærdag flutti undirrituð tillögu Sjálfstæðisflokks um snjallvæðingu skólastarfs í Reykjavík. Hluti tillögunnar miðaði að aukinni nýsköpun og frumkvöðlastarfi í grunnskólum borgarinnar. Þannig yrði fjárfest í uppsetningu Fab Lab sköpunarsmiðja í sérhverju borgarhverfi til samnýtingar fyrir grunnskóla og almenning innan hverfa.

Fab Lab eru smiðjur með fjölbreyttum tækjum og tólum til að skapa nánast hvað sem er. Þær gefa fólki tækifæri til að virkja sköpunargáfuna og koma hugmyndum sínum í framkvæmd. Smiðjurnar eru gróskumikill suðupottur hugmynda og frumkvæðis. Þær sameina færni í raungreinum, verkgreinum, tækni og sköpun – og efla mikilvæga færniþætti framtíðar.

Það er miður frá því að segja að tillagan hlaut ekki brautargengi. Taldi meirihluti borgarstjórnar eigin áform um stafræna ferla fyrir starfsfólk, viðmót fyrir foreldra og aukna yfirbyggingu, fela í sér nægilega snjallvæðingu í skólastarfi. Áform um snjallvæðingu fyrir börn virtust óskilgreind og metnaðarlaus.

Stafræna vegferðin verður fyrst og síðast að ná inn í skólana svo stuðla megi að aukinni tæknifærni bæði nemenda og kennara. Grunnskólakerfið verður að bjóða réttu aðstöðuna og verkfærin fyrir nemendur að afla þekkingar í raunvísindum, tækni og sköpun – svo þau geti betur mætt áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og öðlast mikilvæga þjálfun í færniþáttum framtíðar – og svo virkja megi frumkvöðulinn í barninu.

Fréttablaðið 21. apríl. 2021