Sumarið er handan við hornið, öll erum við spennt fyrir þeim kaflaskilum sem sumarið mun vonandi færa okkur. Þau kaflaskil eru að lífið með COVID á Íslandi er vonandi að klárast. Við erum að fara að kveðja það líf sem hefur einkennt allar okkar athafnir í meira en ár. Það er þó ekki fyllilega útséð með hvenær lokið verður að bólusetja alla Íslendinga. Það er stóra verkefnið sem er framundan að ganga frá kaupum á bóluefni og fá það til landsins sem fyrst, þannig að við getum farið að kveðja þetta furðulega ástand sem hefur skapast vegna COVID. Reykjavíkurborg getur þó gert ýmislegt til þess að færa meira líf í öll hverfi borgarinnar sumarið 2021 þó svo að ekki allir hafi fengið bólusetningu.
Heimboð í hverfi borgarinnar
Það er mikilvægt þegar við förum að huga að sumri að á þessu ári geri Reykjavíkurborg breytingar. Færa þarf meira líf út í öll hverfi borgarinnar. Gefa sem flestum tækifæri á því að geta komið og notið menningarviðburða í sínu nærumhverfi og um leið boðið öllum íbúum í heimsókn í mismunandi hverfi Reykjavíkur ef sóttvarnaraðgerðir gefa okkur færi á því. Það er nefnilega þannig að borgin okkar hefur upp á svo margt að bjóða og við þurfum oft ekki að leita langt til þess að upplifa eitthvað nýtt. Hvort svo sem það er að sækja skipulagða dagskrá, prófa nýja sundlaug eða nýja gönguleið. Það er mikilvægt að við færum líf í öll hverfi borgarinnar aukum með því fjölbreytni og kynnum hverfin fyrir öðrum.
17 júní fagnað í öllum hverfum
Reykjavík á öll að iða af lífi sumarið 2021, þar kemur Reykjavíkurborg inn með því að skipuleggja menningarviðburði út um alla borg og auðvelda þeim sem vilja skipuleggja viðburði í sínum hverfum að gera það. Þetta er stóra verkefnið hjá Reykjavíkurborg fyrir sumarið 2021. Við Sjálfstæðismenn lögðum það til að 17 júní hátíðarhöld myndu verða útfærð í öllum hverfum borgarinnar. Það er ákaflega ánægjulegt að meirihlutinn í Reykjavík tók vel í þá hugmynd og því eigum við von á að geta sótt skipulega dagskrá í öllum hverfum borgarinnar 17 júní. Það er því ánægjulegt að íbúar Reykjavíkur munu á komandi sumri hafa aukin tækifæri til þess að njóta menningarviðburða í sínum hverfum.
Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Breiðholtsblaðið, apríl. 2021