Endurskoðum kerfið til að aðstoða fólk við að eignast börn

„Þegar þetta varð partur af mínu lífi fékk ég áhuga á raunveruleika fólks í þessu kerfi almennt. Eftir að hafa kynnst af eigin raun að hafa ekki verið nógu meðvituð um allar staðreyndirnar velti ég fyrir mér afhverju ekki væri meira rætt um þær, hver væri til dæmis beinhröð tölfræði í kringum frjósemi kvenna. Er það nógu mikið rætt? Maður veit að frjósemi minnkar með aldrinum en hversu mikið minnkar hún? Hverjir eru möguleikarnir? Sérstaklega þegar maður setur það í samhengi við að við erum bara ennþá börn nánast þegar við vitum allt um getnaðarvarnir og þó að það sé auðvitað jákvætt er samanburðurinn áhugaverður,“ segir Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður, lögfræðingur og aðstoðarmaður ráðherra sem er gestur Ingvars P. Guðbjörnssonar í nýjasta þætti af Pólitíkinni. Þáttinn má nálgast hér.

Í þættinum ræða þau um tæknifrjóvganir, reynslu Hildar af kerfinu hérlendis, en hún nýtur nú aðstoðar við að reyna að eignast barn. Hildur segir að nokkur atriði megi endurskoða og varpar fram áhugaverðum spurningum.

Í grein í Morgunblaðinu 26. apríl skrifar hún einnig: „Kerfið í kring­um tækni­frjóvg­an­ir hef­ur batnað að mikl­um mun síðustu ár. Ég hugsa með mik­illi hlýju og samúðar til allra þeirra sem hér á árum áður stóðu í ef­laust mjög sárs­auka­fullri bar­áttu án þeirr­ar þekk­ing­ar, tækni og umræðu sem við búum við nú. En þótt kerfið hafi tekið stakka­skipt­um má enn end­ur­skoða það svo að ríkið sé frek­ar til aðstoðar en trafala gagn­vart fólki sem lang­ar ein­fald­lega til að skapa líf og hlúa að því.”