„Í gær var almannaheillafrumvarpið mitt samþykkt á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum. Lögin eru risaskref fyrir almannaheillastarfsemi, sem hefur lengi skipað ríkan sess í íslensku samfélagi,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðsherra í færslu á facebook-síðu sinni í dag.
„Fólki gefst nú kostur á að draga allt að 350 þúsund krónur á ári frá skattskyldum tekjum vegna framlaga til slíkra félaga, sem verða sjálfkrafa skráð á skattframtalið. Auk þess tvöfaldast frádráttarheimild atvinnurekenda frá því sem nú er.
Ég er viss um að framlög frá einstaklingum og fyrirtækjum munu við þetta vaxa, eins og fyrri reynsla sýnir okkur, og þessi mikilvæga starfsemi njóta góðs af. Ekki má heldur gleyma að með lögunum fær fólk aukið frelsi til að styðja við félög að eigin vali, án milligöngu ríkisins.
Það er full ástæða til að þakka öllum sem hafa komið að málinu, sem ég er afar stoltur af að sé nú í höfn,“ segir enn fremur í færslunni.