Rykið dustað af ESB-draumnum

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Það er alltaf gott þegar stjórn­mála­flokk­ar hafa skýra stefnu, ekki síst í aðdrag­anda kosn­inga. Með því verða kost­irn­ir sem kjós­end­ur standa frammi fyr­ir skýr­ari. Það er ekki endi­lega verra að draga göm­ul bar­áttu­mál út úr skápn­um, dusta af þeim rykið og pakka þeim inn að nýju. Slíkt sýn­ir kannski ekki mikla hug­mynda­auðgi en ákveðna íhalds­semi og þráa.

Á sama tíma og Sam­fylk­ing­in virðist hafa gef­ist upp á sínu helsta bar­áttu­máli – aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu – hef­ur Viðreisn ákveðið að blása að nýju, eft­ir nokk­urt hlé, í lúðra Brus­sel-valds­ins. Þing­menn Viðreisn­ar hafa lagt fram þings­álykt­un þar sem rík­is­stjórn­inni er falið „að hefja und­ir­bún­ing að end­urupp­töku viðræðna um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu“.

Ekki er hægt að skilja grein­ar­gerð þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar á ann­an hátt en að kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn hafi kveikt aft­ur von­ir í ESB-hjört­um Viðreisn­ar. Full­yrt er að af­leiðing­ar far­ald­urs­ins hafi „gjör­breytt efna­hags­leg­um aðstæðum“ og þess vegna þurfi Ísland „að nýta öll mögu­leg tæki­færi sem örvað geta ný­sköp­un, eflt viðskipti og styrkt hag­vöxt“. Auk­in alþjóðleg sam­vinna sé óhjá­kvæmi­leg og loka­skrefið „til fullr­ar aðild­ar að Evr­ópu­sam­band­inu er nær­tæk­asti og áhrifa­rík­asti kost­ur­inn í þessu efni“.

Van­trú á ís­lenskt sam­fé­lag

Rök­stuðning­ur fyr­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu hef­ur því lítið breyst frá ár­inu 2009 þegar samþykkt var að sækja um aðild og meiri­hluti þings­ins kom í veg fyr­ir að þjóðin hefði nokkuð um aðild­ar­viðræðurn­ar að segja. Í aðdrag­anda kosn­inga máluðu tals­menn aðild­ar svart­nættið upp á vegg; höfðu enga trú á því að Íslend­ing­ar hefðu burði til að vinna sig út úr efna­hags­leg­um þreng­ing­um í kjöl­far falls bank­anna.

Bene­dikt Jó­hann­es­son, stofn­andi og fyrsti formaður Viðreisn­ar, dró upp dökka mynd af framtíð lands og þjóðar utan Evr­ópu­sam­bands­ins. Í grein í Morg­un­blaðinu 16. apríl 2009 – níu dög­um fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar – svaraði Bene­dikt eig­in spurn­ingu um hvað gerðist ef þjóðin sækti ekki um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, með skýr­um hætti:

„1. Stór­fyr­ir­tæki flytja höfuðstöðvar sín­ar úr landi

2. Útlend­ing­ar þora ekki að fjár­festa á Íslandi

3. Fáir vilja lána Íslend­ing­um pen­inga

4. Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn ok­ur­vöxt­um

5. At­vinnu­leysi, vaxta­ok­ur og gjaldþrot verða viðvar­andi

6. Þjóðin miss­ir af Evr­ópu­lest­inni næstu tíu ár

7. Íslend­ing­ar verða áfram fá­tæk þjóð í hafti.“

Það var á grunni van­trú­ar á ís­lenskt sam­fé­lag sem Viðreisn var stofnuð. Lausn­in á flest­um vanda­mál­um væri aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og upp­taka evru. Með því yrði komið í veg fyr­ir nýtt „hrun“ efna­hags­lífs­ins um leið og „skuld­ir óreiðumanna“ (Ices­a­ve) yrðu gerðar upp með ábyrgð ís­lenskra skatt­greiðenda.

Mantr­an rifjuð upp

Nokkr­um árum síðar sett­ist Bene­dikt ásamt sam­herj­um sín­um í Viðreisn í rík­is­stjórn með Sjálf­stæðis­flokkn­um og Bjartri framtíð. Sú rík­is­stjórn var skamm­líf (kannski sem bet­ur fer) en í stjórn­arsátt­mála var tekið fram að stjórn­in myndi „byggja sam­starf við Evr­ópu­sam­bandið á samn­ingn­um um Evr­ópska efna­hags­svæðið“ og að fylgj­ast þyrfti vel með „þróun Evr­ópu­sam­bands­ins á næstu árum og gæta í hví­vetna hags­muna Íslands í sam­ræmi við aðstæður hverju sinni“.

All­ar göt­ur síðan hef­ur Viðreisn ekki sinnt þessu helsta stefnu­máli sínu – grunn­in­um und­ir stofn­un flokks­ins – sér­lega vel. En af og til vakna for­ystu­menn flokks­ins upp í ræðu og riti, svona rétt til að minna sjálfa sig og áhag­end­ur á að þrátt fyr­ir allt sé evr­an töfra­lausn­in og Evr­ópu­sam­bandið draum­ur­inn.

Á sama tíma og Viðreisn held­ur sig við möntr­una (þegar þing­menn muna eft­ir þul­unni) um að ís­lenska krón­an sé ónýt hef­ur traust í garð Seðlabanka Íslands stór­auk­ist eða tvö­fald­ast á tveim­ur árum. Sam­kvæmt mæl­ing­um Gallup hef­ur traust til bank­ans auk­ist úr 31% árið 2019 í 62%. Árið 2011 báru aðeins 20% lands­manna traust til Seðlabank­ans.

„Seðlabank­inn er út­gef­andi og varðmaður ís­lensku krón­unn­ar,“ skrifaði Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri á fés­bók­arvegg sinn í til­efni af niður­stöðum Gallup og bætti við: „Þessi mæl­ing er því vitn­is­b­urður um nýtt traust á gjald­miðlin­um okk­ar – okk­ar allra lands­manna.“

Mat seðlabanka­stjóra er rök­rétt. Aukið traust til Seðlabank­ans sýn­ir aukna til­trú á krón­una. Að þessu leyti er Viðreisn ekki í takt við þró­un­ina hér inn­an­lands.

En þings­álykt­un­ar­til­laga Viðreisn­ar er hins veg­ar fagnaðarefni þar sem hún ætti að gera lín­urn­ar ör­lítið skýr­ari í aðdrag­anda kosn­inga. Og sjálfsagt neyðist Sam­fylk­ing­in til að grafa ESB-stefn­una upp úr ryk­fölln­um skúff­um, þótt það kunni að vera erfitt fyr­ir ein­hverja fram­bjóðend­ur flokks­ins sem í fyrra póli­tíska lífi börðust gegn aðild að Evr­ópu­sam­band­inu.

Hvort flokk­ar og fram­bjóðend­ur sem eru fast­ir í viðjum van­trú­ar á flest það sem ís­lenskt er muni heilla kjós­end­ur í kom­andi kosn­ing­um á eft­ir að koma í ljós. Í ut­an­rík­is­viðskipt­um er stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins að fjölga kost­un­um í sam­skipt­um við aðrar þjóðir en ekki fækka þeim líkt og hinir van­trúuðu telja rétt að gera. Frjálst, opið og þrótt­mikið sam­fé­lag verður hins veg­ar ekki tryggt í gegn­um Brus­sel.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2021.