Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins:

Stund­um eru það litlu mál­in sem segja mest. Íbúar í Voga­byggð, nýju hverfi í Reykja­vík, hafa verið skikkaðir til að rækta berj­ar­unna á því pínu­litla svæði sem þeir hafa sjálf­ir til af­nota fyr­ir utan íbúðir sín­ar. Í raun hef­ur borg­in sett íþyngj­andi skil­mála um heim­ili fólks og þröng skil­yrði um hvað megi gera í einka­görðum íbúa. Þetta er for­ræðis­hyggja af gamla skól­an­um. Þessi íhlut­un er svo rök­studd með því að verið sé að „fjölga grænu svæðunum“! Á sama tíma er mark­visst vegið að helstu grænu svæðum borg­ar­inn­ar af borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­an­um sjálf­um.

Dæm­in eru mörg. Áform um at­vinnu­starf­semi í Elliðaár­dal standa þrátt fyr­ir mik­il mót­mæli. Árbæj­ar­lónið hef­ur verið tæmt. Áform eru um stór­felld­ar land­fyll­ing­ar við ósa Elliðaáa og við fjör­ur Skerja­fjarðar. Byggð er víða þétt með því að ganga á græn svæði. Þvert á vilja íbú­anna.

Á aðal­skipu­lag­steikn­ing­um má finna íbúðablokk­ir efst í Laug­ar­daln­um sem munu skyggja á Laug­ar­dal­inn. Sú leið að „fjölga græn­um svæðum“ með því að skikka fólk til að setja upp einn berj­ar­unna á bak við girðingu er svipað og ef boðið væri upp á eina rús­ínu í skóla­mötu­neyt­um í heilsu­bót­ar­skyni.

Væri ekki nær að vernda og efla grænu al­menn­ings­rým­in, en leyfa fólk­inu sjálfu að ráða görðum sín­um?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2021.