Sjálfstætt fólk

Vilhjálmur Bjarnason, varaþingmaður:

Fáar skáld­sög­ur Nó­b­el­skálds­ins hafa fengið viðlíka viðtök­ur og Sjálf­stætt fólk. Skáld­sag­an kom út í fjór­um bind­um, en þau voru sam­einuð í einni bók, sem ber sama heiti og þessi grein.

Viðtök­ur þess­ar­ar skáld­sögu, sem kann að flokk­ast und­ir fé­lags­legt raun­sæi, voru með ýms­um hætti. Bænd­ur keyptu skáld­sög­una til þess að fletta henni, en stungu bók­inni í fjós­haug sinn. Á hinn veg voru þess dæmi að er­lend­ir ferðamenn, veðurteppt­ir á Íslandi, gerðu sér er­indi í leigu­bíl frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Gljúfra­steins, til þess að tjá skáld­inu að það væru ótelj­andi Guðbjart­ar starf­andi í New York.

Þessi saga skálds­ins um ferðamann­inn fannst þeim er þetta rit­ar ótrú­leg, allt þar til pró­fess­or í hag­fræði í Banda­ríkj­un­um lyft­ist úr sæti sínu þegar hann skynjaði að nem­andi hans væri frá Íslandi; hann hafði aldrei lesið aðra eins skáld­sögu og „In­depend­ent People“. Pró­fess­or­inn dáðist að frá­sögn­inni um ein­yrkj­ann, það væru ótelj­andi ein­yrkj­ar um öll Banda­rík­in, raun­ar fjölluðu all­ar kennslu­bæk­ur í hag­fræði og fjár­mál­um um Bjart í Sum­ar­hús­um.

Alþjóðleg­ir Íslend­ing­ar

Kannski hef­ur Bjart­ur í Sum­ar­hús­um verið alþjóðleg­ast­ur Íslend­inga sinn­ar tíðar. Og Bjart­ur svíf­ur enn yfir og allt um kring hjá okk­ur í öll­um þeim sem vilja sýna frum­kvæði sér og sín­um til bjarg­ar.

Ann­ar Íslend­ing­ur er ekki síður merk­ur maður, ekki síður alþjóðleg­ur. Það er Jón Hreggviðsson. Hann var svo sjálf­stæður að hann gat sagt; „það sem maður tek­ur ekki hjá sjálf­um sér tek­ur maður hvergi“. Hon­um var einnig sama hvort hann væri sek­ur eða sak­laus, svo fremi að hann hefði bát­inn sinn í friði.

Ein­yrkj­ar í Sjálf­stæðis­flokkn­um

Ein­yrkj­ar, all­ir trillu­karl­ar lands­ins, hafa löng­um átt skjól í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Nú segja trillu­karl­arn­ir mín­ir við mig, að þeir eigi ekk­ert skjól, þeir séu aft­ur orðnir smal­ar hjá hrepp­stjór­an­um. Ein­yrk­inn, sem átti skjól í Sum­ar­hús­um, er aft­ur far­inn að hokra í Vet­ur­hús­um. Til þess voru ref­irn­ir alls ekki skorn­ir.

Þegar fisk­veiðistjórn­ar­kerfið ber á góma, eru svör þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins „hag­kvæmni“. Vissu­lega hef­ur hag­kvæmni og ár­ang­ur fisk­veiða á Íslandi vaxið veru­lega frá 1984, þegar afla­marki var út­hlutað eft­ir aflareynslu þeirra skipa, sem stunduðu á þeim tíma miðin, og afla­marki var út­hlutað.

Dregið úr sókn

Ég er alls ekki viss um það, að þeir sem studdu það að dregið væri úr sókn í tak­markaða fiski­stofna árið 1984, hafi gert sér grein fyr­ir því að þar með væri lokað fyr­ir þá, sem ekki stunduðu fisk­veiðar árið 1984 og ókomn­ar kyn­slóðir, að geta stundað fisk­veiðar, að ei­lífu, á grund­velli þessa „mann­tals“ árið 1984. Eina leiðin væri að kaupa sér aðgang af þeim eru voru á rétt­um stað í mann­tal­inu árið 1984, erf­ingj­um þeirra, eða af þeim sem þegar hafa keypt sér aðgang að auðlind­inni.

Lög um stjórn fisk­veiða

Hafa ber í huga að,

„Nytja­stofn­ar á Íslands­miðum eru sam­eign ís­lensku þjóðar­inn­ar. Mark­mið laga þess­ara er að stuðla að vernd­un og hag­kvæmri nýt­ingu þeirra og tryggja með því trausta at­vinnu og byggð í land­inu. Úthlut­un veiðiheim­ilda sam­kvæmt lög­um þess­um mynd­ar ekki eign­ar­rétt eða óaft­ur­kall­an­legt for­ræði ein­stakra aðila yfir veiðiheim­ild­um.“

Hag­kvæmni í fisk­veiðum hef­ur ekki skilað sér í auknu kjör­fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins. Það kann að vera að rétt sé að auka frelsi strand­veiðimanna. Þeir eru sjálfs sín herr­ar og mikl­ir menn á sínu fleyi!

Hví hef­ur dregið úr kjör­fylgi Sjálf­stæðis­flokks­ins í alþing­is­kosn­ing­um? Hví hafa ein­yrkjarn­ir horfið? Kjör­fylgið hef­ur sveifl­ast nokkuð í liðnum kosn­ing­um, með leitni niður á við, úr tæp­um 40% í 25%, en nokkru lægra í skoðana­könn­un­um. Þetta er alls óá­sætt­an­legt fyr­ir sjálf­stætt fólk og borg­ara­leg öfl, sem hingað til hafa átt skjól hjá Sjálf­stæðis­flokkn­um. Trillu­karl­ar og ein­yrkj­ar eru ósátt­ir við hlut­skipti sitt.

Kaupmaður­inn á horn­inu

Ein­yrkj­ar, sem kölluðust „kaupmaður­inn á horn­inu“, eru horfn­ir. Í þeirra stað eru komn­ir ris­ar á smá­sölu­markaði með af­komu sem jafn­ast helst til tísku­vöru­versl­ana í út­lönd­um, sem hafa einka­sölu á sín­um vörumerkj­um, það sem kallað er einka­sölu­sam­keppni. Er það ásætt­an­legt að leggja 5% skatt á alla neyslu, til að ná hagnaðarmark­miðum, þegar sam­keppni á að virka? Í virkri sam­keppni nálg­ast hagnaður 0% af veltu, en þar sem veltu­hraði vöru er mik­ill kann að mynd­ast hagnaður af fjár­magni, sem bund­inn er í rekstr­in­um. Sjálf­stætt fólk vill ekki vera féþúfa fyr­ir banka eða vild­ar­viðskipta­vini þeirra!

Fjár­mál hjá sjálf­stæðu fólki

Sá er þetta rit­ar hef­ur helgað líf sitt fjár­hags­legu sjálf­stæði fólks. Með fjár­hags­legu sjálf­stæði er átt við rétt­inn til að eiga og rétt­inn til að taka lán. Þar í milli er miðlari fjár­magns, banki eða líf­eyr­is­sjóður ein­stak­linga til sam­eig­in­legr­ar fjár­fest­ing­ar fyr­ir sjóðfé­laga, til að eiga líf­eyri á efri árum. Slík­ur sparnaður er þókn­an­leg­ur. Ætla mætti að frjáls sparnaður ein­stak­linga væri stjórn­völd­um ekki þókn­an­leg­ur, því ávöxt­ur slíks sparnaðar er skattlagður í drep, rétt eins og frest­un neyslu sé hættu­leg. Í tíma­rit­inu „Fjár­mál og ávöxt­un“ kem­ur fram að jafn­vel verðtryggðir reikn­ing­ar bera nei­kvæða ávöxt­un, eft­ir skatt­lagn­ingu. Slíkt er til­ræði við fjár­hags­legt sjálf­stæði fólks. Vissu­lega eru skatt­leys­is­mörk, en það sem er um­fram skatt­leys­is­mörk­in virðist hættu­legt fyr­ir sjálf­stætt fólk.

Skjól fyr­ir sjálf­stætt fólk

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hef­ur verið skjól fyr­ir sjálf­stætt fólk, ein­yrkja, frum­kvöðla og trillu­karla. Ef skil verða á milli þeirra og flokks­ins, þá er spurn­ing hvort ein­hver þörf sé fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn. Varla er ætl­un­in að flokk­ur­inn verði flokk­ur bænda og emb­ætt­is­manna?

Bjart­ur hef­ur æv­in­lega talað fyr­ir Sjálf­stætt fólk. Í upp­gjöri hans við sjálf­stæðið sagði Bjart­ur; „ég segi fyr­ir mig, maður fer á mis við lífið þángaðtil maður er orðinn sjálf­stæður. Fólk sem er ekki sjálf­stæðis­fólk, það er ekki fólk. Maður sem er ekki sjálfra sinna, hann er eins og hund­laus maður.“

Sjálf­stætt fólk og borg­ara­leg öfl verða að standa sam­an.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2021.