Norðurslóðaríkið Ísland

Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður og formaður þing­manna­nefnd­ar um end­ur­skoðun norður­slóðastefnu:

Ísland er sann­ar­lega norður­slóðaríki og við sem hér búum get­um því tal­ist til íbúa norður­slóða en það eru ekki nema um fjór­ar millj­ón­ir manna sem búa á því svæði. Norður­skauts­ráðið er án efa mik­il­væg­asti vett­vang­ur sam­starfs og sam­ráðs um mál­efni norður­slóða. Rík­in sem eiga aðild að því eru auk Íslands Banda­rík­in, Kan­ada, Rúss­land, Nor­eg­ur, Svíþjóð, Finn­land og já kon­ungs­veldið Dan­mörk þar sem Græn­land er á norður­slóðum. Öll þessi lönd hafa íbúa sem búa á svæðinu en í öll­um til­fell­um er það lítið hlut­fall íbúa þjóðar­inn­ar, nema hér á Íslandi og svo hjá ná­grönn­um okk­ar á Græn­landi. Þessi staðreynd veit­ir okk­ur ákveðna sér­stöðu í um­fjöll­un um norður­slóðamál. Áhersl­ur okk­ar eiga að vera á sam­fé­lög­in á norður­slóðum, þ.e. hvernig er að búa á þessu svæði sem er það svæði á jarðar­kringl­unni sem er að umbreyt­ast hvað mest.

Ísinn á norður­skaut­inu hef­ur aldrei mælst minni og á aðeins ör­fá­um árum hef­ur ís­hell­an minnkað um flat­ar­mál sem nem­ur Frakklandi, Spáni, Þýskalandi, Póllandi og Ítal­íu sam­an­lagt! Það er ekk­ert smá­ræði. Græn­lands­jök­ull bráðnar nú sem aldrei fyrr og snjó­koma dags­ins í dag og til framtíðar veg­ur ekki leng­ur upp á móti bráðnun­inni, jafn­vel þótt hlýn­un jarðar stöðvaðist í dag.

Ný norður­slóðastefna

Það er því eðli­legt að við leggj­um áherslu á norður­slóðamál í ut­an­rík­is­stefnu okk­ar og það var mik­il­vægt skref hjá ut­an­rík­is­ráðherra að skipa þver­póli­tíska þing­manna­nefnd um end­ur­skoðun norður­slóðastefn­unn­ar. Það fór vel á því að gera það núna í for­mennskutíð Íslands í norður­skauts­ráðinu en tíu ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti nú­gild­andi norður­slóðastefnu. Ég fékk það hlut­verk að leiða þá vinnu en ásamt mér voru í nefnd­inni: Njáll Trausti Friðberts­son fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk, Karl Gauti Hjalta­son fyr­ir Miðflokk­inn, Guðjón S. Brjáns­son fyr­ir Sam­fylk­ingu, Ari Trausti Guðmunds­son fyr­ir Vinstri-græna, Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk, Björn Leví Gunn­ars­son fyr­ir Pírata, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir fyr­ir Viðreisn og Inga Sæ­land fyr­ir Flokk fólks­ins. Með nefnd­inni starfaði Aðal­heiður Inga Þor­steins­dótt­ir, deild­ar­stjóri norður­slóðamála í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu.

Hlut­verk nefnd­ar­inn­ar var að fjalla um og gera til­lög­ur að end­ur­skoðaðri stefnu í mál­efn­um norður­slóða út frá víðu sjón­ar­horni, s.s. vist­fræðilegu, efna­hags­legu, póli­tísku og ör­ygg­is­legu. Nefnd­inni var falið að skil­greina meg­in­for­send­ur stefn­unn­ar og setja fram til­lög­ur sem leggja myndu grunn að þings­álykt­un­ar­til­lögu ut­an­rík­is­ráðherra um nýja norður­slóðastefnu. Nefnd­in tók á móti fjölda gesta á fund­um sín­um og heim­sótti Ak­ur­eyri þar sem haldn­ir voru fjöl­menn­ir fund­ir með bæði at­vinnu­líf­inu og aka­demí­unni.

Nefnd­in hef­ur nú skilað til­lög­um sín­um til ráðherra og vænt­ir þess að ut­an­rík­is­ráðherra leggi fljót­lega fram þings­álykt­un á grunni þeirra til­lagna. Til­lög­urn­ar eru nítj­án tals­ins og snúa að um­hverf­is­mál­um og sjálf­bærni, ör­ygg­is­mál­um, leit og björg­un, efna­hags­tæki­fær­um og innviðaupp­bygg­ingu, vís­ind­um og ný­sköp­un og at­vinnu­upp­bygg­ingu og svo mætti lengi telja en all­ar miða þær að því að gæta hags­muna Íslands og tryggja vel­ferð íbú­anna.

Ég mun á næstu dög­um birta grein­ar byggðar á þess­um til­lög­um nefnd­ar­inn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 2021.