Stöðnun leiðir af sér áhugaleysi

Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

„Póli­tíska and­rúms­loftið er á sumri þessu væg­ast sagt þrungið tals­verðri spennu. Í sam­töl­um láta menn und­an­tekn­inga­lítið í ljós veru­lega þreytu í garð stjórn­mála­flokk­anna og stjórn­mála­mann­anna, og marg­ir þeirra, sem af­skipti hafa haft af flokk­un­um, boða nú af­skipta­leysi sitt af flokks­starfi. Eigi þetta við rök að styðjast, er ljóst, að stjórn­mála­flokk­arn­ir og stjórn­mála­menn­irn­ir valda ekki sínu veiga­mikla hlut­verki í þjóðfé­lag­inu.“

Með þess­um orðum hófst ít­ar­leg blaðagrein sem Ármann Sveins­son lög­fræðinemi skrifaði í Morg­un­blaðið í ág­úst 1968 und­ir yf­ir­skrift­inni: Staðnað stjórn­mála­líf. Í grein­inni leitaði hann skýr­inga á þreytu og leiða sem hon­um fannst ein­kenna stjórn­mál­in. Í aðdrag­anda kosn­inga í haust eru hug­leiðing­ar Ármanns holl lesn­ing, þótt yfir hálf öld sé liðin og þrjú ár bet­ur frá því að hann setti þær á blað.

Ármann Sveins­son hefði orðið 75 ára 14. apríl næst­kom­andi en hann lést úr heila­blóðfalli á heim­ili sínu aðeins 22 ára – nokkr­um mánuðum eft­ir að hann skrifaði um­rædda grein. Ármann vakti strax at­hygli sem rök­fast­ur hug­sjónamaður og þrátt fyr­ir ung­an ald­ur hafði hann mik­il áhrif meðal jafn­aldra sinna en ekki síður á þá eldri í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Í mál­flutn­ingi var hann rök­fast­ur, ákveðinn og mik­ill bar­áttumaður, en alltaf af dreng­skap. Ármann naut mik­ils trausts fé­laga sinna og gekk að öll­um verk­efn­um með dugnaði og atorku.

Í minn­ing­ar­grein um Ármann seg­ir Friðrik Soph­us­son svo:

„Ármann Sveins­son var hug­sjónamaður, sem með hug­sjón­um sín­um og at­hafnaþrá gæddi um­hverfi sitt lífi. Um hann lék jafn­an fersk­ur blær og stund­um storm­sveip­ir, eins og oft vill verða um menn, sem eru fast­ir fyr­ir og kaupa ekki fylgi á kostnað hug­sjóna sinna. Hann var af­burða vin­sæll í vina­hópi og virt­ur af and­stæðing­um. Jafn­framt því að eiga glæst­ar hug­sjón­ir var Ármann raun­sær bar­áttumaður, sem var ákveðinn í því að gera hug­sjón­ir sín­ar að veru­leika. Vandaður und­ir­bún­ing­ur, auk staðgóðrar þekk­ing­ar á ís­lensk­um hags­mun­um og þjóðlífi, var ávallt grund­völl­ur und­ir bar­áttu hans fyr­ir bættu þjóðfé­lagi. Hann var sí­vinn­andi og óþreyt­andi og missti aldrei sjón­ar á mark­miðinu. Þeir, sem börðust með hon­um og und­ir for­ystu hans, gátu ætíð vænst ár­ang­urs.“

Óglögg skil

Ármann benti á að stjórn­mál í lönd­um Vest­ur-Evr­ópu hefðu þró­ast und­an­farna ára­tugi með þeim hætti að skil milli stefnu stjórn­mála­flokka hefðu orðið óskýr­ari. Sama þróun hefði átt sér stað á Íslandi: „Af­leiðing hinna óglöggu skila er sú, að kjós­end­ur eiga æ örðugra með að finna for­send­ur fyr­ir stuðningi sín­um við einn flokk öðrum frem­ur. Á þetta einkan­lega við yngstu kjós­end­urna, hinir eldri halda sig í viðjum van­ans við „sinn gamla flokk“. Við aðstæður þess­ar verður yf­ir­bragð stjórn­mál­anna lág­kúru­legt, bar­átt­an virðist standa um tyllistöður og aðstöðu, en ekki um grund­vall­ar­atriði stjórn­mál­anna.“

Ádeila Ármanns er ekki ósvipuð þeirri gagn­rýni sem sá er hér skrif­ar hef­ur sett fram á síðustu árum. Í pistli hér í Morg­un­blaðinu í júní 2014 hélt ég því fram að verið væri að gera hug­sjón­ir horn­reka – að hug­mynda­bar­átta væri fórn­ar­lamb tekn­ó­krata og sam­ræðustjórn­mála. Skil­in milli stjórn­mála­flokka væru að þurrk­ast út en inni­halds­laust hjal tekið við: „Fram­bjóðend­ur forðast hug­sjón­ir en bjóða þess í stað upp á „praktísk­ar lausn­ir“, skemmti­leg­heit og sam­tal. Átök hug­mynda eru af hinu vonda.“

Ármann hélt því fram að sjálf­stæðir og sterk­ir ein­stak­ling­ar væru fáir á vett­vangi stjórn­mál­anna. Und­an­tekn­inga­lítið væri þing­mönn­um „tam­ast að feta troðna stigu, en hætta sé ekki út á ónumið land. Vekja þeir því hvorki áhuga né hrifn­ingu á mál­efn­um sín­um eða sjálf­um sér“. Og ekki var hann hrif­inn af umræðum í þingsal sem ættu „lík­lega drjúg­an þátt í þreytu manna og áhuga­leysi á nú­ver­andi stjórn­mála­lífi enda mál­flutn­ing­ur með þeim hætti, að hann þrosk­ar ekki dómgreind manna til að greina mun á réttu og röngu“.

Síðar skrifaði Ármann: „Stór­hug­ur, þrótt­ur og hug­sjóna­auðgi þing­manna sýn­ist al­mennt ekki til skipt­anna. Tök þeirra á viðfangs­efn­um líðandi stund­ar eru og ekki til að hafa fyr­ir öðrum. Tím­inn flýg­ur, og nýir tím­ar krefjast nýrr­ar hugs­un­ar og breyttra vinnu­bragða.“

Ármann gangrýndi valda­samþjöpp­un inn­an stjórn­mála­flokk­anna. Minni þátt­taka flokks­fólks í starfi þeirra hefði gert það að verk­um að flokk­arn­ir „hafa þrengst og veikst og orðið ófær­ari til að gegna því hlut­verki að vera vett­vang­ur fólks­ins“. Í huga Ármanns var þessi þróun áhyggju­efni því þar með hefði „meiður lýðræðis­ins því særst“ en „meiður flokks­for­ysturæðis vaxið“.

Mik­il­vægi stjórn­mála­flokka

Þrátt fyr­ir gagn­rýni á stjórn­mála­flokk­ana var Ármann sann­færður um mik­il­vægi þeirra: „Þar sem hlut­verk stjórn­mála­sam­taka er að vera vett­vang­ur borg­ar­anna til skoðana­skipta, skoðana- og stefnu­mót­un­ar, þá er lýðræðinu nauðsyn, að borg­ar­arn­ir, ekki síst unga fólkið, forðist þau ekki, held­ur hafi þann metnað að frjóvga og end­ur­nýja stefnu þeirra og starfs­hætti og stofna til nýrra sam­taka, er ver­andi sam­tök full­nægja ekki kröf­um þeirra.“

Þessi brýn­ing Ármanns á sér sam­hljóm í boðskap Bjarna Bene­dikts­son­ar eldri í ávarpi 17. júní 1969. Bjarni hvatti lands­menn til virkr­ar þátt­töku í þjóðlíf­inu með þess­um orðum: „Menn koma engu góðu til veg­ar, nema þeir séu sjálf­ir virk­ir þjóðfé­lagsþegn­ar, geri upp eig­in hug, þori að hugsa sjálf­stætt, fylgja hugs­un sinni eft­ir og átti sig á því, að fátt næst fyr­ir­hafn­ar­laust. Menn verða í senn að nenna að leggja á sig hugs­un og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær um­bæt­ur, er löng­un þeirra stend­ur til.“

Í viðtali við Morg­un­blaðið í til­efni af 75 ára af­mæli Sjálf­stæðis­flokks­ins sagði Davíð Odds­son, þáver­andi formaður, að flokk­ur­inn væri ekki til fyr­ir sjálf­an sig og „ef hann höfðar ekki til fólks­ins í land­inu á hann eng­an til­veru­rétt“.

For­ystu­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa því alltaf lagt ríka áherslu á að virkja al­menn­ing til þátt­töku í þjóðmál­um og ekki síst í starfi flokks­ins. Þeir hafa gert sér góða grein fyr­ir því að áhuga­leysi um stjórn­mál leiðir hægt og bít­andi til þess að stjórn­mála­flokk­ar vesl­ast upp og deyja. En áhug­inn kvikn­ar ekki nema hug­mynda­fræðin sé skýr og kjós­end­ur geti gert sér skýra grein fyr­ir því fyr­ir hverju er bar­ist og af hverju.

Í aðdrag­anda alþing­is­kosn­inga í haust er ádrepa Ármanns Sveins­son­ar jafn nauðsyn­leg og fyr­ir 53 árum, ekki síst fyr­ir okk­ur sem berj­umst und­ir merki Sjálf­stæðis­flokks­ins. En stjórn­ar­andstaðan gæti einnig haft gott af því að lesa skrif Ármanns, sem lagði áherslu á að lýðræðinu væri það nauðsyn­legt „að fleiri en eitt afl keppi um áhrif á vett­vangi þjóðmál­anna. Ónýt stjórn­ar­andstaða í nær­fellt ára­tug á sinn þátt í flokk­spóli­tískri deyfð í land­inu.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. mars 2021.