Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Útrýming olíu til húshitunar á sínum tíma var risastórt átak sem hefur skilað íslensku þjóðinni ómældum ávinningi. Tunglskot okkar Íslendinga, mætti jafnvel segja. Nú stöndum við frammi fyrir svipuðu tækifæri.
Í nýrri orkustefnu setjum við Íslendingar okkur það markmið að verða óháð jarðefnaeldsneyti ekki síðar en 2050. Tækifærið er gríðarstórt efnahagslega og myndi auk þess að marka algjör tímamót í umhverfismálum. Að ná þessum áfanga fyrst þjóða heimsins myndi ótvírætt vekja heimsathygli.
Í stað þess að kaupa olíu og bensín frá útlöndum fyrir 80-120 milljarða á ári gætum við orðið sjálfbær um eldsneyti. En til þess þarf stórt átak, miklar fjárfestingar í tækni og innviðum, aukna orkuframleiðslu og skilvirkari ferli í stjórnsýslunni.
Sífellt auknar álögur og þyngra regluverk munu ekki skila okkur í mark. Leiðin felst í einfaldara regluverki, hóflegaum álögum og síðast en ekki síst: alþjóðlega samkeppnishæfu umhverfi fyrir viðskipti, fjárfestingar, rannsóknir og þróun.
Aðrar þjóðir hlaupa hratt í átt að sama marki og við. Ísland stendur hins vegar sterkt að vígi og er í efsta sæti á vísitölu MIT-háskólans um græna framtíð. Til að viðhalda naumri forystu okkar þurfa næstu skref aftur á móti að vera markviss.
Skrefin þurfa m.a. að felast í að leysa núverandi orkunýtingaráætlun úr þeirri sjálfheldu sem hún virðist komin í auk þess að greiða götu grænna fjárfestinga. Tækifærin banka á dyrnar hvert af öðru en þeim er því miður ekki svarað nægilega skýrt. Við þurfum að bæta úr því og er sú vinna þegar komin af stað í góðu samstarfi við Íslandsstofu.
Græn framtíð sameinar efnahagslega og umhverfislega hagsmuni. Á sama tíma og við drögum stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda yrði hér til nýr orkusækinn atvinnuvegur sem myndi auka orkuöryggi okkar og skapa bæði gjaldeyristekjur og atvinnu. Það er til mikils að vinna.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu föstudaginn 26. mars 2021.