Mikilvægt skref til framtíðar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra:

Stund­um er sagt að svo megi illu venj­ast að gott þyki. Það er nokkuð lýs­andi fyr­ir und­an­farið ár. All­an þann tíma sem far­ald­ur­inn hef­ur geisað höf­um við þurft að vega og meta stöðu ólíkra hópa í sam­fé­lag­inu. All­ar ákv­arðanir í slíku ástandi eru þess eðlis að hags­mun­ir og heill ein­hverra hafa beðið hnekki. Hjá því varð ekki kom­ist.

Við meg­um þó ekki fest­ast í gildru þess ástands sem skap­ast hef­ur vegna viðbragða okk­ar við heims­far­aldr­in­um. Þess vegna er mik­il­vægt að létta af þeim tak­mörk­un­um sem nauðsyn­legt hef­ur verið að grípa til eins fljótt og hægt er. Það eru ein­mitt þau skref sem við stíg­um nú. Viður­kenn­ing bólu­efna­vott­orða frá lönd­um utan Schengen-svæðis­ins og til­slak­an­ir á banni við ónauðsyn­leg­um ferðum eru mik­il­vægt skref í rétta átt og til þess fallið að hefja efna­hags­lega viðspyrnu.

Öll höf­um við þurft að færa fórn­ir vegna aðgerða sem grípa varð til í því skyni að verja þá veik­ustu í sam­fé­lagi okk­ar. Fórn­irn­ar eru þó mis­mikl­ar eft­ir aðstæðum hvers og eins. Þeir sem eiga lífsaf­komu sína und­ir ferðamennsku hafa fært einna mest­ar fórn­ir. Við vit­um að end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins hvíl­ir á því hversu lang­an tíma það tek­ur ferðaþjón­ust­una að ná viðspyrnu.

Bólu­setn­ing­ar breyta mynd­inni tals­vert til hins betra. Á þess­ari stundu er búið að bólu­setja þá hópa sem eru í mestri hættu gagn­vart al­var­leg­um af­leiðing­um veirunn­ar. Í vor verðum við von­andi kom­in á þann stað að smit á óhæg­ara með að breiðast út og þá í hóp­um sem eru ólík­legri til að veikj­ast al­var­lega.

Hér veg­ast á efna­hags­leg­ir og heilsu­fars­leg­ir hags­mun­ir af völd­um veirunn­ar. En hafa ber einnig í huga að efna­hagsþátt­ur­inn get­ur skapað bæði and­leg og lík­am­leg heilsu­far­svanda­mál. Við verðum því að velta því fyr­ir okk­ur hvert og eitt, sem ekki verðum bólu­sett þegar landið opn­ast, hver ábyrgð okk­ar sjálfra er við að draga úr áhættu með eig­in hegðun.

Inn­grip stjórn­valda í frelsi og rétt­indi borg­ara með þeim hætti sem við höf­um upp­lifað er neyðarúr­ræði. Slík af­skipti af lífi fólks krefjast skýrra raka um að al­manna­heill verði ekki tryggð með öðrum hætti. Heim­ur­inn í sínu venju­lega formi býður upp á ýms­ar ógn­ir og þar verðum við sem ein­stak­ling­ar að bera ábyrgð á eig­in hegðun og get­um ekki krafið stjórn­völd um að girða fyr­ir all­ar mögu­leg­ar hætt­ur. Eft­ir því sem hætt­an minnk­ar með bólu­setn­ing­um þeirra sem eldri eru get­um við stigið var­fær­in en ákveðin skref í þá átt að færa lífið aft­ur til fyrra horfs.

Um­fram allt meg­um við ekki fest­ast í hugs­un­ar­hætti far­ald­urs­ins held­ur verðum við að horfa með opn­um huga til bjart­ari og betri framtíðar. Þær breyt­ing­ar á landa­mær­um sem ég lagði til í rík­is­stjórn í gær hvíla á því að við stíg­um var­fær­in en ör­ugg skref inn í það þjóðfé­lag frels­is og fram­fara sem við vilj­um búa okk­ur til fram­búðar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2021.